14.05.1925
Efri deild: 77. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3331 í B-deild Alþingistíðinda. (2100)

34. mál, mannanöfn

Jóhann Jósefsson:

Jeg stend ekki upp til þess að verja frv., því jeg get tekið undir flest, sem háttv. 1. landsk. (SE) sagði um það. Í sjálfu sjer mælir bæði hið raunverulega ástand, sem hv. 1. landsk. lýsti, og eins það, hve leitt er að skifta sjer af nöfnum manna, á móti frv. og gerir það að verkum, að jeg get ekki fylgt því. Aftur á móti get jeg vel tekið undir það, sem hv. 6. landsk. (IHB) sagði um 5. gr. Það er sjerstaklega þarft ákvæði.

Það, sem olli því, að jeg kvaddi mjer hljóðs, voru ein ummæli háttv. 1. landsk. Mjer skildist, sem hann liti svo á, að Íhaldsflokkurinn bæri ábyrgð á þessu frv. Jeg fæ ekki sjeð, hvernig hann getur haldið slíku fram. Þetta frv. er alls ekki borið fram af íhaldsmönnum, heldur þvert á móti af flokksmanni hv. þm. (SE) sjálfs. Því má með sanni segja, að þetta sje borið fram af Sjálfstæðismönnum og sje þeirra mál. Jeg fylgdist ekki gerla með atkvgr. í þessu máli í hv. Nd., en það kom ljóslega fram hjer í gær, að þetta er ekki flokksmál Íhaldsflokksins. Virtist mjer, sem frv. fengi fylgi sitt úr öllum áttum nokkurnveginn jafnt. Jeg held því, að ef hv. 1. landsk. athugar þetta betur, þá sjái hann, að það er alls ekki rjett að bendla Íhaldsflokkinn sem flokk við þetta mál. Og það er hálfundarlegt, að hann skuli vilja halda því fram, að helsti flokksbróðir hans flytji fram flokksmál Íhaldsmanna.