14.05.1925
Efri deild: 77. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3333 í B-deild Alþingistíðinda. (2103)

34. mál, mannanöfn

Einar Árnason:

Jeg sýndi það við atkvgr. í gær, að jeg er frv. þessu hlyntur. Vil jeg taka það skýrt fram, að jeg hefði langhelst kosið, að þetta frv. væri í þessari hv. þd. samþykt óbreytt eins og það kom frá hv. Nd. En við atkvgr. í gær leist mjer svo, að frv. mundi hætta búin við 3. umr., ef engar breytingar yrðu á því gerðar. Þótt jeg sje óánægður með þá brtt., sem nú er fram komin, mun jeg samt kjósa þann kostinn að greiða henni atkv. mitt, ef verða kynni, að frv. næði frekar fram að ganga, ef hún verður samþykt. Raunar þarf jeg ekki að taka fleira fram um málið. Hirði jeg lítt að elta ólar við að deila á hv. 1. landsk. (SE). Virtist mjer rök hans allmiklu færri en orðin. Hann kvað þingið drýgja synd gegn þjóð og einstaklingum með því að samþykkja þetta frv. í því sambandi talaði hv. þm. (SE) um fánann og fór svo geyst, að hann taldi þetta mál eins heilagt einstaklingum og fáninn væri þjóðinni helgur. Kemur mjer síst til hugar að mæla gegn því, að fáninn sje þjóðinni helgur, en eitt vildi jeg segja hv. þm. (SE). Eitt er það, sem íslenskri þjóð er enn helgara en fáninn, og það er móðurmálið. Áður en nokkur fáni var til og löngu eftir að fáninn slitnar hefir tungan geymt og mun geyma í tímans straumi trú og vonir landsins sona. Og svo munu flestir mæla, að hún sje vort mesta aðalsmerki og það, er síst má falla blettur á. Þetta frv. stefnir í þá átt að vernda fornar málvenjur og forða tungu vorri frá spjöllum. Það er flutt til þess að verja hina fornu norrænu að nokkru leyti fyrir óþörfum lýtum. Gegn því, sem hv. þm. (SE) sagði, að hjer væri verið að syndga gegn einstaklingum, verð jeg því að mæla það, að þegar einstaklingarnir ganga svo langt, að þeir þverbrjóta eðli og lög móðurmálsins, þá er, að minsta kosti að mínu áliti, full ástæða til þess, að hið háa Alþingi taki í taumana. Gæti jeg bent á mörg dæmi þess, að einstaklingar hafa á síðari árum innleitt hjer óviðeigandi orðskrípi og brotið með ættarnöfnum sínum lög móðurmálsins. Skyldi það særa færri og vera okkur til minni vansæmdar en að einhver talaði ógætilega um fánann? Af þeim sökum, er jeg hefi nú minst á, og mörgum fleirum, fylgi jeg hiklaust máli þessu.