05.05.1925
Efri deild: 68. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 957 í B-deild Alþingistíðinda. (211)

1. mál, fjárlög 1926

Jónas Jónsson:

Jeg á allmargar brtt. að þessu sinni, enda geri jeg mjer litlar vonir um, að þær nái allar fram að ganga. Þær eru sumpart bornar fram vegna bænastaðar þeirra, sem að þeim standa, eða af því, að mjer hefir virst rjettara að láta sumt af þessu sjást, þótt lítinn byr hafi ef til vill.

Fyrsta brtt. mín er á þskj. 447 og þar II. í röðinni. Hún fer fram á að binda augnlækningastyrkinn við nafn ákveðins manns, þ. e. Guðmundar læknis Guðfinnssonar. Þetta er í samræmi við aðrar sjerfræðigreinar, t. d. eins og tannlækningar, háls- og eyrnalækningar o. fl., að styrkir til þessa eru bundnir við ákveðin nöfn eða lækna, sem kenslu þessa hafa með höndum. Þessi maður, Guðmundur Guðfinnsson læknir, var kostaður utan af ríkisfje til þess að fullnuma sig í augnlækningum. Hann var áður hjeraðslæknir og naut þá almenns trausts, og enn nýtur hann hins sama og hefir það síst farið minkandi síðan hann kom úr utanför sinni, eins og sýnir sig best í því, að hann sjer ekki út úr því, sem hann hefir að gera. Að ólöstuðum þeim lækninum, sem notið hefir þessa styrks undanfarið, þá álít jeg, að ríkið eigi að njóta þess mannsins, sem það hefir styrkt til náms og almenns trausts nýtur, enda mun hjer sannast sem víðar, að nýir vendir sópa best. Þessari grein læknisvísindanna fleygir fram árlega, svo að þeir yngri, sem hana stunda, standa hinum eldri betur að vígi.

Næsta brtt. mín er sú 8. í röðinni á sama þskj. og er sama efnis og brtt., er jeg flutti við 2. umr., en tók þá aftur, til þess að orða mætti hana betur. Eins og jeg tók fram við 2. umr., þá er ætlast til, að undir þennan lið falli þeir, sem hjúkrunarnám stunda erlendis. Þó að hjer sje ekki um stóra upphæð að ræða, gæti hún þó — ef hún verður samþykt — orðið upphaf að því, að þingið styrkti framvegis efnilega menn og konur til verklegs náms í öðrum löndum, en það eru einmitt slíkir menn, sem við þörfnumst allra mest í framsóknarbaráttu þjóðarinnar. Um viðbótarliðinn, að binda nokkurn hluta styrksins við nafn ákveðins manns, hefi jeg talað áður. Aðeins get jeg bætt því við, að þessi maður, Jón Gunnarsson frá Blöndubakka, hefir nú verið 3 ár í Noregi á vegfræðiskóla á vetrum og verið þar flokksstjóri í vegagerð á sumrum. Þegar hann hóf nám sitt, var hann svo heppinn, að verkfræðingur tók hann að sjer, eins og ekki er ótítt í Noregi, að við sjeum látnir njóta þess, að við erum Íslendingar og frændur Norðmanna. Hefir Jón nú aflað sjer allmikillar þekkingar um vegagerð, en vill fullnuma sig betur, og þarf ekki að efa, að hjer á landi bíður ærið starf handa slíkum manni að vinna. Vænti jeg því, að hv. deild geti fallist á að samþykkja brtt. þessa í því formi, sem hún er nú.

Þá er næst brtt. um að breyta orðalagi athugasemdar þeirrar, er fylgir styrknum til hjeraðsskóla. Að vísu er hjer um stefnumál að ræða, því að eftir orðalagi minnar athugasemdar verða peningar þessir notaðir, en koma engum eða aldrei að gagni eins og athugasemdin er fram borin af hv. fjvn. Við vitum það undurvel báðir, hv. 1. þm. Rang. (EP) og jeg, að engin líkindi eru til þess, að sýslurnar austanfjalls komi sjer saman um skólastaðinn, og þess vegna er aths. fjvn sama sem að neita um styrk til að reisa hjeraðsskóla á Suðurlandsundirlendinu. Mjer þykir rjettara, úr því að styrkur er veittur í sjerstöku augnamiði, að þá sje svo um hnútana búið, að hægt sje að grípa til hans, þegar með þarf, og að þau skilyrði verði niður feld, sem auðsætt er, að sýslurnar verða aldrei sammála um.

Eins og jeg sýndi fram á með rökum við 2. umr., þarf enginn að vænta, að Árnes- og Rangárvallasýslur komi sjer saman um skólastaðinn. Um hann hefir verið deilt um 20 ára skeið og sami reipdráttur sýslnanna í millum frá upphafi til enda. Til þess nú að bæta úr þessu, hefi jeg tekið upp í aths., að skólastaður, áætlun og teikningar skuli vera samþykt af stjórnarráðinu í samráði við húsameistara og landlækni. Þetta ætti að geta haft áhrif á málið og borgið því til sigurs; en eins og horfir nú, stranda framkvæmdirnar á því, að hver hreppur heldur í sinn skækil og heimtar skólann til sín. Og vitanlega er það ekki nema eðlilegt, þó að allir vilji hafa slíka stofnun sem næst sjer, en öll slík togstreita er óheppileg. Nú skal jeg t. d. í þessu sambandi minnast á heilsuhælisbyggingu Norðlendinga. Öllum hefir komið saman um það, að reisa eigi það í Eyjafirði, en þar er nú hafinn sá reipdráttur milli tveggja hreppa, að til vandræða horfir, skerist ekki hið opinbera í leikinn. Deilan er um það, hvort hælið eigi að standa austan eða vestan Eyjafjarðarár, og svo er hún hörð orðin, að góðvinir eru farnir að hatast og sýna fullkominn fjandskap hverjir öðrum.

Jeg vona, að hv. deild sjái, hve nauðsynlegt það sje að fela óvilhöllum sjerfræðingum að ráða fram úr slíkum málum. Og samkv. aths. minni eru það húsameistari og landlæknir, sem þessu eiga að ráða. Það verður því ekki aðeins frá byggingarfræðilegu sjónarmiði, sem staðurinn verður valinn, heldur og einnig frá heilsufræðilegu, og það út af fyrir sig ætti þó að vega nokkuð. Stjórnarráðið er fulltrúi þingsins og hlýtur að meta meira tillögur sjerfræðinganna en eiginhagsmuni einstakra manna, hreppa eða sýslna.

Jeg skal einnig taka það fram í þessu sambandi, að það hafði mikla þýðingu fyrir framtíð hjeraðsskóla Þingeyinga, að hann var reistur þar, sem hann stendur nú. Meiri hluti þeirra manna, er að því máli stóðu, vildu reisa hann á fallegum stað á góðri jörð, þar sem lítið var um gott byggingarefni — t. d. vantaði sand þar með öllu — og svo hefði kostað um 4000 kr. á ári að hita húsið upp. Nú er skólinn settur á melhól, þar sem byggingarefni var alveg við hendina og heit laug svo nærri, að hún nægir til þess að hita upp allan skólann.

Jeg skal líka nefna tvo aðra skóla. Jeg er með því að veita fje til byggingar á Eiðum, þó jeg hinsvegar sje ekki í neinum vafa um það, að skólinn hefði í öndverðu átt að standa á Hallormsstað, þar sem nógur skógur er til eldsneytis. En eins og komið er, ræð jeg þó til, að bætt verði við byggingarnar á Eiðum, en skólinn ekki fluttur fyrst um sinn. Sama er og að segja um kvennaskólann á Blönduósi, að alt mælir með því, að hann hefði fremur átt að standa á fallegri jörð, t. d. frammi í Vatnsdal, en nú verður hann að líkindum ekki fluttur, því að steinsteypan er þung í vögum.

En þessi dæmi sanna, að tilviljun ein á ekki að ráða, hvar slík hús eru reist, heldur eiga fróðir menn og sjerfræðingar að hafa úrskurðarvaldið í því efni. Annars dettur mjer í hug eitt tilfelli enn, áður en jeg skil við þennan lið, en það er Hvítárbakkaskólinn. Nú hagar svo til, að um Borgarfjörð eru víða laugar og hverir, sem eru mjög hentugir til upphitunar, og þó er skólinn settur þar, sem hann er. Þetta sýnir aðeins, að fróða menn vantaði til þess að velja skólastaðinn fyrir Borgfirðinga.

Þá er till. um að veita tveim kennurum styrk til að mæta á kennaraþingi í Helsingfors. Hefir þeim verið boðið að halda þar sinn fyrirlesturinn hvorum um íslenska menningu. Þennan fund stækja margir menn víðsvegar af Norðurlöndum. Styrkurinn, sem farið er fram á, er rjett ríflega fyrir fargjaldi. Jeg býst við, að aðstaða hv. deildar fari eftir því, hvort hún álíti, að vjer eigum að koma fram í samfjelagi þjóðanna eða ekki. Læknar og biskup hafa áður sótt slíkar samkomur sem þessar, og nú vilja barnakennararnir líka fylgjast með. Jeg vil að vísu ekki fyrir mitt leyti halda því fram, að för þessi hefði bein áhrif á kenslumál vor, en hinsvegar myndi hún heppileg til að vekja eftirtekt út á við.

Í sambandi við þessa brtt. vil jeg geta annarar, sem jeg flyt ásamt hv. 3. landsk. (HSn), um að veita ungfrú Sigurborgu Kristjánsdóttur utanfararstyrk til farar til Helsingfors á fund fyrir forstöðukonur húsmæðraskóla. Sú för ætti að geta haft beina þýðingu fyrir húsmæðrafræðslu vora. Það má víst — eftir öllum undirtektum — telja fullráðið, að kona þessi taki við forstöðu Staðarfellsskólans. Stjórn Búnaðarfjelagsins hefir tekið vel í að láta styrk á móti. Kona þessi hefir áður haft umfangsmikla matreiðslukenslu á hendi, og ætti því utanför hennar að geta komið að gagni, enda þótt svo færi, að hún tæki ekki við Staðarfellsskólanum.

Þá kem jeg að 15. brtt. á þskj. 447, um kostnað við fulltrúann á Spáni. Álít jeg, að gert hafi verið ráð fyrir hærri upphæð í því skyni en líklegt er, að verði notuð. Jeg hefi því tiltekið 6000 kr. Samskonar menn erlendra þjóða hafa ýmist slíka upphæð eða minni. Mjer er t. d. kunnugt um, að konsúll Norðmanna, er hjer var áður, en nú er sendimaður þeirra í Frakklandi, hefir í árslaun 13000 norskar krónur og 3000 kr. í dýrtíðaruppbót.

Jeg hefi áður minst á undirbúning vatnsleiðslu í Vestmannaeyjum, enda var jeg meðflm. till. um fjárveitingu í því skyni við 2. umr. Nú alveg nýlega hefi jeg heyrt vitnisburð sjómanns að norðan, er reri í Vestm.eyjum í vetur, um þetta mál, og eftir þeim upplýsingum get jeg ekki annað sagt en að hjer sje um stórmál að ræða. Hann sagði, að vatn það, sem notað væri, væri að mestu regnvatn, sem safnað væri af þökum. Þegar þurkar gengju, settist ryk á þökin og blandaðist síðan vatninu. Auk þess væri vatnið oft sóti blandið.

Jeg fæ ekki betur sjeð en að hjer sje um heilsufræðilegt stórmál að tefla, enda þótt það sje ekki fjárhagslegt stórmál. Álít jeg, að það sje fullkomin skylda ríkisins að ýta undir endurbætur á þessu sviði.

Þá flytur og háttv. þm. Vestm. (JJós) brtt. um að hækka styrkinn til varðbátsins Þórs. Jeg hefi áður látið þá skoðun í ljós, að hjer væri um gott fyrirtæki að ræða. Auk þess má benda á, að skipið vinnur fyrir þessum styrk með sektum þeim, sem togarar þeir hljóta, er það hefir tekið, fyrir utan hið óbeina gagn, er Þór hefir gert með því að fæla togarana frá suðurströndum landsins.

Býst jeg og við, að ekki líði á löngu uns skipið verður ríkiseign. Þegar nýtt strandvarnarskip verður bygt, er full ástæða að ætla, að Þór verði og ríkiseign, enda þótt Vestmannaeyingar haldi áfram að kosta hann að einhverju leyti vegna hinna sjerstöku nota, er þeir hafa af honum.

Fjvn. lítur ekki hýru auga til 20. brtt. á þskj. 447, um stúdentagarðinn. Tillögu þessa flutti jeg fyrir tilmæli stúdentaráðsins, og var samhlj. till. samþykt á þingi 1923. Má því segja, að þetta eigi að vera endurveiting. Að vísu getur litið svo út, að þetta sje lán, en ekki fjárveiting, en jeg lít þó á það sem fjárveitingu og greiði atkv. með till. á þeim grundvelli. Stúdentarnir hafa bráðum safnað 200 þús. kr. í byggingarsjóðinn, og hafa bæði þeir og aðrir jafnan gert ráð fyrir, að ríkissjóður legði til enda veit jeg, að svo verður áður en lýkur. Hjer er líka um fjárhagslegan ávinning fyrir ríkissjóð að tefla, því að nú er stúdentum veittur húsaleigustyrkur árlega, sem auðvitað dytti úr sögunni við byggingu stúdentagarðsins.

Jeg hefi satt að segja ekki mikla von um, að þessi till. nái samþykki að þessu sinni, enda ljet jeg það í ljós við stúdentana, sem báðu mig að bera till. fram. En mjer þótti þó rjett að flytja hana, til að skýra málið og ef til vill flýta fyrir því. Jeg skal taka það fram, að þótt hjer sje aðeins farið fram á ábyrgð, þá er það almenn skoðun meðal stúdenta og margra annara, að lán þetta eigi alls ekki að endurgreiðast.

Þá kem jeg að brtt. á þskj. 456, um bifreiðastyrkinn. Kom hún svona seint fram af því, að ekki var ákveðið um, hve hár styrkurinn yrði. Samkv. frv. var til þess ætlast, að styrkurinn yrði veittur einu bifreiðafjelagi. Nú er kunnugt, að fleiri en eitt fjelag hafa annast flutninga austur, og virðist því rjett að skifta styrknum á milli þeirra, enda þótt smáflutningur komi að sjálfsögðu ekki til greina. Mjer er sagt, að sýslumaður Rangæinga hafi undanfarið skift styrk þeim, er veittur hefir verið til sjóferða þangað austur, eftir vörumagni. Tillaga mín fer fram á að skifta styrknum svo milli sýslnanna, að sú sýslan, sem fjær er Reykjavík, Rangárvallasýsla, fái 3/5 upphæðarinnar, en Árnessýsla 2/5 hluta. Skal jeg ekki segja, að þetta sje laukrjett skifting, en þó mun hún vera nærri lagi. Er svo ætlast til, að sýslumenn skifti styrknum á milli þeirra bifreiðafjelaga, er annast slíkar ferðir. Munn 3–4 aðiljar koma þar til greina.

Þætti mjer gott að fá að heyra álit hv. 1. þm. Rang. (EP) á þessari tillögu minni. Hygg jeg, að hún sje til bóta.