14.05.1925
Neðri deild: 81. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3337 í B-deild Alþingistíðinda. (2111)

34. mál, mannanöfn

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg hefi leyft mjer að koma hjer fram með brtt., þess efnis, að mönnum sje ekki bannað að taka upp eða bera ættarnafn, heldur skuli þeir rita ættarnafnið á eftir kenningarnafni sínu. Eftir því mundu þeir menn, sem ættarnöfn bera hjer eftir, skrifa sig þremur nöfnum, fornafni, kenningarnafni og ættarnafni. Þessi siður hefir nokkuð tíðkast hjer, þótt ekki sje hann íslenskur að uppruna. Fyrirmyndina er að finna hjá Rómverjum hinum fornu, og hygg jeg, að okkur sje engin minkun að taka þetta upp eftir þeim.

Jeg skoða þessa brtt. sem miðlunartillögu. Ef hún nær fram að ganga, hygg jeg, að menn muni geta unað þessari nafnalöggjöf þolanlega.