08.05.1925
Neðri deild: 75. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3341 í B-deild Alþingistíðinda. (2118)

81. mál, sáttatilraunir í vinnudeilum

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Um mál þetta er hægt að vísa til nál. og greinargerðar þeirrar, er frv. fylgir. Er ljóst, hver tilgangur frv. er, sem sje sá að koma í veg fyrir, að langvinnar deilur verði milli vinnuþega og vinnusala í kaupgjaldsmálum. Má ætla, að slíkar sáttatilraunir gefist vel hjer sem annarstaðar, og nægir að vísa til reynslunnar í þessu efni erlendis.

Jeg býst því við, að menn greini ekki á um það, að þessi tilgangur frv. sje góður og æskilegur. Frv. þetta hefir verið til athugunar hjá allshn. Hefir nefndin að litlu breytt efni frv., en hinsvegar orðað flestar greinir þess upp. Nefndinni virtist, að frv. væri víða of óljóst orðað, og vildi því koma í veg fyrir, að hægt væri að teygja orðalagið, eins og búast mátti við, að gert yrði í slíkum deilum sem þessum, þar sem oft eru svo miklir hagsmunir í húfi. Jeg skal ekki um það segja, hvort nefndinni hefir tekist að vinna verk sitt svo vel, að enginn finni að, og taka mun hún fúslega við góðum leiðbeiningum. Að vísu hefir orðið lítilsháttar ágreiningur um brtt. á þskj. 420, þar sem þeir hv. þm. V.- Sk. (JK) og hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) eru í minni hl. Telja þeir rjett, að í stað Búnaðarfjelags Íslands og Fiskifjelagsins tilnefni hæstirjettur mann í nefndina, er gera á tillögur um skipun sáttasemjara. Meiri hl. nefndarinnar telur ekki ástæðu til breytingar, því ekki sje ástæða til að væna stjórnir þessara fjelaga um, að þeim verði mislagðar hendur um mannaval eða geti ekki komið sjer saman um útnefninguna. En þó mun meiri hl. ekki gera þetta að neinu kappsmáli.

Nokkuð var um það rætt, hvort ekki væri rjett að setja sektarákvæði í lögin t.d. gagnvart 3. gr. og 5. gr., ef menn vanræktu að gefa skýrslur, og gagnvart 6. gr., ef menn skoruðust undan að fara eftir till. sáttasemjarans. Sumt þótti mæla með þessu, en þó fleira á móti. Ef slík ákvæði væru sett, gæti litið svo út, að menn gætu keypt sig undan ákvæðum frv. með því að greiða sekt. Nefndinni fanst því rjettara að sleppa öllum sektum, en leggja dóminn um framkomu aðilja í slíkum málum í hendur almennings. Auk þess er ómögulegt að ákveða þær sektir í þessum efnum, er sjeu í rjettu hlutfalli við þá hagsmuni, sem um er að ræða.

Í nál. er skýrt frá því, að leitað hafi verið álits um málið hjá Alþýðusambandi Íslands og Fjelagi ísl. botnvörpuskipaeigenda. Eru það þeir aðiljar, sem hjer eiga einkum hlut að máli. Hafa bæði þessi fjelög lagt til, að frv. þetta yrði að lögum. Hinsvegar vill fjelag ísl. botnvörpuskipaeigenda, að gerðardómur taki við er sáttatilraunir fara út um þúfur. Alþýðusambandið er þessu mótfallið. Nefndinni leist og, að slíkur gerðardómur myndi draga mjög úr gagnsemi sáttatilraunanna.

Þá vil jeg minnast á brtt. allshn. við 8. gr. Er þar svo ákveðið, að nánari ákvæði, er að þessu lúta, sjeu tekin fram í reglugerð. Skuli atvrh. semja reglugerð þessa og fá sáttasemjara erindisbrjef.

Þá er því bætt við 9. gr., að atvrh. ákveði þóknun til handa sáttasemjara. Eru þetta nauðsynleg ákvæði, en breyta að engu aðalefni frv.

Þá er svo ákveðið í frv., að lögin gangi í gildi 1. okt. 1925. Nefndin leggur til, að lögin öðlist gildi þegar í stað. Að vísu er skipun sáttasemjara bundin við áramót.

En nú stendur til, að kaupsamningar fari fram í sumar milli vinnuþega og vinnusala, og gæti þá verið æskilegt, að hægt væri að beita lögunum, og mætti það ef til vill takast, enda þótt enginn formlegur sáttasemjari hefði enn verið skipaður. Að vísu má við því búast, að starf sáttasemjarans yrði einkum bundið við Reykjavík og nágrenni. En ekki virðist óeðlilegt, að hann gæti látið annan mann koma fram fyrir sig á öðrum stöðum á landinu, og mætti tiltaka það í erindisbrjefi hans. Það er ekki auðhlaupið á milli landshluta, en hinsvegar er jafnan auðvelt að síma milli staðanna, og sáttasemjari, sem á að hafa kaupsamninga alla í sínum vörslum, ætti að geta sjeð, hvað gera þyrfti í hverjum stað, og gert till. til sátta, enda þótt hann kæmist þangað ekki sjálfur.

Viðvíkjandi frv. um gerðardóm er það að segja, að nefndin hefir ekki viljað afgreiða það. Hinsvegar hefir hún tekið upp úr því orðin „vinnusali“ og „vinnuþegi.“ Veit jeg, að ekki þarf að skýra það fyrir mönnum, að „vinnusali“ er verkamaðurinn, sem selur vinnu sína, en ,,vinnuþegi“ atvinnurekandinn, sem vinnan er unnin fyrir, eða þiggur vinnuna.

Jeg veit, að ýmsir þingmenn hafa áhuga á máli þessu, og þar sem orðið er áliðið þingtímans, þarf að hraða því, ef það á að verða að lögum á þessu þingi.