08.05.1925
Neðri deild: 75. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3345 í B-deild Alþingistíðinda. (2121)

81. mál, sáttatilraunir í vinnudeilum

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg tek undir það, að leitt er, hve frv. þetta er seint á ferð. Er álitamál, hvort það getur gengið fram á þessu þingi, þar sem nefnd í hinni deildinni á eftir að athuga það. En því meiri nauðsyn er að flýta umr. hjer, og skal jeg ekki tefja þær lengi.

Hv. frsm. (JBald) mintist á starfsvið sáttasemjarans og taldi, að það mundi aðallega verða hjer. Er jeg því samþykkur. Hjer og í Hafnarfirði verður það að mestu, enda eru búsettir á þessum stöðum nálega ¼ landsmanna. En það gæti auðvitað komið fyrir, að hann skifti sjer af deilum annarsstaðar, þó að það yrði miklu sjaldnar.

Út af till. nefndarinnar um, að lögin gangi strax í gildi, en sáttasemjari skuli þó ekki skipaður fyr en um næstu áramót, vil jeg benda á, að jeg tel þetta ekki heppilegt, því að starf atvrh. í þessu efni virðist mjer ekki annað en að skipa sáttasemjara. Hinsvegar álít jeg, að ómögulegt væri fyrir atvrh. að skipa sáttasemjara, sem ekki yrði talinn hlutdrægur, og væri því þýðingarlaust að gera það áður en sá undirbúningur hefði farið fram, sem hjer er gert ráð fyrir. Jeg vil því skjóta því til nefndarinnar, hvort nauðsynlegt sje að binda sig við áramót. Jeg held, að ekki væri frágangssök að koma þessu til framkvæmda í haust. Mjer skilst, að til þess þurfi ekki nema lítilfjörlega breytingu á 1. gr., um að í fyrsta skifti sje skipun sáttamanns ekki bundin við áramót.

Þá er ákvæðið í 3. gr.:

„Hvor aðili um sig velur fulltrúa til samninga, og skulu þeir annaðhvort vera í fjelagi, er hlut á að máli, eða í aðalstjórn allsherjarfjelags vinnusala eða vinnuþega.“

Nú getur komið fyrir, að vinnuþegi sje ekki í neinu fjelagi, og þá væri ekki hægt að uppfylla þetta ákvæði. En hjer nægði kannske, ef nefndin lýsti því yfir, að þetta ákvæði gilti aðeins, ef viðkomandi væri meðlimur í fjelagi.

Þá er niðurlag 4. gr., þar sem sagt er, að sáttasemjara beri að ráðgast um við tvo fulltrúa hvors aðilja, áður en hann beri fram miðlunartillögu. Jeg lít svo á, að átt sje við fulltrúa úr samninganefndinni. (JBald: Rjett).

Þá er í 5. gr. svo komist að orði, að sáttasemjari geti krafist vitnaleiðslu „hjá valdsmanni.“ Jeg vil heldur, að í staðinn komi „hjá dómara.“ En þetta er aðeins orðabreyting, sem ekki er ástæða til að gera að kappsmáli.