09.05.1925
Neðri deild: 76. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3349 í B-deild Alþingistíðinda. (2128)

81. mál, sáttatilraunir í vinnudeilum

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Allshn. leyfir sjer að bera fram 2 brtt. við frv. eins og það lítur nú út. Er hin fyrri þeirra flutt samkv. bendingu hæstv. atvrh. (MG) og er í rauninni aðeins orðabreyting. Í 5. gr. frv. stendur nú, að sáttasemjari skuli krefjast vitnaleiðslu hjá valdsmanni, en nefndin hefir flutt brtt. um, að sú vitnaleiðsla fari fram hjá dómara, og væntir þess, að það valdi engum ágreiningi.

Í frv. er skipun sáttasemjarans bundin við áramót. Nú hefir allshn. borið fram brtt. þess efnis, að skipa skuli sáttasemjarann strax þegar lögin hafa öðlast gildi, og skuli atvinnumálaráðherra þá fyrirskipa rjettum hlutaðeigendum að gera tillögur sínar um, hvern skipa skuli í stöðuna, innan frests, sem hann setur. Eins og frv. er nú, kemur það ekki til framkvæmda fyr en um næstu áramót, en brtt. gengur í þá átt, að sáttasemjarinn starfi einnig á þessu ári. Væntir allshn. þess, að hv. deild fallist á till.