05.05.1925
Efri deild: 68. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 980 í B-deild Alþingistíðinda. (219)

1. mál, fjárlög 1926

Björn Kristjánsson:

Jeg á hjer eina eða tvær brtt., sem jeg ætla að tala um; en áður en jeg tek til þess, ætla jeg að gera lítillega grein fyrir atkvæði mínu um brtt. háttv. þm. Vestm. (JJós) um styrk til vatnsveitu í Vestmannaeyjum. Það standa nú ýmsar upphæðir í fjárlögunum, sem vel mætti segja um, að í raun og veru komi ríkissjóði ekki við, enda þótt ýmislegt megi til finna, sem mæli með því, að þær fái að standa þar. En mjer finst, að þær fjárhæðir ættu fyrst og fremst að standa í fjárlögum, sem ríkinu ber skylda til að leggja fram, og meðal þeirra fjárhæða tel jeg styrkinn til að leita að vatni í Vestmannaeyjum.

Landið á enn og hefir átt margar jarðir, og flestum þeirra hefir annaðhvort fylgt silfurtær lækur eða vatnsból. En það er, eins og vitanlegt er, skilyrði fyrir heilbrigði manna og lífi, og því stærra og þýðingarmeira skilyrði, sem fólkið er fleira. Það myndi því verða svo, að jarðir ríkissjóðs yrðu óbyggilegar, ef þeim fylgdi ekki vatn. Langstœrsta jörð landsins eru Vestmannaeyjar. Þær hafa vaxið frá því að vera smákot upp í allstóran bæ, og það mest fyrir dugnað eyjarskeggja sjálfra. En þeir hafa orðið að nota lekavatn af húsþökum til neyslu, og má undrast yfir þeirri nægjusemi. Af þessari jörð eru greiddar 10 þús. kr. í leigu, en það er ekki nema lítið brot af tekjum ríkissjóðs af Eyjunum. Hví skyldi ríkissjóður þá ekki eiga að leggja þessari jörð til vatn, eins og flestum öðrum jörðum? Jeg fyrir mitt leyti tel það skyldu hans, og tel því ekki nema sanngjarnt, þó að hann leggi fram til þess að leita þar að vatni.

Jeg sje ekki, að það geti verið nein mótmæli gegn þessu, þó að Eyjarnar skuldi ríkissjóði eitthvað; síður en svo. Það ætti miklu frekar að vera meðmæli, því að þeim mun meiri nauðsyn ætti að vera að styðja þær til þessa verks, úr því að þær eru í fjárhagslegum örðugleikum.

Þá vil jeg aðeins drepa á brtt. fjvn. á þskj. 433, um styrk til Grindavíkur. Jeg er þakklátur hv. nefnd fyrir að hafa tekið till. þessa upp. Síðan till. þessi var tekin upp, hefi jeg átt tal við Einar Einarsson í Grindavík. Er hann vitanlega glaður yfir styrknum, en býst hinsvegar ekki við, að hœgt verði að uppfylla skilyrðin um fjárframlag á móti, nema því aðeins, að vinna sú, sem Grindvíkingar hafa lagt fram og leggja fram hjer eftir, megi reiknast á móti. En hún er allmikil.

Annars læt jeg það ráðast, hvað háttv. deild gerir með þessa till. En þar sem meiri hluti fjvn. hefir skoðað staðinn, ætti hún að vera miklu betur kunnug þar en jeg, því að jeg hefi aldrei komið þar. Vænti jeg því hins besta af henni í þessu efni.

Þá á jeg brtt. á þskj. 447, sem fer fram á, að Þórarni Guðmundssyni fiðluleikara verði veittur sami styrkur, sem hann hafði áður, til þess að kenna fiðluspil. Till. þessi er samhljóða till., sem jeg bar fram fyrir 4 árum og háttv. Ed. fjellst þá á, en sparnaðarþingið mikla í fyrra feldi niður. Hann sendi þinginu skýrslu yfir kenslu sína þau tvö ár, sem hann hafði styrkinn. Á henni mátti sjá, að kenslan hafði borið góðan árangur, því að sumir nemendurnir höfðu komist langt á leið.

Eins og jeg tók fram áðan, fjell þessi styrkur niður í fyrra. Fór Þórarinn þá utan, meðfram til að fullkomna sig, og jafnframt af því, að hann hafði hjer engum skyldum að gegna.

Það er nú ekki svo, að hann hafi sótt um styrk í þetta sinn eða beðið mig um að flytja þessa till., heldur hefi jeg spurt hann, hvort hann myndi ekki fáanlegur til þess að taka að sjer þessa kenslu áfram með sama styrk, og því hefir hann svarað játandi.

Jeg hefi áður sýnt fram á, að það hefir mikla þýðingu fyrir þjóðina, að fiðluspil verði sem útbreiddast, að sem flestir kunni það. Því að það er ekkert, sem getur gert lífið í sveitinni ljettara en einmitt fiðluspil. Fiðlan er svo ódýrt hljóðfæri, að hver bóndi getur keypt sjer hana, auk þess, sem hún er líka eitt hið fullkomnasta hljóðfæri til þess að kenna söng eftir. Þar sem alþýðuskólum er nú altaf að fjölga, er þýðingarmikið, að sem flestir kennarar þeirra kynnu fiðluspil, svo þeir gætu kent það út frá sjer.

Það er því aðeins vegna nauðsynarinnar, að jeg ber fram þessa tillögu.