16.05.1925
Sameinað þing: 8. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3362 í B-deild Alþingistíðinda. (2190)

Þinglausnir

forseti (JóhJóh):

Þá er nú störfum þessa 37. löggjafarþings íslensku þjóðarinnar lokið, og hefir þingið að þessu sinni verið saman með lengsta móti, eða í 99 daga.

Það ræður nú að líkindum, að margt hefir verið sagt á þinginu, þar sem það hefir staðið svo lengi, og hefir margt af því verið þarft og uppbyggilegt, en hinu verður ekki neitað, að margt óþarfaorðið hefir fallið og endurtekningar átt sjer stað, og það oftar en einu sinni eða tvisvar á hinu sama.

Skoðanirnar hafa staðið mjög skarpt hvor gegn annari og verið framfylgt af svo mildu kappi, að í minnum mun haft.

Þetta þing hefir samþykt lög, sem bæði jeg og aðrir óska og vona, að verði til stórgagns atvinnuvegum landsins, og á jeg þar við ræktunarsjóðslögin, lögin um það, að landhelgissjóðurinn skuli taka til starfa, og lögin um verslunaratvinnu.

Hinsvegar stendur þetta þing síðasta þingi að baki að því leyti, að síðasta þing samþykti tekjuhallalaus fjárlög, en í fjárlögunum frá þessu þingi er hálfrar milj. króna tekjuhalli. Þess er þó að gæta, að fjárhagshorfurnar eru ólíkt betri nú en í fyrra, — og er það fyrst og fremst að þakka veltiárinu í fyrra, — og svo hins, að í fjárlögunum fyrir næsta ár eru ríflegri upphæðir veittar til atvinnuveganna og til samgöngubóta en í ár, og að í næsta árs fjárlögum eru veittar stórupphæðir til framkvæmda, er ekki máttu lengur dragast, og á jeg þar við landsspítalann, stækkunina á Kleppsspítala, berklahæli Norðurlands og aukna landhelgisgæslu.

Að svo mæltu leyfi jeg mjer að óska hv. þm. utan Reykjavíkur góðrar heimferðar og gleðilegrar heimkomu, en oss öllum þess, að vjer megum hittast heilir á næsta þingi.