11.02.1925
Efri deild: 4. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í C-deild Alþingistíðinda. (2195)

19. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Jónas Jónsson:

Hv. 1. landsk. (SE) hefir að nokkru leyti tekið af mjer ómak, með því að undirstrika, að sparnaður yrði enginn að frv. þessu.

Jeg hefi heyrt því fleygt, að frv. þetta væri eiginlega ekki í sem fylstu samræmi við óskir hæstv. stjórnar, heldur hafi hún tekið það upp af götu sinni, ef svo mætti að orði komast, og komið því áleiðis hingað inn í þingið. Enda gæti þessu varla verið öðruvísi varið, ef litið er á gang málsins hin síðustu árin. Vil jeg þá fyrst geta þess, að lög þau, sem breyta á með frv. þessu, voru samþ. hjer í þessari hv. deild fyrir 2 árum, með atkv. nálega allra þeirra, sem þá áttu sæti í deildinni — og a. m. k. greiddi þeim enginn mótatkvæði. Og þó að nú eigi ekki sæti í þessari hv. deild allir sömu mennirnir sem þá sátu hjer, þá eru þó eftir það margir, að alt að því helmingur hv. deildarmanna yrði að hafa snúist hugur í máli þessu, ef frv. það, sem nú liggur fyrir, ætti að ná samþykki þessarar hv. deildar. Með því yrðu þeir að viðurkenna, að þeir hefðu eiginlega ekkert botnað' í því, sem þeir voru að gera í hitteðfyrra, eða þá, að einhver utanaðkomandi áhrif hafi snúið þeim í máli þessu. Og ef menn vilja viðurkenna, að þeim hafi ekki verið ljóst, það sem þeir gerðu í máli þessu fyrir 2 árum, þá hygg jeg þeim hinum sömu mönnum myndi vera varlegast að hafa hægt um sig nú og hrófla ekki við fyrri samþyktum sínum. Síðari villan gæti orðið verri hinni fyrri.

Þá vil jeg taka það fram, að frv. þetta miðar á engan hátt til framdráttar hvorugu málefni því, sem það snertir. Þegar þingið 1923 ákvað að gefa lóð á besta stað í bænum undir væntanlegt þjóðleikhús og lagði leikhússjóðnum jafnframt þessar tekjur, skemtanaskattinn, þá var með því í raun og veru gerður samningur milli þingsins og þeirra manna í landinu, sem fórna sjer fyrir leiklistina, að á þennan hátt vildi þingið hjálpa list þeirra. Ef þessi samningur verður nú rofinn, verða afleiðingarnar einungis þær, að eftir nokkur ár verður að endurgreiða leiklistinni það, sem á þennan hátt verður frá henni tekið. Og hver verður þá sparnaðurinn ? Enginn, nema sá, að þá verður að taka af hinum almennu tekjum ríkissjóðs til að bæta skaðann. Og jeg vil skjóta því til hæstv. forsrh. (JM), sem jeg þykist vita, að flytja muni frv. þetta með hálfum huga, og muni ekki taka sjer nærri dauða þess, að stuðningur sá, sem frv. veitir landsspítalanum, er óendanlega litill. — Samkvæmt teikningu af landsspítala, sem hæstv. forsrh. (JM), ásamt fleirum hv. þm., samþykti á þingi 1923, var gert ráð fyrir, að spítalinn kostaði 3 milj. kr., og rekstur hans yrði svo dýr, að t. d. kolaupphitun ein kostaði árlega 70 þús. kr. — Þegar þessar áætlanir voru þá til umr., gerði jeg þegar ýmsar aths. við það, að ríkið legði þegar út í svo kostnaðarsamt fyrirtæki, og benti á ýmsa liði, sem mjer fanst ástæða til að rannsaka, hvort ekki mætti spara á, svo sem að hita húsið með vatni úr Laugunum. Þessi stefna mín hefir nú sigrað, og mun það að nokkru leyti fyrir tilstilli mitt, að hæstv. forsrh. (JM) hefir nú látið gera nýja teikningu af landsspítala, þar sem gert er ráð fyrir stórum mun minni stofn- og rekstrarkostnaði en samkv. fyrir teikningunni.

Ef teikningin frá 1923 er lögð til grundvallar, þá tæki 120 ár að safna fje til spítalans, með 25 þús. kr. framlagi árlega, en skemmri tíma, ef vextir eru reiknaðir með. Undir öllum kringumstæðum er því augljóst, hversu óendanlega lítið landsspítalann dregur um þessar 25 þús. kr. árlega, sem frv. fer fram á að leggja honum til, frá sjónarmiði þeirra, sem samþyktu 3 miljóna teikninguna. Yrði hann þá reistur ofarlega á 21. öld. En nú munu víst flestir, og þar á meðal hæstv. forsrh. (JM), horfnir frá þessari dýru teikningu, og er mjer kunnugt um, að margir flokksmanna hans vilja þegar hefjast handa og byrja á spítalabyggingunni. Og er þá að athuga ódýrari teikninguna. Samkv. henni verður samt að biða ein 30 ár, ef reisa á spítalann eingöngu fyrir það fje, sem fæst, nái frv. fram að ganga. Þar sem ekki getur komið til mála að draga spítalabygginguna öllu lengur en orðið er, þá tel jeg óhugsandi, að menn ljái því fylgi sitt, að svifta leikhússjóðinn þessum litlu tekjum, til þess að leggja í fyrirtæki, sem gæti komist á laggirnar eftir nálega mannsaldur, en þarf að komast strax í framkvæmd, með fjárframlögum úr ríkissjóði.

Jeg þykist hafa átt nokkurn þátt í því, hversu spítalamálið er nú komið á góðan rekspöl. Nú er von manna, að laugahitinn muni spara tugi þúsunda árlega í rekstrarkostnaði spítalans. Og það er áreiðanlega hægt að vinna landsspítalanum fult gagn, án þess að grípa til þessara 25 þús. kr., sem leikhúsinu eru ætlaðar. Það er hvort eð er enginn sparnaður. Nú eru í fjárlagafrv. hæstv. stjórnar veittar 20 þús. kr. til vegalagningar í Miðfirði. Hvaða sparnaður væri það, þó að jeg og hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) legðum það t. d. til, að þessum 20 þús. kr. yrði heldur varið til þess að leggja símalinu frá Egilsstöðum að Brekku, sem reyndar er líka bráðnauðsynlegt? Auðvitað er slíkt enginn sparnaður, og sama máli gegnir um frv. það, sem nú liggur fyrir.

Þótt það sje ekki beinlínis í mínum verkahring, þá vil jeg þó benda hæstv. forsrh. (JM) á það, að frv. þetta hlýtur að mæta mótspyrnu í hans eigin herbúðum. Það vill sem sje svo til, að ritstjóri höfuðmálgagns stjórnarinnar er jafnframt leiðbeinandi Leikfjelags Reykjavíkur, og auk þess sjálfur leikritaskáld og frömuður leiklistar. Jeg get varla hugsað mjer annað en að frv. þetta mæti allhvassri „kritik“ úr þeirri átt, „kritik“, sem óþægilegt er fyrir stjórnina að sitja undir. Frv. þetta er því mjög óheppilegt, hvort heldur litið er á það frá menningarlegu eða praktisku sjónarmiði hæstv. stjórnar, sem þó ber það fram. Annars hefi jeg ekkert á móti því, að frv. verði athugað í nefnd.