11.02.1925
Efri deild: 4. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í C-deild Alþingistíðinda. (2197)

19. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Jónas Jónsson:

Enn er eitt atriði milli mín og hæstv. forsrh. (JM) óútkljáð. Hann hefir að vísu gert tilraun til þess að sýna fram á, að landsspítalann munaði það miklu, að fá þessar 25 þús. kr., en hinsvegar hefir hann ekki, sem heldur ekki er von, reynt að sanna, að frv. skaðaði ekki leikhússjóðinn, ef það næði fram að ganga. Viðvíkjandi þeirri hlið málsins vil jeg leyfa mjer að minna hv. þm. á það, sem frsm. frv. um skemtanaskatt og þjóðleikhús, — sem nú eru gildandi lög — sagði, er það frv. var til umr. í hv. Nd. á þingi 1923. Hann lýsti þá yfir því, að leiklist hjer á landi stæði og fjelli með frv. Ef leikfólkið væri svift voninni um viðunandi húsnæði, þá væri um leið skorið á lífæð leiklistarinnar hjer á landi. Það væri mikið mein, ef mönnum skyldi verða það á, að hlaupa fram hjá þessari röksemd, og jeg þykist vita, að hæstv. stjórn muni geta fallist á þau rök, að húsnæðislaus leiklist verður aldrei list.

Jeg skal ekki neita því, að 25 þús. kr. eru altaf 25 þús.; en jeg get ekki stilt mig um að minna hæstv. forsrh. (JM) á það, að hann og hans flokk hjer í hv.Ed. henti það slys síðasta þingdaginn í fyrra að hafna 120 þús. kr. tekjuauka til handa ríkissjóði, 120 þús. kr., sem nú gætu verið til og verja mætti til þess að hefja fyrir byggingu landsspítalans. Sama dag bjargaði hann og flokkur hans 18 þús. kr. embætti, sem búið var að sýna fram á, bæði í þessari hv. deild og í hv. Nd., að vel mætti komast af án. Þessum skildingum sá hann sjer þá fært að kasta úr ríkissjóði til einstaks manns og í vasa áfengisneytenda í landinu, því að þeir einir græða á því, að áfengi er selt vægu verði.