02.03.1925
Efri deild: 20. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í C-deild Alþingistíðinda. (2209)

19. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Forsætisráðherra (JM):

Jeg gleymdi að geta þess, út af ræðu hv. 6. landsk. (IHB), er hann sagði, að jeg hefði látið svo um mælt, að landsspítalinn ætti að ganga fyrir öllu öðru, að jeg hefi ekki sagt það.

Jeg mun því næst víkja nokkuð að ræðu hv. 1. landsk. (SE), enda þótt hann blandaði ýmsum algerlega óskyldum málum inn í umræðurnar, eins og t. d. utanríkismálunum, sem jeg veit eigi hvað koma þessu frv. við. Fátt, er hann sagði um þau, var þó á rökum bygt. Það, sem hann sagði um stöðu umboðsmanns vors í Khöfn, Jóns Krabbe, var með öllu rangt. Hvort sem hann heitir nú „Departementchef“ eða annað, (SE: Hann er Kommitteret!) þá er hann trúnaðarmaður Íslands í utanríkisráðuneytinu danska og ekkert annað. Það er heldur ekki rjett, að hann sje skipaður, hann er aðeins settur. Jeg þarf ekki að segja hv. 1. landsk. neitt um það, því honum er það kunnugt, að hann hefir verið viðriðinn mál Íslands í meir en fjórðung aldar, með heiðri og sóma, og er mjög vel til þess fallinn, Hann er alls ekki útnefndur af konungi, heldur er embætti hans stjórnarráðstöfun. Við stöðu hans ytra er ekkert að athuga. Það kemur þráfaldlega fyrir, að stærri þjóðir en við erum fela málefni sín fulltrúum annara þjóða. Hv. 1. landsk. má þó vera kunnugt, að jeg hefi jafnan verið því fylgjandi, að hafa sendiherra í Khöfn, og jeg efast um, að honum sje það meira áhugamál heldur en mjer, og gæti hann fengið þingið til að fallast á það, væri mjer það óblandin ánægja. Hinsvegar er ómögulegt að finna að því, frá sjálfstæðissjónarmiði, þótt vjer hefðum falið einhverjum erlendum sendiherra í Khöfn utanríkismál vor, og það veit hv. 1. landsk. Hann mintist á hæstarjett. Jeg sje ekki annað, en að það sje hreint álitamál, hvort dómendur eru þar þrír eða fimm. Að minsta kosti er ekki hægt að tala um sljóleika í því sambandi. Þá held jeg, að hv. þm. verði einn til að finna að því, að jeg ljet falla niður ferð til Kaupmh., til þess eins að leggja lagafrv. fyrir konung, sem er varla klukkustundar verk. Hv. þm. tók jafnvel svo djúpt í árinni, að telja þetta brot á stjskr. Þá hefir hann sjálfur margbrotið hana, því að jeg veit ekki betur en að hann hafi, í sinni stjórnartíð, oftsinnis sent slík lagafrv. símleiðis eða í pósti. Í 12. gr. stjskr. er ekki gerður greinarmunur á lagafrv. og öðrum mikilvægum stjórnarráðstöfunum. Jeg skil því ekki, til hvers jeg hefði átt að sigla til þess eins, að leggja fram lagafrv. Annað erindi hafði jeg ekki, því hefði svo verið, hefði jeg farið.

Hv. 5. landsk. (JJ) talaði um það, að ef stjórnin hefði stjórnað þorskinum á land árið sem leið, þá gæti hún þakkað sjer hina góðu fjárhagslegu útkomu, en annars ekki. Þetta á nú vist að vera ofur fyndið, en ætli hún hafi ekki einnig verið að þakka ráðstöfunum síðasta þings, tekjuaukafrv. þess og sparnaðarviðleitni. Auðvitað á góðærið sinn mikla þátt í að bæta hag ríkissjóðs, en hinu má þó ekki gleyma. Hv. sami þm. sagði, að jeg hefði staðið fyrir stjórn landsins í fimm ár. (JJ: Jeg er ekki fjármálaráðherra!) Hv. 5. landsk. er hvorki fjármála nje dómsmálaráðherra. En jeg hefi verið dómsmálaráðherra. (JJ: Hann getur ekki helgað sjer gróða þessa árs.) Ef maður vissi ekki, að hv. 5. landsk. væri sæmilega greindur maður, mætti ætla, að þessi orð hans væru sprottin af fávisku einni, en þetta er aðeins útúrsnúningur. Getur hv. 5 landsk. nefnt nokkurt land, sem ekki safnaði skuldum á stríðsárunum ? Og eins og hv. 1. landsk. (SE) benti á, eru þó ríkisskuldir vorar minni en víðast annarsstaðar. (JJ: Jeg mun svara þessu siðar.) Hv. þm. getur aldrei gert hvítt úr svörtu.

Það er ekki meining mín, að ríkissjóður sje sjerstaklega illa staddur nú, en hitt hefi jeg sagt, og stend við það, að ekki má treysta um of á eitt ár.

Jeg mun ekki tefja umræður meira, enda er þegar nóg komið, þótt það sje ekki mjer að kenna. Hv. 5. landsk. hefir, eins og hans er vandi, komið víða við, enda mun hann halda, að slíkt beri vott um þekkingu og vitsmuni og einhver kraftur sje í því fólginn. En jeg býst nú við, að þeir, sem hlusta á hann, kunni alteins vel að meta skraf hans eins og hann sjálfur.