05.05.1925
Efri deild: 68. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 991 í B-deild Alþingistíðinda. (222)

1. mál, fjárlög 1926

Halldór Steinsson:

Hv. 1. þm. Rang. (EP) talaði svo vel fyrir till. okkar um styrk til heimilisiðnaðarverslunar, að jeg taldi mig ekki þurfa þess, en hv. frsm. fjvn. (JóhJóh) gaf tilefni til þess. Jeg er alveg sannfærður um, að hv. þm. vilja styrkja þennan iðnað. Hann er nú tæplega til. Þessi litli vísir, sem til er, gengur aðallega til þess að klæða heimilin sjálf. En meðan þessi iðngrein er ekki meira rekin, getur hún ekki tekið nauðsynlegum framför.um. Það verður ekki fyr en markaður er fenginn fyrir vöruna.

Þó það sje nú svo á mörgum heimilum, að ekki er vinnukraftur til, þá eru þó mörg heimili, þar sem talsvert er unnið. En það vantar alla hvöt ennþá. Jeg álít því þessa till. þarfa og fer lengra en hv. meðflm. minn, sem sagðist sætta sig við, ef till. hæstv. fjrh. (JÞ) væri samþykt. Jeg legg svo mikið upp úr þessu, að jeg get ekki sætt mig við það.

En mig stórfurðaði á því orði, er hv. frsm. notaði, er hann kallaði þetta brask. Mjer lá við að víta þetta orðbragð. Jeg sje heldur ekki, hvers vegna það þarf neinn að undra, þótt Íhaldsmenn flytji þessa brtt., og jeg skil ekki, í hvaða sambandi þetta stendur við tóbakseinkasölu. Mjer finst einmitt ágætt samræmi í því, að Íhaldsmenn flytja; þeir eru menn frjálsrar verslunar. Þessi samkepni, sem á að vera svo hættuleg Thorvaldsensbasar, er fjarstæða. Sá basar kaupir ekki til að selja. Munirnir eru teknir af eigendum til sölu. Þegar „túristar“ koma, selst þetta líka á einum degi. Þá er gott að hafa verslun líka.

Jeg get yfirleitt ekki sjeð, að ummæli hv. frsm. (JóhJóh) hafi við rök að styðjast. Þetta er spor í áttina til þess að hrinda heimilisiðnaði okkar áfram, og þess er þörf.

Þá vil jeg loks þakka hæstv. dómsmálaráðherra (JM) og hæstv. atvrh. (MG) fyrir till. um 100 þús. kr. byggingarstyrk til Klepps og styrkinn til landsspítala. Loksins eftir margra ára baráttu er þessum tveim stórmálum lokið. Og afgreiðsla þeirra var slíkt nauðsynjamál, að það breiðir yfir margar syndir.