13.03.1925
Efri deild: 29. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í C-deild Alþingistíðinda. (2223)

22. mál, sóknargjöld

Frsm. minnihl. (Björn Kristjánsson):

Eins og hv. deildarmönnum er kunnugt, voru lögin um sóknargjöld sett árið 1909. Voru þá upphafin ýms gjöld, sem fram að þeim tíma höfðu hvílt á almenningi, svo sem preststíund af fasteign, offur, lausamannsgjald, lambsfóður og dagsverk. Í þessara gjalda stað kom prestlaunasjóðsgjaldið, sem hver maður og kona, 15 ára eða eldri, áttu að greiða.

Með sömu lögum voru afnumin kirkjutíund af fasteign og lausafje, kirkjugjald af húsum, ljóstollur, legkaup og skylduvinna sóknarmanna við kirkjubyggingar. Í stað þess var lagt á alla karla og konur, 15 ára eða eldri, kirkjugjaldið, 75 aurar á ári. Með lögum 1921 var gjald þetta hækkað um 50 aura, eða upp í kr. 1.25, með því að þessar tekjur höfðu ekki hrokkið til.

Nú hefir stjórnin, eða nefnd sú, er hún skipaði til þess að finna útleiðir til þess að bæta hag ríkissjóðs, lagt til, að gjaldið til prestlaunasjóðs verði hækkað um helming, eða upp í 3 krónur. Minni hluti nefndarinnar hefir fallist á, að hækkunar sje þörf, en vill þó ekki nema litla hækkun, eða að gjald þetta sje fært upp í 2 krónur. Það er alkunnugt, að þjóðinni er meinilla við beina skatta og nefskatta. Og það eru ekki einungis Íslendingar, sem er illa við slíka skatta, heldur einnig aðrar þjóðir, þótt slíkum sköttum hafi verið dembt á í bili. Af þeirri ástæðu hefir minnihl. viljað fara varlega í hækkun. En þótt hækkunin sje lítil, munar þó um hana fyrir prestlaunasjóð.

Ef nú þyrfti að hækka gjaldið meir síðar, er króna vor hefir náð gullverði — en þá fyrst kemur sú sanna þörf fram — þá gæti orðið álitamál, hvort eigi væri rjettara að jafna gjaldinu niður eftir efnum og ástæðum. En meðan gjaldið er svona lágt, ekki nema 2 kr., er ekki ástæða til þess, og jafnvel ekki þótt það væri nokkru hærra. í nál. er þess getið, að fríkirkjusöfnuðurinn hjer jafnar 5 kr. niður á meðlimi sína, en hjer er þó ekki gert ráð fyrir hærra gjaldi en kr. 3,25. Jeg hygg, að enginn geti orðið óánægður, þótt gjaldið hækki. Jeg veit, að sumir, er greiða 5 kr. gjald til safnaðar Haralds Níelssonar, greiða einnig til dómkirkjunnar, vegna þess, að þeir vilja fá að njóta beggja. Og jeg held, að ekki sje ástæða til að óttast óánægju, svo framarlega sem nokkurs er metið kirkja og prestur. Fyrir mitt leyti hefði jeg viljað fara hærra, en við vildum gæta allrar varkárni, eins og hv. 1. landsk. (SE) benti á. Hefir minnihl. nefndarinnar því borið fram brtt. á þgskj. 112, og mælir með því, að hún verði samþ. og málið gangi svo sína leið að umr. lokinni.