13.03.1925
Efri deild: 29. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í C-deild Alþingistíðinda. (2231)

22. mál, sóknargjöld

Einar Árnason:

Mjer hefir heyrst, að menn óski eftir að ræður verði stuttar og hógværlegar, og skal jeg ekki brjóta þá reglu. Jeg tók það fram við 1. umr., að jeg gæti ekki fallist á stefnu frv.; en hinsvegar skil jeg vel stefnu þeirra manna, sem álíta nefskatta rjettláta, að vilja með þessu frv. hækka þennan skatt. Samkvæmt því á þetta frv. rjett á sjer. Jeg get vel skilið stefnu hæstv. stjórnar, en jeg get síður skilið hugsanagang þann, sem kemur fram í brtt. háttv. minnihl. fjhn. þær tillögur eru svo smásmyglislegar, að það tekur því ekki, að greiða atkvæði um þær, enda eiga þær vart rjett á sjer, þó nefskattur sje talinn rjett stefna í þessum málum. Væri svo, ætti alt gjaldið að vera nefskattur. Háttv. frsm. minnihl. (BK) játaði, að þetta væri röng stefna í skattamálum, en hann telur þó rjett að gera skattinn ofurítið meira ranglátan en hann var áður. Það eru vafalaust gamlar venjur, sem villa mörgum sýn í þessu máli. Prestastjettin er ein elsta embættismannastjett í landinu, og var því prestsgjald komið til löngu áður en hið opinbera fór að sjá þeim fyrir launum. Það var fyrst 1909, að þessu gjaldi var breytt í nefskatt; áður var það goldið eftir efnum og ástæðum. Þessvegna er nú verið að fara fram á það í þessu frv., að viðurkenna, að þessi grundvallarregla sje rjett, og hækka nefskattinn um leið. Háttv. frsm. minnihl. (BK) sagði, að sami væri taxti lækna fyrir alla. Þetta er rjett, hann er jafn fyrir alla, og svo er og um aukaverk presta. En úr því að svo er, ætti að vera þess meiri ástæða til þess að jafna þessu gjaldi niður eftir efnum og ástæðum.

Þar sem jeg tel grundvallarreglu þessa frv. ranga, get jeg alls eigi greitt því atkvæði, og því síður get jeg greitt atkv. með till. minnihl. fjhn. Eins og jeg sagði, sýnast mjer þær vera svo smásmyglislegar, að næsta óviðeigandi sje að láta þær koma til atkvæða.