16.03.1925
Neðri deild: 34. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í C-deild Alþingistíðinda. (2242)

15. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Frsm. (Sigurjón Jónsson):

Mentamálanefnd hefir í afstöðu sinni til þessa máls aðallega tekið tillit til þeirra efnisbreytinga, er felast í 3., 4. og 5. gr. frv. þessa.

3. gr. ákveður, að kennurum sje skylt að kenna 36 stundir á viku, í stað þess, að nú eru 30 stundir skyldukensla. Ennfremur er þar ákveðið, að ráðherra ákveði fjölda kenslustunda hjá skólastjórum eða forstöðumönnum þeirra skóla, er hafa fleiri en tvo kennara, en áður munu skólanefndir hafa ákveðið þetta.

Í 4. gr. er ákveðið, að launaviðbætur eftir þjónustualdri greiðist af sömu aðiljum og í sömu hlutföllum eins og launin sjálf. Nú eru allar þessar launaviðbætur greiddar af ríkissjóði, en ættu samkv. frv. hjer eftir að greiðast að tveim þriðju úr bæjarsjóðum, en að hálfu leyti úr sveitarsjóðum.

5. gr. ákveður svo, að dýrtíðarbætur bæði af skyldulaunum og launaviðbótum greiðist af sömu aðiljum og launin og í sömu hlutföllum. En nú eru allar dýrtíðarbætur greiddar af ríkissjóði.

Það eru þessar þrjár efnisbreytingar, sem rjeðu skoðun mentmn. í þessu máli, og skal jeg þá leyfa mjer að fara nokkrum orðum um þær, og í sömu röð og jeg hefi talið þær.

Hvað fyrstu breytinguna snertir, um að fjölga skyldustundum kennara, þá er hjer um raunverulegan sparnað að ræða, þar sem heimtuð er meiri vinna fyrir sama kaup, ef gengið er út frá því, að annars sje ekkert unnið, það sem þjóðfjelaginu sje til nytja eða einstaklingum þess, til gagns.

Jeg skal fúslega taka undir það, er stendur í athugasemdum við frv. þetta, að það getur ekki talist ósanngjarnt nje ofætlun heilbrigðum manni, að kenna 6 stundir á dag í barnaskóla, en þá er gengið út frá því, að kenslan sje þeirra eina starf auk heimavinnu í sambandi við hana, stílaleiðrjettingar o. s. frv.

En nú mun reynslan sú, að enda þótt kennaralaunin þyki há fyrir ríkissjóð að greiða þau, þá mun þó hver sanngjarn maður sjá, að sjeu kennarar í kaupstað fjölskyldumenn, þá geta þeir ekki lifað með sifjalið sitt á kennaralaununum einum. Þessvegna er þeim sá kostur einn fyrir hendi, að hafa einhverja aukavinnu með kenslunni, og það aukavinnu, sem þeir fá sjerstaka greiðslu fyrir, en þannig verður tími þeirra af nauðsyn bundinn meira en lögin gera ráð fyrir. Jeg tala hjer sjerstaklega fyrst um kaupstaðakennarana, því að jeg hygg, að það sje ekki ofmælt, þótt jeg segi, að kaupstaðarkennari, sem hefir fyrir fjölskyldu að sjá, hann verði að vinna fyrir aukaþóknun um tvo tíma daglega til þess að auka það við laun sín, að hann geti lifað sómasamlega. Fyrir slíka menn væri því ekki að tala um að gera skyldustundirnar sex, heldur átta, auk óhjákvæmilegrar heimavinnu.

Það má segja um þessa aukavinnu, að lögin geri ekki ráð fyrir því, að kennarar hafi aukastörf samhliða stöðu sinni, en þegar launin hrökkva hvergi nærri til þess, að kennarinn geti af þeim lifað, þá brýtur nauðsyn lög, og býst jeg ekki við, að neinn geti láð það.

Nefndin getur því ekki fallist á að fjölga kenslustundum kaupstaðakennara, nema þá að hækka laun þeirra að sama skapi, en slíkt liggur ekki fyrir nú.

Hvað sveitakennara snertir, þá segja mjer þar um kunnugir menn, að þeir kenni oft og jafnaðarlega meira en 5 stundir á dag. Þar væri því ákvæðið óþarft, auk þess sem ekki yrði sanngjarnt talið að gera þeim beint að skyldu að kenna fleiri tíma en kaupstaðakennurum, þótt það að sjálfsögðu yrði vel þegið af þeim, sem njóta eiga.

Að síðustu skal jeg aðeins geta þess, að sje litið á þetta atriði sem sparnaðarmál, þá dylst nefndinni ekki, að það muni verða ærið seinvirkt sem slíkt, þar sem það varla gæti komið til framkvæmda fyr en smátt og smátt, eftir því sem kennarastöður yrðu veittar á ný.

Þá kem jeg að breytingunum í 4. og 5. gr. Að þessu sinni eru brtt. þessar komnar frá nefnd þeirri, er skipuð var samkvæmt þál. síðasta þings til að athuga og gera till. um, hvar spara megi á ríkisrekstrinum.

Báðar þessar brtt. voru fyrir síðasta þingi og þá komnar frá hv. fjvn. þessarar deildar. Bæði þessi atriði voru þá þrautrædd hjer í hv. deild, og virðist mjer því ástæðulaust að fara að endurtaka nú alt, er sagt var með og móti þessum breytingum.

Samkvæmt áliti sparnaðarnefndar er hjer um að ræða alt að 160 þús. kr. útgjöld fyrir ríkissjóð, er með breytingunni færðust yfir á bæja- og sveitasjóði. Hjerumbil 2/3 af þessari upphæð lenti á kaupstöðunum að greiða, en rúmlega 1/3 á sveitunum. Hjer er því ekki um neinn raunverulegan sparnað að ræða fyrir þjóðarbúskapinn, aðeins tilfærslu á gjöldum ríkissjóðs yfir á bæja- og sveitasjóði.

Jeg álít óþarfa að fara að rekja allar þær ástæður, er rjettilega voru færðar móti þessu í fyrra, enda geri jeg ráð fyrir, að skoðanir hv. þdm. hafi ekki breyst frá því, sem þá var. Aðeins get jeg tekið það fram, að aðalástæða mentmn. gegn þessum brtt. er hin sama og í fyrra: að vjer álítum ekki bæja- og sveitasjóði færari um að leggja á sig þessi auknu gjöld heldur en ríkissjóð, þótt vjer hinsvegar viðurkennum fjárhagsörðugleika hans. Og hvað fjárhag einstakra bæja- og sveitafjelaga snertir, þá má aðeins minna á allar þær beiðnir, er á síðasta þingi bárust frá sveitafjelögum um styrk og ábyrgðir ríkissjóðs, vegna knýjandi fjárhagsvandræða heima fyrir. Og enn berast slíkar beiðnir, og þó er ekki hægt að sinna nema örfáum.

Hvað launaviðbætur eftir þjónustualdri sjerstaklega snertir, þá álítur nefndin einnig, að í eðli sínu sje rjettara, að þær sjeu greiddar af ríkissjóði, af ástæðum, er svo margoft hafa verið tilfærðar, þ. e. flutningi kennara frá einum skóla til annars.

Jeg skal sama sem sleppa að minnast á þá ástæðu fyrir þessum breytingum, að við aukin gjöld á bæja- og sveitafjelögum, þá kunni það óbeinlínis að leiða til nokkurs sparnaðar á kostnaði við barnafræðsluna. Þetta er varla hægt að skilja á annan hátt en þann, að úr þeirri fræðslu yrði dregið, sem nú er venja að veita, því að það mikið leggja bæja- og sveitafjelög til barnafræðslunnar nú, að yfirleitt mun ekki varið til hennar meira en brýn nauðsyn krefur. Jeg skal alls ekkert um það fullyrða, að afleiðing þessarar breytingar gæti ekki að einhverju leyti orðið sú, seni hjer er giskað á, en því varhugaverðari álít jeg breytinguna, ef henni væri stefnt til þess að skerða þá fræðslu, er æskulýðnum er veitt nú.

Þá skal jeg koma að einu atriði þessa máls, sem snertir þessar breytingar. Bæja- og sveitasjóðir greiða nú, eftir gildandi lögum, svo mikið til barnafræðslunnar, að sú greiðsla ætti að vera næg trygging þess, að þessir tveir aðiljar fari sparlega og svo hyggilega sem unt er með alt það fje, sem til barnafræðslunnar er varið. En þegar þetta atriði er trygt, þá fæ jeg ekki betur sjeð en að það sje eðlilegt og sanngjarnt í alla staði, að ríkissjóður, þessi sameiginlegi sjóður allra landsmanna, greiði drjúgan skerf af þeim gjöldum, sem varið er til fræðslu æskulýðsins.

Um fræðslumálin á að vera samstarf allrar þjóðarinnar, því að hjer er ekki um annað að ræða en að manna og menta æskulýðinn og afla þjóðfjelaginu betri og nýtari borgara, svo að valinn drengur verði í hverju rúmi. Það bæjar- eða sveitarfjelag, sem í þessu efni gerir best skyldu sína, það er ekki eingöngu að búa í haginn fyrir sig, heldur og aðra. Með góðri ungmennafræðslu er búið í haginn fyrir þjóðina í heild. Svo mikill flutningur er á fólkinu fram og aftur, að ekkert bæjarfjelag eða fræðsluhjerað veit, hve margra eða fárra það sama fjelag fær að njóta, er stundir líða. Sveitirnar og hjeruðin eru því að vinna fyrir sameiginlegum hagsmunum, Og þessvegna er það eðlilegt, eins og jeg tók fram áðan, að sameiginlega fjárhirslan, ríkissjóðurinn, beri drjúgan skerf af fræðslukostnaðinum, en velti honum ekki af sjer og yfir á þá máttarminni, en það eru bæja- og sveitasjóðirnir, eins og margsinnis hefir verið bent á.

Sje litið á barnafræðsluna sem grundvöll þeirrar menningar, sem vera á máttur hvers þjóðfjelags, þá er hjer um sameiginlegt þjóðmál að ræða — og jeg vil bæta við, að það sje langstærsta þjóðmálið. Þessvegna vonast jeg til, að sem flestir af hv. þdm. verði mentmn. sammála um það, að mest sanngirni sje í, að ríkissjóður beri sinn bróðurhluta af þeim kostnaði, sem til þessara mála fer, og greiði af þeim ástæðum atkv. með till. nefndarinnar.

Um 1., 2., 6. og 7. gr. þessa frv. er mentmn. ekki alveg sammála, en meirihl. hennar leit svo á, að þessar breytingar sjeu svo veigalitlar, að þeirra vegna einna sje ástæðulaust að gera frv. þetta að lögum. Þó skal jeg geta þess, fyrir mitt leyti, að breytingarnar í 2. og 6. gr. tel jeg til bóta, og er því samþykkur, sem um þær segir í aths. frv.

Um breytingarákvæðin í 1. gr. skal jeg geta þess, að jeg er samþykkur staflið f„ þar sem gert er að skilyrði fyrir því, að kennari sje skipaður, að hann hafi annaðhvort fyrst verið settur um eitt ár við þann skóla, eða verið skipaður kennari við samskonar skóla áður. Þessari reglu er nú þegar viða fylgt og hefir gefist vel, og væri þessvegna rjett að hafa ákvæði um það í lögunum. Aftur á móti er jeg ekki samþ. fyrri hluta gr. Jeg vil ekki láta fella niður þá heimild, að menn geti orðið barnakennarar, þótt þeir hafi ekki próf frá kennaraskóla.

Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál. Mentmn. er mótfallin þessum aðalefnisbreytingum frá núgildandi lögum, er frv. ráðgerir. Hinsvegar eru óbundin atkv. nefndarmanna um þær gr., er jeg nefndi nú síðast, og er mjer kunnugt um, að hv. 2. þm. Eyf. (BSt) hefir sjerstöðu í málinu, er hann gerir nánar grein fyrir. Jeg hefi, af ásettu ráði, sneitt hjá því, að koma nokkuð inn á fræðslukerfið yfirleitt, og þó að jeg taki oftar til máls, mun jeg heldur ekki gera það. Jeg hefi ekki viljað verða þess valdandi, að umr. snjerust um annað en brtt. þær, sem frv. fer fram á, svo að úr þeim þyrfti að teygjast þessvegna. Með þessum orðum læt jeg svo máli mínu lokið.