16.03.1925
Neðri deild: 34. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í C-deild Alþingistíðinda. (2245)

15. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Bernharð Stefánsson:

Af því að jeg hefi skrifað undir nefndarálitið með fyrirvara, kann jeg ekki við annað en segja nokkur orð.

Eins og háttv. deildarmenn muna, var hjer í deildinni í fyrra samþykt frv., sem gekk að nokkru leyti í sömu átt og þetta. það frv. fjell í Ed. Fylgdi jeg þá því atriði, að dýrtíðaruppbót kennara skyldi greiðast af sömu aðiljum og í sömu hlutföllum og launin sjálf. En jeg vildi þá, að hjeruðin væru ekki þvinguð til að láta kenna lengri tíma en þau vildu sjálf. Að minsta kosti ekki lengri tíma en svo, að hvert barn fengi hina lögskipuðu kenslu. Jeg bar því fram brtt. í þessa átt, sem samþykt var hjer í deildinni í fyrra. Jeg leit nefnilega svo á, að slík breyting væri eina skilyrðið til þess að sveitir landsins gætu gengið að því, að bæta á sig þessum gjöldum. Nú hefir hæstv. stjórn ekki tekið þessa tillögu mína til greina, þegar hún samdi frv. það, sem nú er til umræðu, enda má vera, að það hefði enga þýðingu haft, þar sem Ed. tók svo í málið í fyrra, að vonlaust myndi, að það næði fram að ganga nú.

Af þessum ástæðum sá jeg ekki til neins að flytja þessa till. nú, og sömuleiðis af því, að ýmsar aðrar ástæður hafa líka breyst síðan í fyrra. Þannig var þá, vegna hins bágborna hags ríkissjóðs, reynt að spara gjöld hans á öllum sviðum, og það jafnvel, þó að sparnaðurinn væri ekki fyrir þjóðina í heild, eins og t. d. frv. þetta í fyrra. En nú hefir, sem betur fer, hagur ríkissjóðs batnað svo, að síður er ástæða til að leita slíkra ráða. Líka hefir dýrtíðaruppbótin hækkað síðan, svo að hjeruðunum er mun erfiðara að taka hana yfir á sig en þá var. Þó að jeg telji því þetta ákvæði frv., að dýrtíðaruppbótin skuli greiðast eftir sömu hlutföllum af sömu aðiljum og launin sjálf, ekki rangt, þá hefi jeg ekki, vegna hinna breyttu ástæðna síðan í fyrra, viljað gera ágreining út af því, og hefi því orðið ásáttur um að fylgja nefndinni í því, að leggja til, að frv. verði felt eins og það liggur fyrir nú.

Að því er 1. gr. frv. snertir, vil jeg taka það fram, að jeg tel vafasamt, að kominn sje tími til þess enn hjer á landi að gera strangar kröfur til sveitakennara um að þeir hafi kennaramentun, því að reynslan hefir sýnt, að fjöldi kennara hafa reynst ágætlega, þó að þeir hafi ekki haft sjermentun.

Viðvíkjandi kröfunni um 6 stunda kenslu á dag skal jeg taka það fram, að jeg tel það ekki framkvæmanlegt í sveitum. Þar sem börnin þurfa að ganga langa leið heim og heiman er 5 stunda kensla það lengsta, sem má hafa.