25.03.1925
Efri deild: 38. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í C-deild Alþingistíðinda. (2255)

17. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Frsm. meirihl. (Jónas Jónsson):

Þetta stjfrv. gerir ráð fyrir því, að landið taki að sjer kvennaskólann í Reykjavík, sem um hálfa öld hefir verið rekinn sem einkafyrirtæki. Hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) ber fram brtt. við frv. þetta um það, að ríkið taki einnig að sjer kvennaskólann á Blönduósi.

Vegna veikinda nefndarmanna í mentmn., hefir þetta mál komið svona seint úr nefnd.

Meirihl. nefndarinnar hallast áð því, að hvorugt nái fram að ganga, og eru ástæður fyrir því teknar fram í nál. Við höfum tveir, hv. 1. landsk. (SE) og jeg, orðið samferða, en höfum þó hvor sínar ástæður. Hann heldur því fram, að skólinn muni verða ríkinu kostnaðarsamari en áður, ef hann yrði gerður að ríkisskóla. Jeg er því að vísu samþykkur, en mundi þó ekki láta það eitt sitja fyrir því, að málið næði fram að ganga, ef stefnan væri annars rjett. Báðir þessir skólar hafa verið, eftir því sem jeg best veit, gagnfræðaskólar. Þessu hefir verið mótmælt af hv. 6. landsk. (IHB), um Reykjavíkurskólann. Það er að vísu vitanlegt, að þar er starfrækt hússtjórnardeild og eitthvað kent í handavinnu. En þessir skólar hafa verið miklu líkari gagnfræðaskólum, og segi jeg það ekki til lasts um þá. Það var eðlilegt, að skólarnir kæmust í þetta horf áður, meðan konur voru útilokaðar frá námi í skólum þeim, er karlmenn höfðu aðgang að. Vil jeg því í þessu sambandi fyrst víkja að því, hver var höfuðtilgangur kvennaskólanna, er þeir voru stofnaðir. Þeir voru settir á stofn til þess, að hjálpa konum til þess að fá almenna mentun, vegna þess, að eldri skólar voru til fyrir karlmenn. Svo fengu konur leyfi til þess að sækja almennu skólana, en það var mjög lítið um þátttöku af þeirra hálfu framan af. Man jeg eftir því, að öll árin, sem gagnfræðaskólinn var á Möðruvöllum, þá var það víst aðeins ein kona, sem tók próf þaðan. Um sama. leyti voru og stúlkur í mentaskólanum hjer, en mjög fáar fyrst framan af. Nú vita allir, að í þessum skólum eru konur jafnt sem karlar, svo sem t. d. í mentaskólanum, Flensborgarskólanum og gagnfræðaskólanum á Akureyri og víðar. Og það eru ekki til neinir hreinni sjerskólar fyrir konur eða karla, nema bændaskólar og húsmæðraskólar. Það er hvorttveggja hliðstætt og augljóst, að svo á að vera. Aftur á móti get jeg ekki sjeð annað en að rás viðburðanna hafi gert almenna kvennaskóla miður þarfa. Auðvitað geta þeir gert gagn. En nú eru allir almennir skólar opnir jafnt konum sem körlum, og engin ástæða til að ríkið haldi uppi gagnfræðaskólum sjerstaklega fyrir konur.

Út af brtt. þm. A.-Húnv. skal jeg taka það fram, að höfuðgallinn á henni er sá, að í stað þess að laga Blönduósskólann eftir breyttum kringumstæðum, þá er að forminu til gert ráð fyrir því einu, að koma honum á framfæri ríkisins.

Í niðurlagi nál. hefi jeg drepið á það, að ef báðum þessum kvennaskólum yrði breytt í húsmæðraskóla, þá mundi málið horfa alt öðruvísi við, frá mínu sjónarmiði, og þá mundi jeg geta verið með því, að kosta meiru til þeirra heldur en áður. Og jeg vil taka það fram um Blönduósskólann, að Húnvetningar sjá, að þeim er þarflaust að halda uppi gagnfræðaskóla fyrir konur, og þeir ættu að snúa meir og meir að því, að gera hann að húsmæðraskóla. Síðustu breytingar, sem á skólanum hafa verið gerðar, benda í þessa átt. Og jeg vil undirstrika það, að jeg gleðst yfir þeim breytingum.

Jeg hefi nú skýrt málið nokkuð, frá minni hlið, og býst jeg við því, að hv. 1. landsk. (SE) skýri það einnig frá sinni hlið, sem jeg tel líka rjetta, að kostnaður við skólana aukist með frv. Og jeg vil taka það fram hjer, í þessu sambandi, og beina því til hæstv. mentamálaraðherra, að kostnaðarmunurinn milli einkaskóla og ríkisskóla er mjög mikill. Jeg man nú ekki í svipinn, hver er kostnaður við skólana á Hvanneyri, Hólum og Eiðum, en minnir að hann sje 17–20 þús. kr. Að vísu hefir landið lagt skólum þessum til jarðir og hús, og er engin leiga tekin af því. Í Hólaskóla munu vera um 30 nemendur, og hann kostar ríkissjóð um 20 þús. kr., en kvennaskólinn hjer, sem er vel rekinn, og hefir haft 4 sinnum fleiri nemendur, hefir ekki kostað ríkissjóð nema 20–24 þús. á ári, og þó greitt háa húsaleigu. Ef maður vill reikna, hversu ríkisskólarnir hafa orðið miklu dýrari í öllum rekstri en einkaskólarnir, þá verður það eftirtektar- og athugunarvert fyrir ríkisstjórnina, hvort eigi megi læra eitthvað af þessum skólum, sem eru einkafyrirtæki. Jeg veit, að þetta gengur best hjer í Rvík; einkaskólarnir eru langtum ódýrari, og fer þeim þó kenslan vel úr hendi. Verslunarskólinn og samvinnuskólinn eiga nú að fá 3000 kr. úr ríkissjóði. En Hólaskóli, sem ekki hefir nema 1/4 af nemendum móts við þá, kostar landið um 20 þús., og vjelstjóraskólinn enn meira, ef miðað er við nemendafjölda.

Stjórninni ætti að vera það ljóst, að það mundi verða stórkostlegur kostnaðarauki, samkvæmt fenginni reynslu, að gera kvennaskólann að ríkisskóla. Jeg hefi reynsluna fyrir mjer við samvinnuskólann. Hann hefir haft lágan ríkissjóðsstyrk, en þó hefir gengið sæmilega vel að fá til hans vel hæfa kennara, þrátt fyrir, að aðeins hefir verið um tímakenslu að ræða; enda er af nógu að taka í því efni hjer í Reykjavík. Jeg álít það mætti spara mikið í rekstri mentaskólans, með aukinni tímakenslu, en fækkun á föstum kennurum. Tímakennarar verða ætíð ódýrari og fást alveg eins góðir, að minsta kosti hjer í Rvík. Stjórnin ætti að læra af þessu að haga rekstri ríkisskólanna svo, að þeir yrði ódýrari ríkissjóði en þeir hafa verið að undanförnu.

Ef jeg nú væri viss um það, að skólarnir yrðu betri við það, að verða ríkisskólar, er svo miklu meira fje verður eytt til þeirra, eftir þá breytingu, væri alt öðru máli að gegna um mína afstöðu til þessa frv. En jeg er ekki viss um þetta, nema síður sje. Jeg held, að skólarnir mundu ekki batna; því þeir hafa allir starfað vel, og enda hygg jeg, að t. d. þessi skóli, sem hjer ræðir um, sje einmitt aðdáunarverður fyrir, hversu vel hann hefir komist af með ekki meira fje en hann hefir haft frá því opinbera, unnið gott starf, og getað búið í jafngóðu húsi og sá skóli hefir. Jeg hygg, að þetta stafi af því, að skólinn er laus við hið þunglamalega rekstrarfyrirkomulag ríkisstofnananna.

Það er aðeins eitt, sem jeg veit til að geti mælt með því, að kvennaskólinn í Rvík og Blönduósskólinn yrðu ríkisskólar, en það eru launakjör forstöðukvennanna við þessa skóla. Jeg geri ráð fyrir, að þau sjeu nú of lág við báða þessa skóla. Að minsta kosti veit jeg, áð svo er í Rvík, og mundu því launin hækka, ef skólarnir yrðu ríkisskólar. Við þessa skóla báða þarf að vera að minsta kosti einn fastlaunaður kennari við hvorn þeirra; það mundi binda fastar saman hina kennarana. Þetta má vel bæta, án þess að til þess þurfi að grípa, að gera skólana að ríkisstofnunum. Það þyrfti ekki annað en að hækka lítilsháttar hinn opinbera styrk til þessara skóla, til þess að samræmi verði á launum þessara forstöðukvenna og annara forstöðumanna við svipaða skóla. En ef ríkið tæki að sjer kvennaskólann í Rvík, þá geri jeg ráð fyrir, að það yrði að gera eitt af þrennu: að kaupa það húsnæði, sem skólinn nú hefir, að leigja húsið, eða þá, sem líklegast er, yrði að byggja nýtt hús fyrir þennan skóla. Jeg álit nú, að heppilegast sje fyrir alla hlutaðeigendur, að láta þessa skóla halda áfram að vera einkafyrirtæki, og rjettara væri að breyta einhverjum af þeim ríkisskólum, sem nú eru, í einkafyrirtæki, en að veita þeim einhvern opinberan styrk eða annan líkan stuðning.