25.03.1925
Efri deild: 38. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í C-deild Alþingistíðinda. (2257)

17. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Frsm. minnihl. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Jeg veit vart, hvar jeg á að byrja eða enda á umræðum þessum, sem svo mörgu óviðkomandi hefir verið blandað inn í; en er jeg tala fyrir nál. minnihl. í þessu máli, vil jeg benda á, að þar sem konur hjer á landi hafa nú öðlast jafnrjetti við karla, er það eigi óeðlilegt, að þess gætti á einhvern hátt í mentamálunum. Eftir afstöðu ríkisins til mentamálanna yfirleitt, virðist ekki ósanngjarnt, að það kosti einn sjerskóla fyrir konur. Jeg legg ekki mikið upp úr því einu saman, að kvennaskólinn í Rvík varð sl. haust fullra 50 ára, en jeg vil aðeins benda á, að í áliti milliþinganefndarinnar frá 1922, um sjerskólana, er mælt með því, að kvennaskólinn í Rvík verði á sínum tíma gerður að ríkisskóla, þ. e. á 50 ára afmæli hans. Minnihl. mentmn. byggir á alt öðrum forsendum en háttv. meirihl., sem vill fella frv.

Viðvíkjandi brtt. háttv. þm. A.-Húnv. (GÓ) vil jeg taka fram, að um þær var alls enginn ágreiningur í nefndinni.

Forsendur háttv. meirihl. finnast mjer ærið veigalitlar. Það fylgir því auðvitað dálítill aukakostnaður, að gera kvennaskólann að ríkisskóla, en það er ekkert einsdæmi, að ráðist sje í það, sem einhvern kostnað hefir í för með sjer, eigi sist, þegar um þarft og nytsamlegt fyrirtæki er að ræða, sem viðurkent er, að hafi innt þarft og gott starf af hendi. Enda var kostnaðargrýlan ekki aðalástæðan í augum tveggja hv. samnefndarmanna minna, svo að þeir vildu fella frv. af þeirri ástæðu einni. Mjer kemur það nú undarlega fyrir sjónir, er háttv. 5. landsk. (JJ) lýsir núverandi fyrirkomulagi þessa skóla þannig, að það er hreinasta traustsyfirlýsing til kvennaskólans í Rvík, en vill þó um leið neita honum um þau fríðindi, bæði í fjárstyrk og öðru, sem best gætu trygt tilveru hans í framtíðinni. Þetta er hið sama og sagt væri um einhvern: Þú hefir hingað til unnið öll þín störf vel, fyrir lítil laun, og því engin minsta ástæða til að bæta kjör þín á nokkurn hátt. Háttv. 5. landsk. lætur í veðri vaka, að ekki megi breyta til í þessu efni um skólann, af því að hann hafi gefist vel. Það er ekki nóg að lofa skólann, en vilja svo ekki sinna honum að öðru leyti. Háttv. 5. landsk. (JJ) sagði, að kvennaskólinn væri ekki sjerskóli. Röksemdir hans í því efni voru þann veg, að engin kona mundi fallast á þær, enda ætla jeg alls ekki að ræða þær hjer. Jeg vil aðeins koma með eitt lítið dæmi: Hvort mundi háttv. þm. vilja senda sonu sína í kvennaskólann, ef annars væri kostur? Að öðru leyti er jeg þakklát háttv. þm. fyrir traustsyfirlýsingu hans til skólans. Það er bæði blessað og gott, að fá hana. En hún einsömul nægir mjer ekki. Þar sem háttv. 5. landsk. (JJ) segir, að kenslan í kvennaskólanum í Rvík sje og hafi aðallega verið gagnfræðakensla, þá nær það engri átt, og skal jeg síðar rökstyðja það. Þó að það sje rjett, eins og háttv. þm. bendir á, að konur hafi nú jafnan rjett og karlar til allra mentastofnana, og að nú sje öldin önnur en þegar sækja hafi þurft um leyfi fyrir stúlkur, til þess að fá að sitja í tímum í lærðaskólanum og taka þaðan próf, þá er það eins ómótmælanlega rjett, að konur verða að hafa úrskurðarvald í því efni, hvort þær vilji heldur sækja sjerskóla eða samskóla. Jeg er ekki að hafa á móti samskólunum, en jeg álít ekki vit í því, að banna sjerskólana, og kvennaskólarnir eru vissulega sjerskólar í sinni röð.

Viðvíkjandi brtt. háttv. þm. A.-Húnv. (GÓ) hefi jeg fátt að segja. Hann sagði aðeins eins árs aldursmun á Blönduósskólanum og kvennaskólanum í Rvík. Eftir því sem jeg man best, var Blönduósskólinn stofnaður árið 1883, því hann verður að teljast áframhald af Ytri-Eyjarskólanum, vantar því ca. 8 ár til þess að hann sje fullra 50 ára.

Þegar að því kemur, að Blönduósskólinn á jafnan rjett til þess að vera gerður að ríkisskóla og kvennaskólinn í Reykjavík á nú, þá mun jeg ekki tefja fyrir því.

Hv. þm. (GÓ) getur fengið sjer upplýsingar um það, að árið 1911, þegar Blönduósskólinn brann, þá sátu þeir þingm. Húnvetninga hjer á þingi, er ekki báru hag skólans síður fyrir brjósti en hv. núverandi þm. A.-Húnv. (GÓ). Og áttum við þá tal um það, 2. þm. Húnv. og jeg, hvort ekki væri rjett að breyta Blönduósskólanum í húsmæðraskóla, þegar hann yrði bygður á ný og tæki aftur til starfa. Hann var því ekki mótfallinn og sagði, að ef hann mætti ráða, þá yrði fyrirkomulagi skólans breytt þannig. Jeg tek það fram, að jeg átti þess þá nokkurn kost, að hafa áhrif á, hvern styrk skólinn fengi, þótt jeg sæti ekki á þingi. Jeg vildi aldrei vera fundin í því, að setja fót fyrir þjóðþrifafyrirtæki, og þegar sá tími kemur, að kvennaskólinn á Blönduósi á jafnan rjett sem kvennaskólinn í Rvík til þess að vera gerður að ríkisskóla, þá Verður hann það.

Jeg sný mjer nú að frv. sjálfu. Eins og tekið er fram í aths., er frv. komið frá forstöðunefnd kvennaskólans. Ráðuneytið hefir svo fallist á það. Mjer er ekki kunnugt um, að hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) hafi neitt umboð til þess að biðja ríkið að taka skólann á Blönduósi að sjer. Skólinn hjer er nær eingöngu rekinn á ríkisins kostnað, og því fullkomlega rjett, að stjórnin fái umráð yfir honum.

Jeg skal svo víkja aftur að hinum einkennilegu rökum hv. frsm. meirihl. (JJ), þar sem hann notar það sem mótbáru, að skólinn hefir verið ódýr í rekstri. Eru líkur til þess, að breyting verði á þeirri stefnu skólans, þó að ríkið taki hann að sjer? Jeg veit, að ef skólinn fengi að þenjast út og gleypa við öllum þeim nemendafjölda, sem hann kynni að eiga kost á, þá mætti svo fara. En jeg býst ekki við, að til þess komi í náinni framtíð.

Ástæða hins samnefndarmanns míns, að hann væri frv. fylgjandi, ef um það væri að ræða, að gera báða skólana að húsmæðraskólum, kemur hjer ekki til greina, þar sem um slíka breytingu er alls ekki að ræða.

Jeg ætla, með örfáum orðum, að drepa á, með hverjum hætti staðinn var straumur af kostnaðinum við stofnun kvennaskólans í Reykjavík, fyrir rúmum 50 árum. Það var gert með frjálsum samskotum, fyrir tilstilli hinnar þjóðkunnu ágætiskonu Thoru Melsteð. En fjársöfnunin sú bar lítinn árangur hjer á landi; aftur á móti safnaðist allmikið fje í Danmörku, um 8000 kr., því bæði vantaði efni og áhuga hjer. Fyrstu árin starfaði skólinn án nokkurs opinbers styrks. Næstu árin fær hann svo 200 kr. árl. styrk; úr því fer styrkurinn smáhækkandi, eins og sjá má á síðustu skýrslu kvennaskólans, fyrir skólaárið 1923–’24, bls. 17. Hinn opinberi styrkur til skólans hefir, eins og skýrslan sýnir, jafnan verið lítill, en stjórn og þing samt ætíð viðurkent hann rjettmætan. Og nú, þegar vjer konur, samkvæmt lögum, höfum jafnrjetti á við karla, þá skal það sýnt, að vjer krefjumst þess einnig í verki.

Þess skal getið með þakklæti, að stjórnin hefir jafnan verið skólanum velviljuð og skilið nauðsyn hans og þarfir. En jeg vil benda á, að þótt styrkurinn sje nú 27 þús. kr., þá er hann samt lægri en til annara skóla, miðað við nemendafjölda. Þetta ætti síst að nota til niðrunar skólanum. Þessar 27 þús. kr. gera 236.87 á hvern nemanda, og er mun lægra en við nokkurn annan sambærilegan skóla, þótt námstíminn sje 71/2 mán. í bekkjunum og 9 mán. í matreiðsludeild skólans.

Þær spár, að skólinn verði miklu dýrari í rekstri sem ríkisskóli, hafa ekki við mikil rök að styðjast.

Að vísu er gert ráð fyrir, að laun forstöðukonu og kenslukonunnar í hússtjórnardeildinni hækki nokkuð, og að bætt verði við tveim föstum kennurum, með 2 þús. kr. launum, auk dýrtíðaruppbótar. Á annar hinna föstu kennara að hafa á hendi aðalkensluna í verklegum námsgreinum, en hinn í munnlegum námsgreinum. Hækkun til kennarans í verklegum námsgreinum mundi nema 86 kr., að viðbættri dýrtíðaruppbót, sem menn vona þó, að ekki verði eilíf. En um laun kennarans í munnlegum greinum er það að segja, að hann hefir nú, fyrir 18 stunda kenslu á viku, 1620 kr. um árið. Laun hans mundu því hækka um tæp 400 kr. á ári. Er þetta í sjálfu sjer engin hækkun, þar sem hann þá mundi kenna sama stundafjölda og annarstaðar tíðkast um fasta kennara við sambærilega skóla.

Forstöðunefnd kvennaskólans hefir tekið fram nauðsyn þess, að fá að minsta kosti 2 fasta kennara að skólanum. Jeg býst ekki við, að það þurfi að gera nánari grein fyrir því, að skóli með um 120 nemendur árl. þurfi meira en einn fastan kennara. Það er svo augljóst. Það er ekki til lítils ætlast af forstöðukonu kvennaskólans, með því fyrirkomulagi, sem nú er. Jeg hefi tekið það fram í síðustu skýrslu kvennaskólans, hvílíkur hnekkir það er skólanum, að þurfa oft að skifta um kennara. Jeg get borið um það af 30 ára reynslu. Og þó skal því síst neitað, að skólinn hefir oftast verið heppinn í vali kennara.

Að öllu þessu athuguðu sje jeg ekki, að hægt sje að gera úlfalda úr mýflugu, að því er kostnaðinn snertir við frv. Þykist jeg þar með hafa hrakið ummæli hv. 5. landsk. (JJ). En þar sem hann segir, að kvennaskólinn sje ekki sjerskóli, þá vil jeg spyrja: Hvað er sjerskóli, ef ekki sá skóli, sem kennir ungum stúlkum, í hvaða stöðu sem er, það er þær þurfa að læra. í hússtjórnardeildinni út af fyrir sig hafa á síðastliðnum 15 árum ekki færri en 360 nemendur notið kenslu, fyrir utan allmargar stúlkur, sem verið hafa á styttri námsskeiðum. Stutt námsskeið á sumrum voru aðallega ætluð stúlkum úr Rvík, þar eð stúlkur úr sveit hafa alt af verið látnar ganga fyrir bæjarstúlkum á aðalnámsskeiðunum.

Sjermentun kvenna er teygjanlegt orð. Og mjer er spurn: Úr því að rætt er um húsmæðraskóla á kostnað ríkisins, hvaða námsgreinar eru nauðsynlegar húsmæðrum? Jeg álit það órannsakað mál. Hvorki á Blönduósi nje hjer er kent alt, sem þar til heyrir. Jeg álit, að taka beri tillit til þeirra óska foreldranna, að dætur þeirra fái bæði bóklega og verklega mentun, mentun bæði til munns og handa, eins og sagt hefir verið á gamalli og góðri íslensku. Það mun nú láta nærri, að hið bóklega nám, sem kvennaskólinn veitir, samsvari gagnfræðamentun alment. Auk þess fær hver stúlka, sem situr í öllum bekkjum, allmikla kvenlega sjermentun. Það er í öllu falli ekki enn svo mjög aðgreind vinnubrögð karla og kvenna á þessu landi, að heppilegt sje, að stúlkur fái svo einhliða mentun, að ekki gefist þeim jafnframt kostur á að afla sjer almennrar, bóklegrar þekkingar. Það er að vísu satt, að það er mikil rjettarbót, að stúlkur eiga nú aðgang að flestum skólum, en það nær aðeins til þeirra, sem vilja leggja stund á hið sama og karlar.

Að þessu athuguðu þykir mjer sem sannað sje, að kvennaskólinn veiti sjerfræðslu, bæði að því er hússtjórn snertir og ýmsar kvenlegar hannyrðir. Einnig skal jeg taka það fram, þó að það þyki kanske ekki viðfeldið, að stúlkur í kvennaskólanum hljóta að verða fyrir sjerstökum uppeldisáhrifum af því að umgangast konur. Karlmenn geta aldrei sett sig eins vel inn í sjereðli ungra stúlkna í daglegu skólastarfi. Að minni hyggju væri það enginn ávinningur, að gera báða þessa skóla að „sjerskólum“ eða „húsmæðraskólum“, eins og vakir fyrir hv. meirihl. nefndarinnar.

Samkv. skólaskýrslum 1923–24 var fjárframlag ríkissjóðs til Blönduósskólans 17 þús. kr., en til kvennaskólans hjer 27 þús. kr. Fastir nemendur á Blönduósi voru 34, og auk þess 5 lausir nemendur. Þessir aukanemendur nutu kenslu í fatasaum og hússtjórn, 1–8 vikur hver. Styrkur til hvers nemanda á Blönduósi verður 500 kr., en hjer um 200. Hver nemandi hjer verður því miklu ódýrari en á Blönduósi, þó að kensla sje hjer miklu dýrari en þar, þar sem kvennaskólinn í Reykjavík verður að borga tímakenslu eins og aðrir skólar hjer, sem jeg tel skylt og sjálfsagt. Stærð Blönduósskólans í samanburði við kvennaskólann í Reykjavík er þá eins og 1: 3,34. Blönduósskólinn er heldur ekki talinn húsmæðraskóli og hefir ekkert sjerskólasnið, enda segir forstöðukonan í skólaskýrslu 1923–24, „að engar reglur hafi verið samdar fyrir skólann, enda best að láta reynsluna skapa slíkar reglur.“ Matreiðslu og handavinnu eru þar að vísu ætlaðar 24 stundir móti 13 framan af vetri í hvorri deild, en 51: 23 síðari hluta skólaársins. Að Rvík njóti skólans hjer mest, er afsönnuð staðhæfing. Hverjir njóta Blönduósskólans? Af 34 nemendum 1923–24 voru 16 úr Húnavatnssýslu og auk þess lausu nemendurnir 5. Í hússtjórnardeildinni hjerna voru sl. ár 24 nemendur, þar af aðeins 4 úr Rvík. Af 39 nemendum í 3. og 4. bekk voru 24 nemendur utan Reykjavíkur.

Skólinn á Blönduósi hefir nýlega skift um fyrirkomulag og stefnir líklega í rjetta átt. En hvað sem hann heitir — kvennaskóli eða húsmæðraskóli — getur hann aldrei orðið annað en sýslu-eða hjeraðsskóli. En skólinn hjer hefir frá byrjun vega sinna verið landsskóli. Hann hefir um langt skeið verið merk mentastofnun, og reynt að sniða starf sitt eftir þeim kröfum, sem gerðar hafa verið. Jeg er ekki að þakka mjer, hvernig gengið hefir. Jeg hefi haft ágæta samkennara, sem mikið hafa lagt í sölurnar fyrir skólann. Skólinn hefir stækkað og þroskast og nemendatala farið vaxandi.

Jeg skal taka það fram um húsið, að það er þungur baggi, að þurfa að borga í árlega leigu hátt á níunda þúsund krónur, og mjer fyndist alls ekki ósanngjamt, að kvennaskólinn fengi hús yfir sig, eða væri trygt það með leigusamningi næsta mannsaldurinn.

Jeg vona, að hv. deild sjái sjer fært að samþykkja frv. þetta, og að skólinn verði gerður að ríkisskóla á þessu ári. Konur úti um alt land mundu fagna þeim úrslitum og taka þau sem vott þess, að rjettindi kvenna væru ekki einungis í orði, heldur og á borði.