26.03.1925
Efri deild: 39. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í C-deild Alþingistíðinda. (2263)

17. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Frsm. minnihl. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Jeg ætla ekki að eyða eins mörgum orðum, nje tala jafnhátíðlega og þessi hv. „siðameistari“, sem nú settist niður. —

Jeg ætla að byrja á fæðingarvottorðinu enn. Jeg hefi það fyrir satt, þrátt fyrir röksemdir hv. þm. A.-Húnv. (GÓ), að skóli Húnvetninga hafi fyrst verið áformaður 1877, en að hann hafi raunverulega verið settur á fót í Ytri-Ey árið 1883. Og er þá útrætt um þetta atriði af minni hálfu. Jeg legg ekki mikið upp úr kenslusamtökum milli Húnvetninga og Skagfirðinga innan hjeraðs. — Hv. þm. (GÓ) talaði um það, að Blönduósskólinn ætti sitt eigið hús. Því betra fyrir hann, og því betur sem hann stendur að vígi fjárhagslega, því meiri hvöt er það fyrir hv. þm. (GÓ) að ljá lið sitt rjettu máli. Ekki hefi jeg sett fót fyrir Blönduósskólann, hvorki 1911 nje síðan.

Þá var það umboðið frá sýslunefnd Vestur-Húnvetninga. Það, að umboð þetta er dagsett 27. febr. 1925, er nægileg rök fyrir því, að það hefir ekki verið undirbúið fyr en búið var að leggja þetta frv. fyrir þingið. Hv. þm. (GÓ) sagði, að jeg hefði tjáð mig fúsa til þess að styðja Blönduósskólann til að verða ríkisskóla, er hann væri orðinn 50 ára. Við það stend jeg, ef Blönduósskólinn að öðru leyti uppfyllir þau skilyrði, sem gera hann maklegan þess. Jeg er ekki vön að lýsa yfir fylgi mínu við eitthvert mál og hlaupast svo frá því. Annars var flest í ræðu hv. þm. (GÓ) meira persónulegar árásir á mig en rök, og ekki eyða dýrmætum tíma þingsins til þess að eltast við slíkt.

Þau rök hafa verið færð á móti þessu frv., að kvennaskólinn væri svo góður og hann yrði ekki betri, þó hann yrði gerður að ríkisskóla, og því eigi ekki við að breyta honum. Þetta var röksemd meirihl. mentmn., og reynir hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) að nota hana þannig, að þetta sje álit mitt á kvennaskólanum í Reykjavík. Eru því þessi ummæli hv. þm. skáldskapur einn.

Jeg hafði ekki mikið að athuga við ræðu hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) í gær, eða a. m. k. druknaði það nú í þessum síðasta lestri hans. Hann var með samanburð á nemendafjölda þessara skóla. Hjer liggja fyrir skýrslur um þetta atriði frá fyrstu tíð kvennaskólans í Rvík. Hann sagði, að í fyrra hefðu hjer verið 50 nemendur úr Rvík og 39 annarsstaðar frá. En hann gleymir hússtjórnardeildinni; þar voru 20 stúlkur utan af landi. Það sannast ekki á hv. þm. A.-Húnv., að alt sje best, sem fjarst er; Blönduósskólinn er hans „ideal“. Því miður get jeg ekki sagt það sama um kvennaskólann hjer. Jeg vil, að hann taki framförum. En þessi hv. þm. (GÓ) skilur ekki, að ef honum er breytt eins og brtt. hv. 5. landsk. (JJ) fer fram á, að gera hann að húsmæðraskóla, þá verður tala nemenda mjög svo takmörkuð, en þörfin fyrir skólann í þeirri mynd, sem hann nú er í, þess meiri, því jeg býst ekki við því, að það þyki fært til lengdar, að bægja ungum stúlkum frá því að leita sjer framhaldsfræðslu, er þær hafa lokið við barnaskólanám. Jeg trúi því ekki, að hv. þm. sjái sjer slíkt fært.

Hvort þessi skóli eigi meiri tilverurjett sem sjerskóli eða samskóli? Mjer virðist, að það skifti minstu, hvað hann heitir, ef hann starfar í rjetta átt og eftir þörfum þeirra, er hann sækja. Og það mundi brátt sýna sig, ef skólanum yrði breytt í húsmæðraskóla, að þá mundi af því leiða meiri kostnað heldur en þó þetta frv. yrði samþykt og skólinn gerður að ríkisskóla í þeirri mynd, sem hann er nú. Hús það, sem skólinn er í, er hæfilegt fyrir skólann með núverandi fyrirkomulagi, en ef hann yrði gerður að húsmæðraskóla, þá skal jeg benda á það, að engir húsmæðraskólar á Norðurlöndum hafa fleiri nemendur en um 30. Jeg hefi skýrslur frá stærstu húsmæðraskólum í Svíþjóð og Noregi, sem sanna þetta. Jeg hirði ekki um að lesa þær upp, en jeg er fús á að lána þær hv. þdm., ef þeir óska.

Hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) kvaðst hafa sett laun kenslukvenna lægri í brtt. sinni en gert væri ráð fyrir við kvennaskólann í Reykjavík, og er það rjett og eðlilegt, því að það er auðvitað miklu ódýrara að lifa á Blönduósi en hjer í Reykjavík. En jeg vil endurtaka það, sem hæstv. forsrh. drap á í gær, og hefi jeg fyrir því góða heimild, að brtt. hv. þm. (GÓ) er alls ekki heppilega fram komin, og í rauninni aðeins til þess flutt, að setja fót fyrir kvennaskólann í Reykjavík.

En úr því að jeg er staðin upp, vil jeg fara dálítið út í rökfærslur hv. 1. landsk. (SE). Hann sagði, að „kvenþjóðin hefði faðminn fullan af rjettindum“. Þetta er auðvitað skáldlega sagt. En einmitt vegna rjettindanna er það sjálfsagt, að konur ráði nokkru um það, hvaða skólar þeim henta best. Enda er það í öllum löndum, sem jeg þekki til, álit skólamanna, að sjerskólar fyrir kvenfólk, eins og t. d. kvennaskólinn í Rvík, sjeu heppilegri heldur en samskólar, a. m. k. fyrir þær stúlkur, sem ekki vilja stunda sjerfræði. Samskólahugmyndin fjekk um skeið mikinn byr, en nú eru menn að hverfa frá þeirri skoðun, og álíta, að heppilegra sje, að þær stúlkur, sem ekki leggja stund á sjernám, sæki kvennaskóla, þar sem kent sje ýmislegt bæði til munns og handa, auk húsmæðrafræðslu. Þessu hefi jeg haldið fram, og það stendur enn óhrakið og verður ekki hrakið, nema fram komi ný gögn í málinu.

Hv. 1. landsk. (SE) sagði ennfremur, að konur þyrftu að fylgjast með í mentamálum landsins. Þetta tel jeg líka nauðsynlegt, og álit, að að því stuðli best almenn mentun. Annars kafna konur undir þeim rjettindum, sem þær hafa fengið. En það er eðlilegt, að stúlkur kjósi heldur að fá mentun sína í sjerskólum, því að hver mundi t. d. vilja senda son sinn í kvennaskóla, þó að þar væri hið sama kent, ef hann ætti kost á að senda hann í gagnfræðaskóla, sem einkum eru ætlaðir piltum, þó að stúlkur sæki þá líka. Jeg álít, að það sjeu ekki einvörðungu námsgreinarnar, sem kendar eru við skólana, sem um sje að gera og stúlkum er nauðsynlegt að læra, heldur líka hitt, að skólinn eigi að hafa áhrif á uppeldi þeirra, meðan því er enn ekki lokið.

Hv. 1. landsk. (SE) talaði um sparnað, og það, að frv. fylgdu aukin útgjöld fyrir ríkissjóð, og ætti því að fella frv., ef þingið vildi vera sjálfu sjer samkvæmt. Jeg held, að það sje ekki kostnaðurinn, sem hv. þm. finnur að frv., en hann notar þessa kostnaðargrýlu til þess að spilla því, að frv. nái fram að ganga. Hæstv. forsrh. sýndi í ræðu sinni með ljósum rökum fram á það, að kostnaðurinn af frv. er tiltölulega lítill. Og hv. 1. landsk. (SE), sem fjallar daglega um stórar fjárhæðir, og hefir bæði verið forsætisráðherra og fjármálaráðherra, veit þetta vel, að aukningin á tillagi ríkissjóðs til kvennaskólans, sem af frv. leiddi, er ekki handfylli í þeim peningaaustri, sem hefir verið, er og mun eiga sjer stað.

Þá mótmælti háttv. 1. landsk. frv. á þeim grundvelli, að skólinn hefði reynst svo vel, og þessvegna væri ekki ástæða til þess að breyta honum. Þetta er mjer alveg óskiljanleg röksemdaleiðsla. Jeg held, að það væri síst betri meðmæli með skólanum, að hann væri ljelegur, nema umbótatilhneigingin sje svo rík hjá hv. þm. (SE), að hann vildi endilega styrkja hann undir þeim kringumstæðum. Hjer er hægt að spara, sagði hv. 1. landsk. Hjer á að spara! Þetta væri hreint kostnaðaratriði. Þetta segir hv. þm. (SE) auðvitað til þess að villa menn, því að þetta er mentamálaatriði, sem hann kallar eingöngu kostnaðaratriði.

Næsta ástæða hv. 1. landsk. var sú, að ef ríkið tæki að sjer þennan skóla, þá mundu koma fleiri slíkar kröfur, og brýndi hv. þm. fyrir mönnum að fara gætilega í framtíðinni. Það er auðvitað rjett og sjálfsagt að fara gætilega. Afleiðingin af samþykt frv. yrði sú, að þar með væri stofnaður nýr gagnfræðaskóli, sem mundi stækka, eins og reyndin hefir orðið á um aðra gagnfræðaskóla. Og yfir þennan skóla yrði svo að byggja o. s. frv. Jú! eins og hv. þdm. sjá, þá veltur ekki lítið á því, hvort kvennaskólinn verður gerður að ríkisskóla eða ekki! Þá eiga öll þessi ósköp að fara af stað. — Við höfum talað um þetta í mentamálanefnd, og jeg hefi lýst því yfir, að meðan jeg ræð yfir skólanum, þá er ekki hætt við, að hann stækki mikið, því að mjer nægir alveg sú stærð, sem hann hefir nú. Hjer er því óþarfi að tala um útþenslu skólans. Hús það, sem skólinn hefir nú, er bygt 1909. Það er að vísu svo stórt, að hægt mundi að bæta við tveim bekkjum án kostnaðar, nema hvað þá yrði að auka kenslukrafta. En eins og jeg hefi sagt, þá nægir alveg stærð skólans. Þess var getið hjer í gær, að húsaleiga sú, sem skólinn yrði að borga nú, væri allhá. En aðalástæðan til þess, að framtíð hans er ekki vel borgið, er þó sú, að hann er aðeins styrkskóli, og ekki víst, hvernig honum gengur framvegis að fá það fje, sem hann þarf til þess að geta starfað. Húsaleigan er nú 8600 kr. auk ýmsra gjalda og skatta, svo að alls nemur sá liður um 9 þús. kr. Þetta er mikill útgjaldaliður. En jeg hygg, að ríkið gæti betur trygt skólanum húsnæðið heldur en forstöðunefnd skólans, sem ekki getur tekið á sig margra ára ábyrgð á húsaleigunni. En aftur gæti stjórnin gert samning til fleiri ára, ef til þess kæmi, að ríkið tæki skólann að sjer. Þessi aths. hv. 1. landsk. (SE) um kostnaðinn er því tóm grýla, gerð til þess að slá ryki í augu þingsins. Hv. þm. hefir ekki fyllilega gert sjer grein fyrir afleiðingunum af samþykt frv. því að taki ríkið skólann að sjer, þá ræður þing og stjórn vitanlega, hve miklu kostað er til hans árlega. Þessi hætta, að ósparlegar verði farið með fje til skólans, ef hann verður gerður að ríkisskóla, er því alveg gripin úr lausu lofti.

Jeg þarf litlu að svara hv. 2. landsk. (SJ). Hann var sannfærður um það, að samskólar væru besta lausnin á spursmálinu um mentun kvenna, en það er auðvitað af því, að hann hefir ekki fylgst nægilega vel með skoðunum sjerfræðinga í þessu efni hin síðari árin. En hinsvegar veit jeg, að þó að hv. þm. (SJ) hafi ekki fylgst vel með í þessu, þá hefir hann jafnan gert mikið til þess að styðja mentun heima í sínu hjeraði. En það get jeg sagt hv. þm. (SJ), að aldrei hefi jeg reynt til þess að sporna á móti því, að Norðlendingar fengi sinn húsmæðraskóla, eins og virtist, að hv. þm. beindi til mín.

Jeg hefi aldrei haldið því fram, að kvennaskólinn í Reykjavík væri húsmæðraskóli, heldur sýnt fram á það með tölum, hve margar stúlkur hafa sótt hússtjórnardeild skólans, þar sem þau störf eru kend, sem koma fyrir á hverju heimili, svo sem matreiðsla, húsverk allskonar, hreinlætisstörf, þvottur og þvíumlíkt. Með nokkrum rjetti mætti þannig segja, að kvennaskólinn væri húsmæðraskóli, en þó hefi jeg aldrei haldið því fram. Og bið jeg hv. þdm. að taka eftir því, að það verður langt þangað til, að nokkur húsmæðraskóli verði hjer svo stór, að hann geti tekið á móti fleiri en 24 nemendum í senn. Að vísu vona jeg, að hússtjórnarkensla aukist hjer á landi og þess verði ekki langt að bíða, að einn hússtjórnarskóli komi í hvern landsfjórðung. Jeg skal taka það fram, að námsskeið í hússtjórnardeild kvennaskólans eru tvö á ári, hið fyrra 5 mánuði og hið síðara 4 mánuði, eða frá 1. okt. til 1. febr., og frá 1. febr. til 1. júlí. En á þessum námsskeiðum taka stúlkur ekki þátt í öðru námi en því, sem bundið er við þá deild. Að vísu er þar lítilsháttar bóknám, en það er aðallega um næringargildi matartegunda, en ef námsmeyjar í hússtjórnardeildinni ættu jafnframt að taka þátt í kenslu í bekkjunum, þá yrði það ekki annað en kák.

Hæstv. forsrh. benti rjettilega á það, að síðan 1923 hefði skólinn á Blönduósi færst æ nær því takmarki, að verða húsmæðraskóli, en að Reykjavíkurskólinn væri enn almennur kvennaskóli með sjerstakri hússtjórnardeild. Einnig benti hæstv. forsrh. á það, að Reykjavíkurskólinn væri meir notaður af öllu landinu og mætti því með rjettu nefnast landsskóli.

Þá benti hæstv. forsrh. á það, að kvennaskólinn í Reykjavík hefði mörg undanfarin ár fengið því nær alt rekstrarfje sitt úr ríkissjóði. Þetta er alveg rjett; aðrar tekjur hefir skólinn ekki, svo teljandi sje.

Að vísu hefir kvennaskólinn mörg undanfarin ár orðið að taka allhátt skólagjald af nemendum sínum. Síðastl. ár námu þessi gjöld rúmlega 10 þúsund krónum, en það er ekki nema rúmlega 14 hluti af árlegum rekstrarkostnaði skólans. Og hver er þá munurinn? Aðallega sá, að skólinn þyrfti ekki að lifa á árlegum bónbjörgum.

Einhver hv. þm. sagði, að skólagjöldin mundu verða minni í framtíðinni. En það skil jeg ekki. (JJ: Það var átt við skólagjöld utanbæjarnemenda.) Kvennaskólinn hefir aldrei tekið hærra en 100 kr. skólagjald, en ríkisskólarnir 130 kr., svo þar vinst aftur nokkuð. Hæstv. forsrh. benti rjettilega á, að fje það, er skólanum hefði verið veitt á fjárlögum, mundi ekki hafa hrokkið til á hinum erfiðu stríðsárum, ef stjórnin hefði þá ekki hlaupið undir bagga; skólinn hefði að öðrum kosti ekki getað haldið uppi starfsemi sinni.

Að síðustu vil jeg þakka hæstv. stjórn, og þá sjerstaklega hæstv. forsrh., fyrir það, að leggja frv. þetta fyrir þingið og fyrir þá viðurkenningu á skólanum, sem felst í því, að það er lagt fram sem stjfrv.