26.03.1925
Efri deild: 39. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í C-deild Alþingistíðinda. (2264)

17. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Frsm. meirihl. (Jónas Jónsson):

Það mun nú vera að bera í bakkafullan lækinn að orðlengja um þetta, þar sem hæstv. stjórn mun hafa meirihluta hjer í deildinni til þess að gera hvað sem hún vill, um alla bitlinga handa fylgifiskum sínum. En vegna þess, að rök þau, er hv. frsm. minnihl. og hæstv. forsrh. hafa fært fram, eru ekki veigamikil, vil jeg þó segja nokkur orð.

Því hefir verið haldið fram, að milliþinganefndin í mentamálum hafi viljað gera kvennaskólann hjer að ríkisskóla. Mjer er nú ekki annað kunnugt en að hún hafi verið sú áhrifaminsta milliþinganefnd, sem skipuð hefir verið, því að ekkert hefir verið tekið til greina af afrekum hennar, og það er kunnugt, að hún hefir lagt það til skólamálanna, sem ófullkomnast hefir fram komið í þeim málum. Og það er því ekki hægt að fleyta þessu máli fram hjer í þinginu með slíkum meðmælum, því að þingið hefir ekki viljað líta við neinu, sem sú nefnd hefir gert.

Hv. frsm. minnihl. (IHB) játaði það, að kostnaðurinn við skólann mundi verða meiri en áður, ef ríkið tæki hann að sjer. Það er gott að fá þessa játningu, því að það er dálítið hart, að heimta breytingu, sem ekki er til batnaðar að neinu leyti, en hefir aðeins aukin útgjöld í för með sjer. Jeg væri að vísu til með það, að greiða atkv. með málinu, þótt það hefði aukinn kostnað í för með sjer, ef skólinn batnaði. En það hefir ekkert komið fram um það.

Af ummælunum um þetta mál er það ekki ljóst, hvort kvennaskólinn í Reykjavík er heldur húsmæðraskóli eða gagnfræðaskóli. Jeg held því fram, að hann sje gagnfræðaskóli. Mjer er kunnugt um það, af skólaskýrslunum, að þar eru aðallega kend tungumál, svo sem danska, enska og þýska. (IHB: Ekki þýska!) Það getur verið, að hún sje ekki kend þar nú, en svo var þó áður. Jeg lasta ekki þetta. En þetta er alt saman gagnfræðanám, og kensla í reikningi, náttúrufræði, landafræði og sögu er hjer um bil eins og gerist í gagnfræðaskólum. Þá er kanske eftir ofurlitil kensla í saumaskap, prjóni og baldíringu, eða mjer skildist svo á háttv. 6. landsk. Þetta er svo lítil breyting frá gagnfræðaskólaforminu, að ekki nægir til þess að láta skólann hafa sjerstöðu. það er ekkert því til fyrirstöðu, viða í skólum, að sjerstök viðfangsefni sje fyrir karla og konur. Meira að segja, í kennaraskólanum hefir þetta verið gert, án þess að hann hafi orðið sjerskóli fyrir pilta eða stúlkur fyrir það.

Það hefir alls ekki verið hrakið með rökum, sem jeg hefi sagt, hvorki af hæstv. forsrh. nje af hv. 6. landsk., að báðir þessir kvennaskólar, er hjer um ræðir, voru stofnaðir á þeim tímum, er konur voru útilokaðar frá öðrum skólum, sumpart með lögum, sumpart með venju. En það er ekki rjett, að kvennaskólinn í Reykjavík, sem frú Thora Melsteð stofnaði, sje hinn elsti kvennaskóli hjer. Áður, eða í kringum árið 1870, hafði önnur kona, frú Sigríður Magnússon, kona Eiríks meistara í Cambridge, reynt að koma hjer upp kvennaskóla, í Vinaminni, með samskonar fyrirkomulagi og var á slíkum skólum í Englandi. En vegna þess, að hún var ekki búsett hjer, gat hún ekki haldið skólanum áfram, og varð því fyrirtækið að hætta. En það, sem gat verið laukrjett þá, á ekki lengur við nú, og gæti nú verið fásinna, fyrst ekki á að breyta fyrirkomulaginu. — Taki nú ríkið þennan skóla upp á arma sína sem gagnfræðaskóla, ætti ekkert að verða því til fyrirstöðu, að karlmenn fengi að ganga á hann líka. Og meðan stúlkur læra saumaskap og baldíringu, mætti kenna piltum að smiða, t. d. amboð og skeifur. Það ætti alt að geta farið vel fram, frá skólans sjónarmiði, en þá þyrfti hann bara að breyta nafni.

Því hefir verið haldið fram, að skólinn, sem er nú ódýr í rekstri, yrði ekki dýrari, þótt ríkið tæki við honum. Halda menn þá, að veslunarskólinn, sem hefir 70–80 nemendur, mundi ekki kosta landið meira en 3000 kr., ef ríkið hefði hann á sínum vegum? Nei, hann mundi kosta um 40 þús. kr. Jeg efast ekki um það, að núverandi forstöðukona kvennaskólans mundi kappkosta að stilla í hóf með eyðslu. En reynslan er sú, að ríkisskólar verða dýrir.

Þá vil jeg svara hæstv. forsrh. (JM) því, að hann fór ekki rjett með, þar sem hann taldi aðeins þrjá kennara við skólann samkv. frv., því að ef hann telur forstöðukonuna með, þá verða þeir fjórir. Þessir kennarar kosta meira eftir breytinguna en áður, þó ekki væri vegna annars en dýrtíðaruppbótar. Og á þessum eina lið yrði mikil breyting í þá átt að gera skólann dýrari en áður. Og þegar svo hlýtur hjer við að bætast, að landið taki að sjer kvennaskólann á Blönduósi, og annan skóla, sem nú er 50 ára gamall, þá verður kostnaðaraukinn auðsær.

Jeg get ekki fullyrt, að húsnæði það, er kvennaskólinn hefir nú, mundi verða miklu dýrara en áður, en líklegt, að eigandi muni fara fram á lengri leigutíma en verið hefir, hvað sem öðru líður. Hver er sjálfum sjer næstur. Jeg er þó ekki með neinar aðdróttanir að eiganda skólahússins, þótt jeg segi, að mjer kæmi það ekki á óvart, þótt hann hækkaði leiguna og setti þannig ríkissjóði stólinn fyrir dyrnar um það, og þá er ekki nema þrent til: að reisa nýtt skólahús, leigja af öðrum, eða leggja skólann niður, ef ríkissjóður vill ekki sætta sig við afarkosti, sem altaf er hægt að setja, þegar sjálfdæmi er gefið. Og það er einmitt húsnæðið, sem gerir málið erfiðast, því að ekki er auðvelt nú að reisa skóla yfir 100 nemendur.

Þá vil jeg minnast á lög um húsmæðraskóla í Norðurlandi. Það hafa nú verið pappírslög í mörg ár, og satt að segja mun þar um valda peningaleysi landsjóðs. Nú er farið fram á það, að setja kvennaskólann í Reykjavík í þá aðstöðu, að hægt sje, bæði fyrir húseiganda og starfsfólk, að gera miklu hærri kröfur heldur en áður. Hvað er svo unnið við það? Engin breyting verður til batnaðar. En á meðan er Norðurland skólalaust, þrátt fyrir gömul lög og sjóð. Hversvegna á nú að leggja meira í kostnað við Reykjavíkurskólann, en láta ekki hinn fá hjálp? Svo er Staðarfellsskólinn. Þar er jörð og hús og sjóður til skólastofnunar, en ýmsir hv. þm. hafa ekki viljað færa sjer og landinu það í nyt, og öll sú vanræksla gerð í sparnaðarskyni. En vonandi er þó, að þeir bæti sig. Mjer skilst á sumum, þar á meðal á hv. 6. landsk. (IHB), að þeir sje hikandi við að gera Staðarfell að ríkisskóla. Þeir vilja vanrækja Norðurlandsskólann og Staðarfell, en stofna hjer ríkisskóla að ástæðulausu. Það eru engar líkur til þess, að kvennaskólinn batni við það. Hann er nú óaðfinnanlegur gagnfræðaskóli, með hússtjórnardeild. Tel jeg ekki, að hann batni, þó að hann þurfi dýrara hús og dýrari kenslu. Og jeg verð að segja það, að mjer finst það hart af hæstv. stjórn, og nálgast hlutdrægni, að fara nú fram á þessa einu breytingu. En það er bót í máli, að allir sjá, að þótt frv. gangi í gegnum þessa hv. deild, þá er mjög ólíklegt, að það komist í gegnum Nd.

Þá er Flensborgarskólinn. Hann er nú um 50 ára, og stór skóli og hefir gert mikið gagn. Hann hefir átt í mesta basli og átt erfiða aðstöðu gagnvart þingi og stjórn. Hann hefir og haft minni ríkisstyrk heldur en kvennaskólinn. En erfitt verður að standa á móti því, að hann verði gerður að ríkisskóla, ef þessir skólar verða gerðir það. Hann hefir aldurinn, sem kvennaskólanum er talinn til gildis, og mikilhæfur maður, Þórarinn Böðvarsson, stofnaði hann.

Þá sagði hæstv. forsrh. (JM), að það væri ekki rjett reiknað hjá mjer, þar sem jeg talaði um Blönduósskólann. Þar er nú sá gallinn á, að sá skóli hefir verið að afborga sitt eigið hús. Það dugir ekki að bera hann saman við Hólaskóla, því að honum voru gefin hús öll, og landsjóður kostar viðhald þeirra. Blönduósskólinn varð að koma sjer upp húsi, og taka til þess lán. Hitt gleymdist hæstv. forsrh., að bera saman, hvað kvennaskólinn er ódýr á móts við mentaskólann. Í mentaskólanum er kostnaðurinn fimmfaldur á móts við kvennaskólann, miðað við nemendafjölda. Við annan skólann eru fastir kennarar, en við hinn tímakennarar.

Mið furðar á því, að hæstv. forsrh. (JM) skuli vilja auka kostnaðinn við skólana, þegar hann hefir reynsluna fyrir sjer um það, af hve litlum ríkisstyrk þeir geta lifað, t. d. verslunarskólarnir. Jeg tel engan vafa á því, að ef ríkið tæki að sjer verslunarskólana, mundi hver slíkur skóli kosta um 30–40 þús. kr. árlega. Það er því stór sparnaður fyrir ríkissjóð, að láta aðra halda þeim uppi. Bæði Verslunarskóli Íslands og samvinnuskólinn notast við tímakenslu, og reynslan hefir sannað, að þetta fyrirkomulag er langódýrast og að mörgu leyti gott. Mjer þykir það því leitt, að hæstv. forsrh. hefir eigi orðið við þeirri bendingu minni, að vilja reyna að breyta einhverjum ríkisskólunum í einkafyrirtæki; því það yrði stór sparnaður fyrir ríkissjóð.

Hæstv. forsrh. (JM) fór rangt með orð mín viðvíkjandi kvennaskólunum. Jeg sagði, að það væri ekki þörf á að hafa fleiri en einn fastan kennara við slíkan skóla, og útskýrði, hversvegna jeg hefði þessa skoðun. Jeg tók það fram, að það mætti t. d. hækka styrkinn til kvennaskólans á Blönduósi, til þess að forstöðukonan þar fengi sambærileg laun og aðrir kennarar í hennar stöðu, en það er alt annað en að gera skólana að ríkisskólum. Bæði hæstv. forsrh. og hv. 6. landsk. (IHB) halda fast fram, að allir kvennaskólar hljóti að vera sjerskólar. En þetta er fjarstæða. Sjerskóli er, þar sem einhver sjerstök fræði er kend, en ekki stefnt að almennri mentun.

Nú sem stendur eru barnaskólar alstaðar erlendis samskólar. Það getur að vísu komið fyrir á stöku stað, að drengir veljist frekar í eina deildina, en stúlkur í hina, í einstaka bekkjum, stöku árganga; en samskólar eru þeir fyrir því. — Viðvíkjandi æðstu mentastofnununum, — háskólunum, — þá veit jeg hvergi dæmi til, að nokkur eiginlegur háskóli sje fyrir konur einar. Háskólar eru samskólar, þó að þeir sjeu sjerskólar. Þannig er það á Englandi, t. d. Oxford og Cambridge, jafnt fyrir konur sem karla. Þar eru auðvitað sjerstakar heimavistir fyrir konur og aðrar fyrir karla, Og konur hafa jafnan rjett til að hlýða á alla fyrirlestra, og sömuleiðis jafnrjetti til að taka próf. Þetta eru því undirstöðuatriði í mentamálum, sem nú eru viðurkend um allan hinn siðaða heim. Jeg vil því spyrja, ef það er áhættulaust að láta drengi og stúlkur ganga saman til náms í barnaskóla og á háskóla, hvernig stendur þá á því, að gagnfræðaskólarnir mega ekki vera samskólar? Jeg dreg þetta atriði fram hjer, vegna þess, að jeg óska, að fram verði færð einhver sönnunargögn í þessu máli, gegn samskólunum.

Hæstv. mentamálaráðherra (JM) talaði með fjálgleik um samskólana, eins og hann þættist þekkja vel inn í það mál. Mjer finst það annars ganga hneyksli næst, hversu illa er sjeð fyrir kenslu- og mentamálum í stjórnardeild hæstv. mentamálaráðherra (JM). Þar hefir ávalt verið krökt af lögfræðingum, og eru þeir að vísu sennilega nothæfir til þeirra hluta, sem þeir eru aldir upp til að fást við, en í stjórnardeild þessa ráðuneytis hefir aldrei frá upphafi verið einn einasti maður, sem minsta vit hefir haft á kenslumálum. Enda fanst mjer framkoma hæstv. mentamálaráðherra (JM) í hjeraðsskólamáli Þingeyinga hvorki bera vott um þekkingu nje áhuga á þeim málum. Jeg gladdist þó á vissan hátt yfir framkomu hæstv. ráðh. í því máli — á sama hátt og góðir kennarar gleðjast yfir því, er þeir veiða varir byrjandi áhuga á bóklestri hjá lítt bókhneigðum lærisveinum, sem eru farnir að byrja að hnýsast í „reyfara“. Er það jafnan talið skárra, að eitthvað sje lesið, jafnvel þó ilt sje, en ekki neitt. Því þótti mjer betri vottur um hæstv. mentamálaráðh. (JM), að hann fengi þó heldur áhuga á vitlausri stefnu í fræðslumálum, heldur en alls engri.

Það er sagt, að erfitt sje að lifa á tímakenslu einni, og er það satt, að því er snertir kennarana flesta, einkum þá, sem eru fjölskyldumenn, en þetta horfir alt öðruvísi við frá sjónarmiði skólanna. Þeir spara mikið fje á því, að halda sem flesta tímakennara, einkum hjer í Reykjavík, þar sem hægt er að velja úr miklum og góðum kenslukröftum, sem ávalt má fá fyrir tímaborgun. Jeg hefi t. d. haft um stund við samvinnuskólann einn guðfræðinema, sem er svo góður kennari, að leit mun þurfa að gera að manni til að jafnast á við hann á því sviði. Jeg skal gjarnan nafngreina hann fyrir þessari háttv. deild, því að jeg tel þennan mann fullkomlega hlutgengan kennara við hvaða skóla sem væri. Hann heitir Lúðvík Guðmundsson. Slíka menn er hægt að fá til að starfa við skólana, a. m. k. um stundarsakir, þó að kenslan sje ekki hluti af framtíðarfyrirætlunum þeirra.

Hæstv. mentamálaráðh. (JM) og hv. 6. landsk. (IHB) töldu sjerskóla vera nauðsynlega fyrir konur. Jeg skal játa, að þetta er rjett, að því er húsmæðraskólana snertir. En að öðru leyti byggist þetta sjerskólahjal þeirra á þessari nýtísku „pædagogik“, sem verið er að halda hjer fram, að kynin eigi að vera aðskilin í skólunum. Sje þessi kenning rjett, verður að krefjast þess, að mentaskólanum verði framvegis lokað fyrir konum. Ef kvennaskólinn á að verða gagnfræðaskóli fyrir konur, og að þær megi ekki ganga með körlum í neina skóla, verður það hugsunarrjett afleiðing af þessu, að konur verða að skilja algerlega að „borði og sæng“ við karla í skólamálum. Háttv. 6. landsk. (IHB) hefir og sjeð þetta, því að jeg hygg, að hún vilji hafa kynin aðskilin frá barnaskólum og upp í gegnum háskólana; en jeg hygg, að hæstv. mentamálaráðh. (JM) hafi eigi sjeð, að þetta verður afleiðingin, ef þessari kenningu hans verður fylgt út í æsar. Hitt tel jeg rjett, að verkleg undirbúningsmentun verði aðskilin í skólunum, að karlmenn læri að smiða úr járni og trje, er konur stunda matargerð, sauma og önnur kvenleg störf, sem þeim mega sjerstaklega að gagni koma, hver sem staða þeirra verður að öðru leyti í þjóðfjelaginu. Hitt skil jeg eigi, hversu hv. 6. landsk. (IHB) gerir lítið úr nauðsyn þess, að fá húsmæðraskóla á stofn, en vill halda til streitu sjerstökum gagnfræðaskólum kvenna. Jeg skal að vísu játa, að það sje mjög gott, að konur læri á unga aldri reikning, tungumál o. fl. hluti, sem karlmenn leggja stund á, en jeg viðurkenni enga knýjandi nauðsyn til þess, að konur meti þessar listir meira en t. d. heilsufræði, matargerð, garðrækt o. s. frv. Jeg hygg, að þau heimili sjeu eigi mörg á landinu, nema ef undanskilin eru stærstu efnaheimili — sem þó eru eigi mörg — er húsfreyja getur sint öðru en venjulegum heimilisstörfum. Jeg hygg, að víðast hvar sjeu húsmæður önnum kafnar mestan hluta dagsins 9 við matargerð, þvotta, sauma og annað þessháttar, sem heimilinu viðkemur, en hafi litinn tíma afgangs til annara starfa. Jeg skil ekki, hversvegna háttv. 6. landsk. (IHB) vill bægja konum frá sjernámi því, sem þeim má að mestu gagni verða í lífsbaráttunni.

Það er og næsta undarlegt, að eftir að konur hafa fengið jafnrjetti við karla í þjóðfjelaginu, skuli þó haldast við ennþá 2 gagnfræðaskólar fyrir konur, en enginn húsmæðraskóli vera til. Jeg sje því eigi annað en að ennþá standi alt óhrakið, sem jeg sagði í minni fyrstu ræðu, um það, að engin nauðsyn ræki til þess, að ríkið tæki að sjer kvennaskólana. Hið eina, sem gæti komið til mála, væri að tryggja þeim einn eða tvo fasta kennara, en láta þá svo starfa áfram eins og að undanförnu. Þetta er aðeins fjárhagsatriði, sem auðvelt er að koma fyrir, en núverandi ástand þessara skóla getur vel haldist, þangað til konur sjá að sjer og viðurkenna, að þær þarfnist sjerskóla.