26.03.1925
Efri deild: 39. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í C-deild Alþingistíðinda. (2265)

17. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Forsætisráðherra (JM):

Það var ekki margt, sem hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) vjek að mjer í sinni ræðu, og þarf jeg því heldur eigi að svara honum miklu. Jeg lagðist á móti brtt. hans vegna þess, að jeg áleit og álít, að það sje gersamlega rangt, að fara að blanda Blönduósskólanum inn í þetta mál. Það atriði, hvort ríkið eigi og að taka að sjer Blönduósskólann, á að athugast sjer í lagi. Brtt. hv. þm. (GÓ) gera ekkert annað en spilla fyrir þessu frv., án þess að gagna Blönduósskólanum nokkuð. Þvert á móti. Um það, hvaða afstöðu jeg tæki til Blönduósskólans eða þess, að gera hann að ríkisskóla, sagði jeg ekkert um. Hitt sagði jeg, að þó að Blönduósskólinn yrði gerður að ríkisskóla, væri jeg ekkert hræddur við, að hann yrði ríkissjóði mikið dýrari en hann nú er. Jeg þykist aldrei hafa sýnt Blönduósskólanum annað en velvild. Nú hefi jeg heyrt, að hann þurfi fje til húsabóta, og mun jeg styðja að því, að fjeð verði veitt.

Hv. 1. landsk. (SE) var að minnast á frv. um breyting á skipulagi mentaskólans; frv. er nú í hv. Nd. Það er enn fjær, að vera að blanda umræðum um það frv. inn í þetta mál. Þar er verið að tala um skipulag skóla, er á að vera sjerstaklega undirbúningsskóli undir háskólanám. Um gagnfræðamentunina, er hv. þm. talaði um í því sambandi, skal jeg segja það, að jeg tel það alls eigi sjálfgefið, að ríkið eigi að kosta hana að öllu leyti, nema ef vera kynni að ríkið hjeldi uppi Akureyrarskólanum. Annars fer jeg ekki frekar út í þetta mál nú. Komi það fyrir þessa hv. deild bráðlega, verður nógur tími til að ræða það þá.

Þá fanst mjer, að hv. 5. landsk. (JJ) fara nokkuð óvirðulegum orðum um milliþinganefnd þá, sem skipuð var til að gera till. um mentamálin 1922, og um verk þeirrar nefndar. Jeg ætla ekki að taka þetta til umr. nú, en jeg vil aðeins taka það fram, að jeg hefi alt annað álit á þeim mönnum, sem nefndina skipuðu, og störfum þeirra, en háttv. 5., landsk. (JJ: þeir voru fullgóðir menn út af fyrir sig.) Jeg ætla alls eigi að fara að deila um þetta við hv. 5. landsk. Hann álítur mennina eigi mikils virði, og verk þeirra vesælleg, og má hann gjarna halda þeirri skoðun fyrir mjer, ef hann endilega vill.

Háttv. 5. landsk. hjelt því fram, að kvennaskólinn í Rvík væri ekki sjerskóli, en væri í raun og veru aðeins gagnfræðaskóli. Þetta er hrein hugsunarvilla hjá hv. þm. Það má vel segja það, að kvennaskólinn í Reykjavík sje eða eigi að vera gagnfræðaskóli fyrir konur einar. Því er hann sjerskóli. Þessvegna þarf að kenna þar ýmislegt, sem ekki er kent á gagnfræðaskólum fyrir karlmenn. Á hinn bóginn verður að taka að mörgu leyti í kvennaskóla tillit til venjulegs lífsstarfs kvenna, og undirbúa þær undir það.

Þegar háttv. 5. landsk. ber saman kostnað þeirra skóla, sem eru kostaðir af ríkinu, og þá skóla, sem eru einkafyrirtæki, verður sá samanburður hans alls eigi rjettur. Það er ekki rjett að bera þá saman við alþýðuskólana, sem eru kostaðir að talsverðum hluta af hjeraða eða sveitarfje. Auðvitað yrðu einkaskólarnir, er fje er lagt til að mun annarsstaðar frá, að miklum mun dýrari ríkinu en þeir nú eru, ef ríkið þyrfti að taka þá að sjer að öllu leyti. Samanburður hv. þm. er því svo fráleitur, að furðu gegnir. Svo var hv. 5. landsk. að tala um það, að það væri ekki rjett, að kosta 3 fastakennara, og að jeg hefði farið rangt með orð hans. Jeg talaði lítið um þetta atriði, en orðin, sem hann segir jeg hafi farið rangt með, skrifaði jeg eftir hv. þm. sjálfum, að það eitt væri gott í frv., að það bætti laun kennaranna. (JJ: Forstöðukvennanna!) Já, það má vel vera, að hann vilji aðeins tala um forstöðukonurnar einar, og skal jeg ekki um það þrátta við hv. þm.

Þar sem hv. 5. landsk. segir, að það sje hart af stjórninni að koma með þetta frv., þegar ekki sje hugsað nema um annan skólann, þá hafði mjer síst dottið það í hug. Hann kvað það nálgast hlutdrægni. Jeg skil ekki þá hlutdrægni, þegar þess er gætt, að Blönduósskólinn er hjeraðsskóli, og í rauninni eign hjeraðsins, en hinn lifir ekki á öðru en ríkistillagi og hefir ekki neina opinbera stofnun á bak við sig. Jeg hafði aðeins það fyrir augum, að skólinn lifir á ríkissjóði og fær og hefir fengið þaðan, það sem hann þarfnast. Jeg játa, að nú sem stendur yrði kostnaðurinn við að gera kvennaskólann í Rvík að ríkisskóla ofurlítið meiri, en ekki meiri en því sem nemur þessari litlu launahækkun til kennara. Og það er mjög efasamt, hvort hægt er að standa í móti þessum kröfum skólanefndar og láta þessar konur lifa við verri kjör en verkamenn, þótt frv. gangi ekki fram.

Jeg hygg, að skólagjöldin mundu verða þau sömu, þó Reykjavíkurskólinn yrði ríkisskóli, en þess er að gæta, að það er dálítið bætt upp með beinum styrk.

Hvað Flensborgarskóla viðvíkur, þá var jeg ekkert að tala um hann. Það væri kanske rjettast, að breyta þeim skóla nokkuð. Hann lifir alveg á landsjóðsfje. Hann á að vísu hús, en hitt geldur ríkisjóður. Hann ætti ef til vill að verða alþýðuskóli eða gagnfræðaskóli, með þeim styrk, sem slíkir skólar njóta. En að öðru leyti er það óskylt mál.

Þá sagði hv. þm. (JJ), að Blönduósskólinn væri að borga sitt hús. Það sýnir, að skólinn fær alt það, sem hann þarfnast, og það meira að segja fje til afborgana og væntanlega enn til húsabóta.

Þá mintist hv. 5. landsk. á það, er jeg sagði í gær, að verið væri að hverfa frá samskólum karla og kvenna viða um heim. Hv. þm. heimskaði mig mjög fyrir þetta. Jeg er að vísu leikmaður í þessu, en jeg hefi þó dálitla kunnugleika, af 30 ára reynslu minni, og hefi á þeim tíma oft haft yfir skólum ríkisins að segja. En þetta sagði hann, að næði engri átt. Bæði barnaskólar og háskólar væri samskólar. Þetta sannar ekkert um, hve upp skuli ala konur alment á aldrinum t. d. 12–18 ára. Og hinsvegar er það ekki rjett, að ekki sjeu til sjerháskólar fyrir konur. Þeir eru einmitt til. Jeg skal og geta þess, að í febr. síðastliðnum var haldinn fundur í Kaupmannahöfn, þar sem saman komu skólamenn frá Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Á þeim fundi var það greinilega viðurkent, að menn væru farnir að sannfærast um það, að rjett væri að hætta samskólum og taka sjerskóla fyrir hvort kyn, sjerstaklega á aldrinum 12–18 ára. Þar var því haldið fram, að mentun kvenna ætti að komast á aðra braut en nú er. — Til þessa fundar var boðað af mörgum stórmerkum kvenfjelögum og skólamönnum. — Mjer leiðist því, að hv. þm. (JJ) skuli hafa slegið svona fjarstæðu fram.

Einn stórmerkur skólamaður, þýskur, var þar á fundinum, og sagði það, að uppeldi kvenna ætti ekki að vera það sama og drengja. Þær þoli það ekki, og það af mörgum ástæðum. Þurfi og að leggja meira á sig. Og þó þær fái oft eins góð próf, þurfa þær að leggja svo mikið á sig til þess, að skaðlegt geti orðið fyrir þær.

Á þessum fundi sjest það, hve langt þessu er komið. Ein kona, sem er forstöðukona kvennadeildar í verslunarskóla, sýndi fram á, hve nauðsynlegt það væri, að hafa jafnvel kvennadeild í verslunarskólum. Jeg verð að halda, að þm. (JJ) tali móti betri vitund um þetta. Hitt er annað, að samskólar munu enn eiga sjer langan aldur á ýmsum sviðum. En svo sem þegar er getið, þá eru nú stefnur uppi víða um heim, að breyta þessu. Jeg ætla að láta þetta nægja til hv. 5. landsk.

En um það, sem sagt var, að jeg væri mótfallinn alþýðuskóla í Þingeyjarsýslu, og bæri það vott um áhugaleysi í skólamálum, þá gæti jeg með sama rjetti sagt hv. 5. landsk. áhugalausan í skólamálum fyrir andstöðu sína gegn þessu frv.

Þau ummæli hans, að betra sje að hafa tímakennara en fasta, læt jeg mig engu skifta. Jeg hefi aldrei heyrt það fyr, en altaf heyrt það talið óheppilegt, að þurfa að byggja skóla aðallega á tímakenslu. Og hann vildi sanna mál sitt með því að nefna mann, sem við virðum báðir mikils. En ætli viðkomandi skóla væri þá ekki betra að geta trygt sjer manninn sem fastakennara.