26.03.1925
Efri deild: 39. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í C-deild Alþingistíðinda. (2266)

17. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Guðmundur Ólafsson:

Jeg hefi ekki mikið að segja. Það kom fram hjá hæstv. forsrh. hið sama og í gær, að það væri skaði fyrir Blönduósskólann, að jeg hefði komið með brtt., en ekki frv. Það gleður mig, hve líklegt hann taldi, að frv. næði fram að ganga. Jeg held, að það mætti bjarga málinu með því að koma með frv. í háttv. Nd., ef þetta frv. kemst svo langt, að verða afgreitt til þeirrar deildar. Hann hjelt því fram, að kvennaskólunum hefði aldrei verið neitað um fje. Jeg talaði aldrei um það. Og hann má vita það, að mjer yrði það aðeins gleðiefni, að skólarnir fengju það, sem þeir þyrftu.

Þá vík jeg að orðum hv. 6. landsk. (IHB), þar sem hann kallaði mig siðameistara sinn. Jeg held okkur væri best að hætta við uppfræðsluna hvort í annars garð, úr því að jeg var lærisveinn hans í gær, en fæ nú meistaranafnbót hjá hv. þm. í dag. Vona jeg, að fræðsla sú, er jeg hefi veitt þm., beri jafnglæsilegan árangur. Hv. þm. (IHB) kom með það aftur, að jeg hefði komið með brtt. mína umboðslaus. Það hefði kanske verið hægt að koma með umboð, en hitt er það, að hv. 6. landsk. veit tæpast betur vilja sýslubúa minna en jeg. Þá sagði þm. og, að mjer þætti ekki alt best, sem fjarlægast væri. Það skiftir nú litlu, en sama gæti jeg auðvitað sagt um hann. Honum þykir Reykjavíkurskólinn bestur. (IHB: Þetta er ekki rjett!) Jeg þræti ekki um það við þm. Þá kom þm. ennþá með samanburð, að Reykjavíkurskólinn væri landsskóli, en Blönduósskólinn hjeraðsskóli. Jeg er búinn að tala um þetta og sýna, að það hefir við engin rök að styðjast. Um þetta þýðir að vísu ekki að deila, en allri deildinni er kunnugt, hvað sagt hefir verið. Og það tjáir ekki að ætla að afsaka sig eftir á, með því að láta sem töluð orð væri ótöluð.