26.03.1925
Efri deild: 39. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í C-deild Alþingistíðinda. (2268)

17. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Sigurður Eggerz:

Í þessum löngu umræðum, sem hjer hafa farið fram, hefir verið talað ákaflega mikið um stefnur í skólamálum. Þetta getur nú í sjálfu sjer verið mjög lærdómsríkt, en jeg verð þó að halda því fram, að vegna þessa frv. var engin nauðsyn á að fjölyrða svo mjög um þessar stefnur, því þó að frv. verði samþ., verður í engu breytt um stefnu í kenslumálum. Jeg bið hv. deild að athuga þetta. Því fer mjög fjarri, að hæstv. stjórn sje að marka nokkrar nýjar brautir í fræðslumálum með þessu frv. Það verður haldið áfram alveg í gömlu áttina, þó að þetta frv. verði samþ. Þetta er því ákaflega þýðingarlítið fyrir sjálf fræðslumálin í landinu. Frv. snýst alls ekki um þá stefnu, hvort hjer skuli vera sjerskólar eða samskólar framvegis, svo að það þarf ekki að setja hv. þm. í geðshræringu. Hjer halda alveg eins áfram að vera sjerskólar, hvort sem þetta frv. verður samþ. eða ekki. Í mínum augum er hjer aðeins um fjárhagsatriði að ræða. Það er verið að auka útgjöld, án þess nokkur þörf sje á. Það er aðalatriðið.

Það getur vel verið, að einhver fundur í Kaupmannahöfn sje á móti því, að hafa samskóla. Jeg veit ekkert um það. Og jeg veit ekki heldur, hvernig þessi mál standa í Englandi. En jeg veit það, að á þessum stefnum í skólamálum er altaf meiri og minni öldugangur. Það þarf ekki lengra en til okkar eigin þjóðar, til að finna dæmi þess. Mjer finst ekki langt síðan að jeg var hjerna í latínuskólanum. Þá voru uppkveðnar mestu bölbænir yfir latínu og grísku, og menn vildu fyrir alla muni losna við þessi mál. En hvað er svo að ske? Nú kveður við háróma lofsöngur um latínu og grísku. Nú er það latínan, sem á að lyfta þjóðinni á miklu hærra stig. Svona snúast menn. Og það er alveg áreiðanlegt, að ef latína og gríska yrðu settar í hásætið núna, þá mundu sömu bölbænirnar hefjast eftir svo sem 3 ár, og þær yrðu strax kveðnar niður aftur. Nú er frv. borið fram í Nd. um stofnun latínuskóla. Ef sá skóli verður samþyktur, rís ómótmælanleg krafa um sjerstakan gagnfræðaskóla í Rvík, því að gagnfræðamentuninni getum við ekki slept. Það verður ekki þolað. Það er ekki nóg að segja, að þessi bær verði að sjá um það. Hann hefir engan kraft til þess að koma upp slíkum skóla.

Jeg bendi á þetta til þess að sýna, að frv. það, sem hjer er um að ræða, er ekki eina skólafrv. á þessu þingi, sem grípur inn í fjárhag ríkissjóðs. Það þykir reynsla hjer, að ríkisrekstur sje dýrari en hjá einstaklingum, og er það viðurkent af fjölda manna. Sönnun þess liggur raunar í sjálfu frv., því að ef skólinn er settur á ríkissjóð, þykir nauðsynlegt að fjölga föstum kennurum og hækka launin. Jeg bendi hjer aðeins á „facta“. Svo eftir 1–2 ár kemur vafalaust krafa í nafni kvenþjóðarinnar um að byggja yfir skólann. Jeg vil ekki, að aðalatriðið í þessu máli sje dregið undan, en það er, eins og jeg hefi tekið fram, fjárhagsatriðið. Stefnur í kenslumálum koma þessu ekkert við.

Hæstv. forsrh. (JM) sagði eina setningu, sem jeg þarf að gera athugasemd við. Jeg man ekki, hvort hann sagði hana frá eigin brjósti eða hafði hana eftir einhverjum lærðum manni. Hann tók fram, að stúlkubörn þyrftu ekki samskonar mentun og drengir. En það er nú svo, að ef maður vill fá djúptæka mentun, þá er aðalþungamiðjan í mentuninni sú sama fyrir karla og konur, og ómögulegt að draga þar neina línu á milli. Sönn mentun er í því fólgin, að skilja sjálfan sig og lifið í kringum sig. Þetta þarf, eftir því sem hægt er, að kenna jafnt konum sem körlum. (Forsrh.JM: Og sund? Er ekki svo?) Jú, auðvitað. Jeg vona, að ekki verði upplýst í þessari hv. deild, að fram sje komin ný stefna, sem haldi því fram, að kvenfólk megi ekki fara í laug. Þessi setning, að konur þurfi ekki sömu mentun og karlmenn, er úrelt kenning, leifar frá gömlum tíma, þegar minni kröfur voru gerðar til kvenna en karla. Stefnan á að vera: sömu kröfur, sömu rjettindi.

Jeg skal enn taka fram, að af fjárhagsatriðum einum er jeg á móti þessu frv.