26.03.1925
Efri deild: 39. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í C-deild Alþingistíðinda. (2270)

17. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Forsætisráðherra (JM):

Jeg vildi víkja nokkrum orðum að ræðu hv. 1. landsk. (SE). Meirihl. leggur svo mikið kapp á að fella þetta frv., að mjer er það næstum óskiljanlegt, einkum þar sem þessir menn tjá sig fylgjandi aukinni mentun í landinu. En framkoma þeirra í þessu máli færir þó litlar sönnur á það.

Jeg mun reyna að tefja eigi tímann með því, að draga óskyld mál inn í umræðurnar. Hv. 1. landsk. fór að tala um stofnun gagnfræðaskóla hjer í Rvík, sem bænum yrði alveg ofviða að kosta. Jeg skal ekki fara ítarlega út í það mál að sinni. En jeg get eigi sjeð, að Rvík ætti að vera það ofurefli fremur en öðrum hjeruðum, er skólum halda uppi, einkum þar sem barnafræðsla hjer í bæ er að mestu kostuð af ríkissjóði, svo að slíks eru vart dæmi annarsstaðar.

Hv. 1. landsk. (SE) talaði um djúptæka mentun í sambandi við gagnfræðaskólana. Jeg býst nú við, að öllum sje það ljóst, hvílík firra það er, að þeir láti mönnum djúptæka mentun í tje, enda er ekki til þess ætlast af þeim.

Hv. 5. landsk. (JJ) spurði, hvort kvennaskólarnir gætu vaðið í ríkissjóð og tekið það, sem þeim sýndist. Þótt orðalagið eigi auðvitað ekki við, er þó nokkuð til í þessu, því að hingað til hafa þessir skólar fengið þann styrk, sem þeir hafa beðið um. Á ófriðarárunum var jafnvel veitt fje til þeirra milli þinga, að minsta kosti kvennaskólans í Rvík, án sjerstakrar heimildar, og veitti þingið samþykki sitt til fjárveitingarinnar eftir á.

Þá sný jeg mjer að ummælum hv. 1. landsk. (SE) og hv. 5. landsk. (JJ), um samskóla og sjerskóla. Það er alkunnugt, að háskólar eru yfirleitt samskólar, og að karlar og konur njóta sömu „akademiskrar“ mentunar. Kvendoktorar voru til löngu áður en hugsað var til kosningarrjettar og kjörgengis fyrir konur. En þessi háskóli fyrir konur, Gerton College, sem jeg mintist á áðan, er reglulegur háskóli. Jeg gat þess ekki af því, að það skifti svo miklu máli, heldur aðeins til að ósanna orð hv. 5. landsk. (JJ), sem hjelt því fram, að slíkir háskólar væru ekki til. Hann sagði, að háskólarnir í Englandi væru fyrir karla og konur, nema þau svæfu eigi í samá herbergi í heimavistunum. (JJ: Undantekningin sannar regluna!) Annars held jeg, að sannleikurinn sje sá, að fjöldi skóla í Englandi veiti konum alls eigi aðgang. (JJ: Þeir eru svo gamlir.) — Gamlir? Já, það er nú okkar mentaskóli líka, og er samskóli samt.

Hv. 5. landsk. (JJ) vildi gera lítið úr fundi þeim, sem jeg gat um, að haldinn hefði verið um þessi efni á Norðurlöndum nýlega, og þeim stórmerka manni, er þar kom við sögu. Slíku og öðru eins ætla jeg ekki einu sinni að svara. Auðvitað kom honum mjög illa, að jeg skyldi geta fært sönnur á þetta. Það er að vísu satt, að það voru einkum konur, sem fundinn sóttu, en alt að einu er eigi hægt fyrir hv. 5. landsk. að gera lítið úr ályktun slíks fundar, nema því aðeins, að hv. 5. landsk. sje á sama máli og þýski heimspekingurinn, sem hjelt því fram, að konur hefðu eigi sál.

Hv. 5. landsk. (JJ) vildi draga þá ályktun af orðum mínum, að eftir þeim yrðu karlkennarar eingöngu að kenna við drengjaskóla og kvenkennarar við kvennaskóla. Auðvitað er þetta bláber fjarstæða, þessi frægi maður, er jeg nefndi í sambandi við fundinn, hefir einmitt lagt mesta stund á að kenna ungum stúlkum. Annars þykist jeg vita, að hv. 5. landsk. (JJ) hugsi alt öðruvísi og betur í skóla sínum, heldur en þegar hann er að þyrla upp ryki hjer í deildinni.