06.04.1925
Efri deild: 48. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í C-deild Alþingistíðinda. (2286)

17. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Jóhannes Jóhannesson:

Það er nú viðurkent, jafnvel af andstæðingum þessa máls, að kvennaskólinn sje landsskóli og alt landið noti hann. En Blönduósskólinn er hjeraðsskóli.

Af þessu leiðir, að bæjarstjórn Rvíkur hefir ekki viljað taka skólann að sjer. Hann stendur því ver að vígi en Blönduósskólinn, því að bak við hann standa tvö sýslufjelög. Hann á ekki á hættu, að verða lagður niður.

Þar sem það nú er viðurkent þjóðarböl, ef skólinn legðist niður, ber að líta á það, á hve tryggum fótum skólinn stendur, ef frv. er felt. Þetta er einkastofnun eignalítil og á ekkert hús. Hún verður að taka það á leigu. Það má gera ráð fyrir, að eigandinn vilji hafa samning um lengri tíma, til þess að tryggja sjer leiguna. Hvernig ætti stjórn skólans þá að fara að? Hún getur ekki sett neina tryggingu fyrir því, að skólinn standi um svo langt árabil.

Ef frv. yrði því felt, sje jeg ekki annað en stjórn skólans standi ver að vígi, og aðstaða skólans öll verri og ótryggari en verið hefir og svifi í lausu lofti. (SE: Það skil jeg ekki.) Mjer þykir leitt, ef hv. 1. landsk. þm. skilur það ekki, að skólanefndin getur ekki trygt húsaleigu, t. a. m. í tíu ár, og að hún á ekki í annað hús að venda en snúa sjer til landsstjórnarinnar, er myndi hugsa sig tvisvar um, áður en hún gengi í ábyrgð fyrir húsaleigu fyrir skólann, eftir að frv. þetta væri felt. Og jeg bið hv. deildarmenn að athuga vel, hvað þeir eru að gera með því að stofna kvennaskólanum í voða. Jeg vil ekki eiga þátt í því. Þó að konur eigi jafnan rjett til allra skóla og karlmenn, þá eru þó allir aðrir skólar sniðnir við hæfi karlmanna, og afleiðingin sú, að konur sækja þá ekki eins. Þar sem nú kvenfólkið er annar helmingur þjóðarinnar, og að mínu viti ekki sá lakari, er það þá til of mikils mælst, að ríkið taki að sjer þennan eina skóla, sem sniðinn er fyrir þarfir kvenþjóðarinnar og kostar eigi meira en 37 þús. kr. á ári? Kvennaskólinn er nú í þeim stakk, sem reynslan hefir sýnt, að fer best á. Mjer finst því harla varhugavert að leggja stein í götu hans nú og neita kvenþjóðinni um skýlausan rjett hennar. Mun það mælast illa fyrir og kvenþjóðin muna nöfn þeirra þingmanna, er það vilja gera.