06.04.1925
Efri deild: 48. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í C-deild Alþingistíðinda. (2289)

17. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Frsm. meirihl. (Jónas Jónsson):

Jeg hefi ekki ennþá getað sannfærst af rökum hæstv. forsrh. í þessu máli. Hæstv. forsrh. heldur því sem sje ennþá fram, að kvennaskólinn hjer sje sjerskóli, þótt það viti allir, að þar er nákvæmlega sama bókleg fræðsla, sem í öðrum skólum er kölluð gagnfræðakensla. Það sjest einmitt á því, að hæstv. forsrh. hefir ekki glöggan skilning á því, hvað sjermentun kvenna er, þegar hæstv. forsrh. heldur, að kvenmenn, sem lært hafi slík fræði, sje sjerstaklega búnar undir lífsstarf sitt; en þar er t. d. ekki kend matreiðsla, og það vita þó allir, að matreiðslunni á heimilunum er stjórnað og stundum mestmegnis framkvæmd af húsmóðurinni sjálfri, svo að það er hugsunarvilla að halda því fram, að það sje sjerskóli fyrir konur, sem gengur fram hjá því verki, sem fyrst og fremst kemur í hlut þeirra flestra að framkvæma. Það stendur því, sem sagt, ekki vel ljóst fyrir hæstv. forsrh., hvað er sjerskóli og hvað almennur skóli, annars myndi hann ekki flaska á þessu.

Næst reyndi hæstv. forsrh. að fóðra skoðun sína með því, að það yrði svo lítill kostnaður fyrir ríkið, þó að það tæki þennan skóla að sjer, en þorði þó ekki að bera hann saman við mentaskólann, því að honum var ljóst, að mismunurinn var svo gífurlegur, að það var ekki hægt, en reyndi að bjarga sjer með því, að mentaskólinn væri svo miklu göfugri skóli en hinn. Jeg mótmæli þessu algerlega og leyfi mjer að skora á hæstv. forsrh., næst þegar hann fer til Danmerkur, að athuga, hvernig kenslumálaráðherrann danski, frk. Nína Bang, raðar skólunum þar; hún breytti nefnilega þannig til, að hún taldi barnaskólana fyrsta, en háskólann síðastan, en hæstv. forsrh. er auðsjáanlega ekki sömu skoðunar, þótt Danir sje annars sú þjóð, sem hann er vanur að taka allmikið tillit til. Annars mótmæli jeg þessum skilningi algerlega, að því er snertir hærri og lægri skóla, því að hann er ekki bygður á neinu öðru en gömlum hleypidómum. Það má t. d. benda á, að það hefir átt sjer stað í skóla þeim, er hann vill telja göfugan, að fylgt væri línunum í bókinni við yfirheyrsluna, og svo þegar einhverjum nemanda hefir orðið það á, að fylgja ekki línunni, þá hefir verið sagt við hann: „Nei, nei, þetta er ekki komið ennþá.“ Þetta er eins og í lökustu skólum hjer á landi. En jeg segi ekki, að þetta sje alment hjá kennurum þar, heldur aðeins, að það sje til þar, og þá vil jeg spyrja hæstv. forsrh., hvað hann telji æðri eða lægri kenslu. Jeg fyrir mitt leyti vil svara því svo, að það skifti ekki máli, hvort kent sje í kvennaskóla, mentaskóla eða barnaskóla, heldur það, að kenslan sje góð og þroski nemandann, en öll kensla er lág, sem er eins og jeg benti á áðan. í öðru lagi vil jeg benda hæstv. forsrh. á skjal, sem hjer liggur fyrir, frá kennurum mentaskólans, til samanburðar við skoðun þá, er fram hefir komið hjá hæstv. forsrh., að kennaraskólinn sje í tölu lægri skóla, og kvennaskólinn sömuleiðis, en mentaskólinn hár. Kennararnir benda á, að í nálægum löndum sjeu kennaraskólar taldir hærri mentaskólum, af því, að af þeim sjeu menn útskrifaðir endanlega, og ef menn athuga launakjör kennara í mentaskólum og kennaraskólum erlendis, þá mun hæstv. forsrh. reka sig á, að skoðun hans er röng, því að launin eru nærri jöfn. Annars fyrirlít jeg þessa skoðun ráðherrans. Hún er leifar af uppskafningshætti fyrri alda.

Þá er leigan á húsinu. Hæstv. forsrh. vildi áfella okkur meirihl. mentmn. fyrir það, að við hefðum ekki komið til stjórnarinnar og spurt um það. En þetta kom okkur ekkert við; það er stjórnin, sem hefir samið frv., og það er afleitt, að hún hefir ekki látið neinar upplýsingar um þetta fylgja frv. til nefndarinnar, og vill hæstv. forsrh. koma sökinni á okkur; en við eigum alls ekki að semja við húseigendur úti í bæ. Við eigum aðeins að athuga frv., eins og það liggur fyrir. Þá sagði hæstv. forsrh., að það munaði lítið um kostnaðinn, það yrðu auðvitað dálítið hærri laun handa kennurunum, annað ekki. En má jeg þá spyrja: Hvað er það, sem mestur kostnaður við skólana er fólginn í? Er það kanske námsstyrkurinn handa þeim, sem skólana sækja? Eða er það húsaleigan ? Nei, ónei, það eru mest kennaralaunin, það er aðalliðurinn við alla skóla.

En það er annað og meira en þetta. Það er talið lítilsvert, að kennaraskólinn, sem ekki hefir helming að nemendatölu við kvennaskólann, er miklu dýrari en hann, og þó er sá mikli munur, að ríkið hefir bygt yfir kennaraskólann. Þá var það alveg rangt, þegar hæstv. forsrh. fór að draga barnabekkinn inn í þá upphæð, sem kennaraskólinn hefir fengið, því að barnabekkurinn er að mestu kostaður af bænum.

Þá vil jeg nefna einn skóla hjer, sem væri mikil ástæða til fyrir stjórnina að vilja koma á ríkið, það er iðnskólinn; hann er sjerfræðiskóli og hann er fyrir alt landið. Hvað þessi skóli fær í styrk, man jeg ekki fyrir víst, en mig minnir, að það sje eitthvað 5–6 þús. kr. Hvað nemendatöluna snertir, þá er hún líklega svo sem helmingur af því, sem er í mentaskólanum, mig minnir, að nú standi slagur um það í Nd., hvort þessi skóli eigi að fá 7000 kr. styrk eða ekki. En jeg held nú, að skólar eins og iðnskólinn fái ósanngjarnlega lítinn styrk; hann verður t. d. að borga 6000 kr. í húsaleigu, eða nærri því eins og kvennaskólinn. En annars vil jeg geta þess, að það er hyggilegt að nota tímakennara hjer. Það væri hægt að reka hjer ágætan skóla með fastlaunuðum forstöðumanni og eintómum tímakennurum. Jeg skal t. d. nefna það, sem jeg veit, að hæstv. forsrh. er vel kunnugt um, að einn mikilsvirtur sagnfræðingur hjer í bæ kennir fram til kl. 12 á hverjum degi við mentaskólann, fyrir venjuleg tímakennaralaun, og hygg jeg, að hann geri það alveg eins vel og þótt hann hefði verið fastur kennari við skólann.

Þá mælti hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) nokkur orð um það, að kvennaskólinn hjer væri landsskóli. Það er hann vitanlega, því að þangað koma námsmeyjar alstaðar að af landinu, en svo er við alla skóla hjer, t. d. um verslunarskólann og samvinuskólann, og þeim ætlar hæstv. forsrh. að bjargast með 3000 kr. á ári, og þó hefir verslunarskólinn ekki aðgang að neinu húsi. Jeg tek þetta sem dæmi um það, að það er ekki látin vera algild ástæða fyrir því, þótt menn sæki skólann af öllu landinu, að þá eigi ríkið að taka hann að sjer fyrir því. Hæstv. forsrh. sagði, að Reykjavík vildi ekki styrkja kvennaskólann hjer. Hversvegna ekki? Jú, þeir eru nógu klókir í bæjarstjórn Reykjavíkur til að vilja ekki fara að styrkja þann skóla, þegar þeir hafa heyrt þá yfirlýsingu hæstv. stjórnar, að hún láti þennan skóla fá alt, sem hann vilji og þurfi. (Forsrh. JM: Hefir hann ekki fengið það, og jafnvel á milli þinga?) Ef til vill, en þá með ólögum. Jeg vænti, að núverandi fjrh. sje ekki hrifinn af að borga þannig út á milli þinga. En það er einmitt það, sem rangt er, að meira en helmingurinn af námsmeyjunum er hjeðan úr Reykjavík og hlýtur altaf að vera það, en Reykjavík styrkir ekki þennan skóla, sem í raun og veru er góður gagnfræðaskóli fyrir hana, og sem Reykjavík hefir meira gagn af en nokkurt annað kjördæmi landsins. Þessvegna er það mjög athugavert um aðstöðu Reykjavíkur til þessa skóla, að þingið hefir aldrei reynt að koma þessu á hreint. Jeg geri ráð fyrir, að siðar verði að taka þetta til athugunar, og þá virtist sanngjarnt, að Reykjavík legði fram svo sem 1/3 af þeim styrk, sem kvennaskólinn fær, og það myndi hún standa sig vel við, þegar tekið er tillit til þess, hve margar námsmeyjar hjeðan fá kenslu.