05.05.1925
Efri deild: 68. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1008 í B-deild Alþingistíðinda. (229)

1. mál, fjárlög 1926

Frsm. (Jóhannes Jóhannesson):

Jeg get ekki verið hæstv. forseta (HSteins) sammála um, að orðið „verslunarbrask“ sje óþinghæft orð. Jeg skal í þessu sambandi geta þess, að orðið „svindelbrask“ var notað í hv. Nd. og var ekki átalið. Vona jeg þó, að öllum skiljist, hversu mikill munur er á þessum tveim orðum. Orðið „verslunarbrask“ get jeg ekki sjeð, að sje á neinn hátt móðgandi. (Forseti: Það var ekki átalið). Hæstv. forseti gaf það að minsta kosti í skyn, að hann teldi það óþinghæft.

Jeg get ekki annað en haldið því fram, að ríkið eigi ekki að ábyrgjast lán til verslunarrekstrar einstaklinga. Hv. 6. landsk. (IHB) tók það rjettilega fram, að þetta væri ekki tímabært, enda verð jeg að segja það, að mjer finst það undarleg fjármálapólítík, ef sama þingið, sem neitar lánum til hafnarbóta og annara nauðsynjafyrirtækja, heimilar að ganga í ábyrgð fyrir einstakan mann til að setja á stofn verslun. Allir sjá, að ekki er mikið samræmi í þessu.

Jeg gleymdi að geta þess, að hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) gerði ágreining um þessa brtt. í fjvn. Nú hefir hann sjálfur bœtt úr þeim misgáningi, en hinir nefndarmenn eru sammála um að leggja á móti brtt.