06.04.1925
Efri deild: 48. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í C-deild Alþingistíðinda. (2290)

17. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Forsætisráðherra (JM):

Hv. frsm. meirihl. er hjer að vísu ekki við,* enda þarf jeg ekki mikið að segja við þann hv. þm. Hann var aftur að tala um og bera saman einkafyrirtækin og ríkisfyrirtækin, og sagði, að hin siðarnefndu væri miklu dýrari. En jeg held, að jeg hafi sannað það, að ríkisskólar á borð við kvennaskólann eru ekki miklu dýrari en hann. Það er nú svo, að það má viðhafa sparsemi, þótt skólarnir sjeu ríkisfyrirtæki, og það hefir líka verið svo um kennaraskólann, að það hefir verið farið mjög vel með alt fje hans, og svo er og um marga aðra skóla, t. d. stýrimannaskólann og vjelstjóraskólann, skóla á borð við kvennaskólann. Jeg get heldur ekki samþykt það, að skólinn hljóti að verða því dýrari sem nemendurnir eru fleiri; það geta orðið dálítið fleiri í bekk, því að minni skólar hafa oft færri menn í bekk en mætti vera, kenslunnar vegna. Jeg hefi ekki borið saman nemendatöluna í kvennaskólanum og kennaraskólanum, enda er það nokkuð misjafnt, hve margir eru í kennaraskólanum, og sjerstaklega misjafnt, hvað er í stýrimannaskólanum; þar eru nemendur stundum svo fáir, að kenslukraftarnir eru of miklir, en það kemur af sjerstökum ástæðum og er ekki nema í bili. Hv. frsm. meirihl. (SE) talaði um það, að iðnskólinn stæði á grundvelli einkafyrirtækja. Jeg veit ekki til, að Íhaldsflokkurinn hafi nokkurntíma sagt það, að allir skólar skyldu vera reknir sem einkafyrirtæki, nje heldur síma- og póststarfsemi. Jeg veit ekki til þess. En þetta, sem jeg var að tala um kapp hv. þm. (SE), þá skal jeg játa það, að jeg mundi það ekki fyrir víst, hvort hv. þm. (SE) var frsm. meirihl. (SE: Jeg er ekki frsm. meirihl.) Nú, svo hv. 1. landsk. er ekki frsm. meirihl. Já, þá skal jeg ekki snúa aftur með kappið. En jeg held, að jeg hafi spurt hæstv. forseta (HSteins) um það, og jeg held, að hæstv. forseti hafi sagt mjer, að svo væri. En það er þá hv. 5. landsk. þm. (JJ), sem er frsm. meirihl. En mig furðaði einmitt ekki svo mikið á þessu kappi hv. 1. landsk., af því að jeg hjelt, að hann væri frsm., en annars er það undarlega mikið kapp, sem báðir þessir hv. þm. úr mentmn. hafa í frammi gegn þessu frv. (SE: Það er af því, að það er sótt svo fast að okkur). Já, en þá má ekki leggja mjer illa út, þó að jeg fylgi því fast fram, sem jeg álít fyllilega rjettmætt í hvívetna.

Þá verð jeg að snúa mjer að hv. 5. landsk. (JJ). Sá hv. þm. var að heimska mig fyrir það, að jeg segði, að kvennaskólinn væri sjerskóli, og vildi telja það fásinnu, af því að þetta væri ekki annað en venjulegur gagnfræðaskóli. Mig furðar mjög á þessu, því að jeg veit ekki betur en að við teljum, að mótsetningin við sjerskóla, annað tveggja fyrir konur eða karla, sje samskólar, þ. e. skólar fyrir bæði konur og karla; jeg veit ekki hvaða nafn hv. þm. (JJ) vill gefa þeim skólum, sem ekki eru samskólar og heldur ekki almennir skólar. (JJ: Sjerfræðiskólar og almennir skólar.) Það finst mjer ekki miklu greinilegra, það verð jeg að segja. Nei, kvennaskólinn er sjerskóli, samanborið við samskólana, og þar að auki er hann sjerskóli fyrir kvenmenn á vissum aldri, og gefur þeim ákveðna ment á þessum tíma, og þær fara gjarnan ekki lengra á mentabrautinni. Annars sækja konur miklu minna að samskólunum en karlar. Þegar hv. þm. (JJ) var að vanda um út af því, sem jeg talaði um æðri og lægri mentir, þá vil jeg benda á, að það var ekki meining mín að fara að gera lítið úr neinum skóla, heldur vildi jeg aðeins segja það, að það er meira lært og meira kent í mentaskólanum og háskólanum heldur en t. d. í kvennaskólanum og kennaraskólanum, sem jeg býst við muni vera nokkuð á borð við vanalega gagnfræðaskóla, undirbúningurinn kanske nokkru betri, og ef reiknað er með tímanum, sem þarf, þá er það töluvert meiri tími, sem þarf til þess að komast í gegnum 6 bekki í mentaskólanum, heldur en 3–1 í kennaraskólanum. Annars er þetta gömul skifting á skólum, sem ekkert er móðgandi fyrir þá skóla, sem veita hina minni mentun.

Um laun kennara við erlenda kennaraskóla vil jeg geta þess, að kennarar þar munu hafa nokkru lægri laun en kennarar við mentaskóla, en yfirleitt eru launakjör við erlenda skóla miklu betri en hjer, sjerstaklega fyrir þá, sem standa fyrir þeim; þar eru launin miklu hærri en hjer, en adjunktar eru ekki tiltölulega mikið hærra launaðir en hjer.

Þá var hv. þm. enn að tala um húsaleiguna. Jeg get upplýst, að jeg hefi talað við eiganda hússins og fengið fulla vissu fyrir því, að þar er ekkert að óttast, ef þetta frv. nær fram að ganga, enda vissi jeg það fyrir, því að jeg hefi þekt þann mann lengi og átt mikil viðskifti við hann um æfina, en annars sýnist mjer, að þessar upplýsingar muni ekkert þýða fyrir hv. meirihl. nefndarinnar í þessu máli.

Þá fór hv. þm. (JJ) enn að tala um tímakensluna, en jeg ætla nú ekki að fara að tala um hana aftur.

Loks var háttv. þm. svo hreinskilinn, að kveða upp úr með það, að hann vildi gjarnan kippa að sjer hendinni og hætta að styrkja kvennaskólann á fjárlögum. Þar með meinar hv. þm., að hann sje ekki þess verður, að hann sje styrktur. Hann eigi að vera húsmæðraskóli. Verði hv. þm. því einhverntíma kenslumálaráðherra, þá mun hann tæplega tregur að fylgja þessari stefnu fram. (JJ: Hver hefir kanske hælt skólanum meira en jeg?) Háttv. þm. hefir ekki hælt skólanum. Hann hefir sagt, að hann væri óþarfur.

Það er alveg satt, að skólinn stendur mjög valt, þar sem hann getur ekki samið um húsaleigu, nema frá ári til árs.

Hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) var að svara mjer. Jeg sagði ekkert um Blönduósskólann annað en að jeg myndi fylgja því, að hann fengi styrk til aðgerðar húsum. En jeg talaði sem minst um hann, til þess að hleypa háttv. þm. A.- Húnv. ekki upp. Annars er jeg ekkert hræddur við að gera Blönduósskólann að ríkisskóla, því að jeg er viss um, að útgjöld ríkissjóðs vegna hans yrðu ekkert meiri fyrir það.

Að síðustu vil jeg geta þess, að fyrir mjer er þetta kappsmál, meðal annars fyrir þá sök, að yfirráðin yfir kvennaskólanum eiga, eftir þessu frv., að hverfa undir ráðuneytið. því að jeg tel það í fylsta máta athugavert, að ríkið leggi fje til skólans eins og hann þarf og um er beðið, en hafi svo engin yfirráð yfir honum. Eins og skólinn er nú, þá er hann einkafyrirtæki að nafni til, en ríkisfyrirtæki í raun og veru.

Jeg læt svo útrætt um þetta frá minni hlið, en vilji háttv. þm. taka einn daginn enn til þess að ræða það, þá þeir um það. En nú hygg jeg, að þegar sjeu komnar eins margar ræður um það, eins og um fjárlögin í Nd.

*ræðum. á við 1. landsk. (SE): sjá síðar í ræðunni.