06.04.1925
Efri deild: 48. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í C-deild Alþingistíðinda. (2291)

17. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Frsm. minnihl. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Þegar jeg kom á fundinn í morgun, bjóst jeg alls ekki við svona miklum umræðum um þetta mál nú, eftir allar þær ræður, sem haldnar voru um það við 2. umr. þess.

Hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) talaði mest við mig persónulega, en minna um málið sjálft; fyrir því læt jeg honum ósvarað.

En það er hv. 5. landsk. (JJ), sem jeg vildi víkja að nokkrum orðum. Hv. þm. kom að því í fyrri ræðu sinni, að forstöðukonur skóla þyrftu ekki að hafa eins góð launakjör og forstöðumenn. Þetta er gömul „logik“. En jeg get ekki annað sjeð en jöfnum skyldum eigi að fylgja jöfn rjettindi.

Þá mintist þessi hv. þm. á það, að ef skólinn gæti ekki staðist samkeppnina, þá væri hans tilverurjettur enginn. En eins og hv. þm. veit og mintist líka á, þá er skóli þessi leigutaki, og það eitt út af fyrir sig er nægilegt til þess að gera honum samkeppnina örðuga. Það er alveg satt, að samningar um húsaleigu skólans hafa aldrei verið gerðir til langs tíma. En það stafar af því, að nefnd sú, sem ráðið hefir yfir skólanum s.l. 16 ár, hefir altaf orðið að semja til 5 ára í senn, og jafnvel styttri tíma, því að hún hefir aldrei getað tekið á sig þá ábyrgð, að semja til langs tíma í senn. Og lái jeg henni það ekki.

Þá kem jeg að síðari ræðu háttv. 5. landsk. (JJ). í henni er ekki margt, sem jeg þarf að svara, því að hæstv. forsrh. hefir svarað henni að mestu leyti. En það, sem hann talaði um tímakennarana, því get jeg ekki gengið fram hjá. Það er satt, að kvennaskólinn hefir altaf haft góða kennara. Þannig hafa t. d. allflestir mentaskólakennararnir kent lengri eða skemri tíma við hann, að undanteknum rektor. par sem því skólinn hefir mestmegnis orðið að nota tímakennara, hefir vitanlega orðið að bjóða þeim sömu kjör og þeir hafa átt kost á annarsstaðar. En þó að háttv. 5. landsk. hafi getað fengið ódýrari menn til þess að kenna við samvinnuskólann, þá kemur ekki það mál við mig.

Að þetta sje sjerskóli, verður ekki móti mælt. En vitanlega er hægt að segja hvítt svart og svart hvítt, en það breytir engu frá því, sem er í raun og veru.

Þá var háttv. þm. (JJ) að finna að því, að stúlkurnar lærðu ekki matargerð, nema í matardeildinni. Þetta er satt. En hvernig í ósköpunum ætti að vera hægt að bæta slíkri kenslu ofan á, þegar stúlkurnar sitja 6 tíma á dag í bekkjunum. Og hvernig í dauðanum getur háttv. þm. ætlast til, að hægt sje að taka „grautargerð“ inn í bekkjakensluna.

Þá vil jeg víkja nokkrum orðum að háttv. 1. landsk. (SE). Hann taldi sig vera fylgjandi sjerskólum. En hversvegna fylgir þá háttv. þm. ekki þessu máli? Annars vil jeg vona, og jeg veit, að sú von verður sjer ekki til skammar, að sá tími kemur, þó það verði kanske ekki í þetta sinn, að konur fái að ráða yfir sínum skólamálum, á sama hátt og karlmenn fá að ráða yfir sínum.

Þá skildist mjer, að háttv. 1. landsk. (SE) mótmælti því, að hjer væri um rjettarbót að ræða. (SE: Nei). Ætli það hafi verið svo fjarri! Jeg skal þá taka orð háttv. þm. upp, því jeg skrifaði þau hjá mjer. Háttv. þm. sagði: „Hjer er um enga rjettarbót að ræða.“ Jú, hjer er einmitt um rjettarbót að ræða, svo mikla rjettarbót, að jeg held, að meirihl. hjer í hv. deild skilji ekki, hversu þýðingarmikil hún er.

Jeg segi því, og vil undirstrika það, að það, sem felst í frv., er einmitt trygging fyrir því, að skólinn geti haldið áfram að vera það, sem hann hefir verið í 50 ár: stofnun, þar sem stúlkur geta haldið áfram að þroskast andlega og líkamlega, eftir óskum og vonum foreldra sinna.

Jeg get tæplega skilið, að háttv. 1. landsk. (SE) geti fundist það goðgá, þó að konum finnist það liggja í hlutarins eðli, að þeim beri sömu laun fyrir sama starfa og karlmönnum.

Jeg get nú fullvissað háttv. þm. um það, að það er ekki jeg ein, sem geri þessar kröfur fyrir hönd skólans, heldur mun fjöldi hjerlendra kvenna gera slíkt hið sama. Hv. þingmenn mega því fyllilega vera sannfærðir um, að þessum kröfum verður fylgt fram til hins ítrasta.

þá endaði hv. 1. landsk. (SE) ræðu sína með því, að minnast á þær ógnanir, sem jeg hefði haft í frammi í ræðu minni í dag. En jeg vona, að enginn lái mjer, þó að jeg gæti þess, að konur myndu geyma nöfn þeirra manna (SE: í hjarta sínu!) — já, bæði í hug og hjarta, sem væru á móti þessum sjálfsögðu kröfum þeirra.

Skal jeg svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál.