07.03.1925
Neðri deild: 28. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í C-deild Alþingistíðinda. (2294)

77. mál, bann á næturvinnu við fermingu skipa og báta í Reykjavík og Hafnarfirði

Flm. (Jón Baldvinsson):

Frv. þetta er borið fram fyrir brýna nauðsyn, sem skapast hefir af atvinnuháttum á þeim tveim stöðum, sem frv. fjallar um. Og þörf á einhverri löggjöf, er gangi í þessa átt, er því meiri sem það er fullkunnugt, að helgidagalöggjöf vor er mjög ófullkomin, og það svo, að hún gerir í raun og veru nauðalítið gagn í framkvæmdinni.

Jeg minnist nú frv., sem borið var fram fyrir nokkrum árum, um takmörkun vinnu á ísl. botnvörpuskipum. Þau lög eru nú ein hinna fáu um vinnuskipulag, sem til eru hjer á landi. Frv. var nýmæli þá, og nýmælum hefir jafnan verið hætt við andspyrnu. Það skorti og ekki þá, og ljet margur sem í húfi væri hagur vor allur, ef það næði fram að ganga. Reynslan hefir nú sýnt, að það hefir orðið ekki einungis sjómönnum vorum til gagns, heldur og útgerðinni ekki síður.

Þetta frv. fjallar að vísu um dálítið annað, en það er þó skyld hugsun, sem að baki liggur, sú, að banna það, sem nú hefir við gengist, að menn vinni að uppskipun nætur og daga. Það þarf engum orðum að því að eyða, að hverjum manni er það eðlilegast, að vinna á daginn. Hitt, að vinna nótt eftir nótt, hvernig sem á veðrum stendur, hefir ill áhrif á heilsu manna. Jeg get tilfært mörg dæmi hjer úr Reykjavík um slíkt, og þeir eru ekki allfáir, sem vitað verður um, að hafa dáið af afleiðingum þess.

Einhver kann að segja, að ekki sje hægt við þessu að gera. En ráðið er, að láta ekki vinna á nóttunni. Hverjum manni er líf og heilsa dýrmætust, og þó í fljótu bragði kunni að virðast svo sem einhver skaðaðist, þá verður að líta meira á hitt, að vernda fjör manna og heilsu. Þá er og líklegt, að sú mótbára komi fram, að skip fái síður afgreiðslu og bið þeirra baki oft stórtjón. Sú mótbára er ekki mikils virði. Jeg man eftir deilu, sem átti sjer stað fyrir nokkrum árum um kaupgjald fyrir eftirvinnu. Samkomulag náðist ekki, og var sá kostur upp tekinn, að láta enga eftirvinnu vinna. Höguðu togaramir þá svo til, að þeir komu inn að morgni. Jeg held því hiklaust, að svo mætti haga til, að engin liði tjón af, þótt settar væru þær reglur, sem frv. fer fram á.

Þá kann einhver að segja, að verkamenn mundu skaðast, því þeir fái hærra kaup á nóttunni. Satt kann það að vera, að einhverjir sjeu þeir til meðal verkamanna, sem halda vilja þessari vinnu, en yfirgnæfandi meirihluti vill það ekki. Og nær er mjer að halda, að þeir einir verkamanna vilji hana, sem skoða Morgunblaðið sem málgagn sitt, og þeir eru ekki margir.

Þetta mál hefir oft verið til umræðu í fjelagi verkamanna, bæði hjer og í Hafnarfirði, og hafa ályktanir fjelaganna altaf verið eindregið á þá leið, að leggja bæri niður næturvinnu. Og frammi á lestrarsal Alþingis liggur tillaga úr Hafnarfirði um hið sama.

Í þessu frv. er farið mjög hóflega. Bann frá kl. 10 e. h. til kl. 6 f. h. Erlendis er ekki hreyft við vinnu frá kl. 6 e. h. til morguns, þar sein skipulag er gott. En þótt ekki væri lengra farið, þótti samt ekki rjett, að ekki mætti veita undanþágur, ef brýna nauðsyn bæri til (sbr. 2. gr. frv.), og er þess getið í greinargerð fyrir frv. og tekin fram þau atriði, sem sjálfsagt væri að veita undanþágu um.

En þar er um enga almenna undanþágu að ræða, því þá væru lögin einskisvirði. — Jeg legg það til, að málinu verði vísað til allshn.