11.03.1925
Neðri deild: 30. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í C-deild Alþingistíðinda. (2301)

87. mál, einkasala á saltfiski

Flm. (Jón Baldvinsson):

Hæstv. atvrh. (MG) þarf alls ekki að undra, þó að jeg flytji þetta frv. hjer af nýju, enda þótt sömu menn sitji í deildinni og síðast, er jeg flutti frv. hjer. Mjer finst það þvert á móti eðlilegt, ef rjett er að ganga út frá því, að mönnum vaxi vit með aldri. Menn ættu eftir því að vera ögn vitrari nú en í fyrra. En hæstv. atvrh. (MG) virðist ekki trúaður á þetta, að menn vitkist með aldrinum. Honum finst líklega dæmi hv. 1. þm. G.-K. (ÁF) afsanna það. En sá hv. þm. (ÁF) hefir lengi fengist við útgerð og verslun, og játaði það afdráttarlaust í fyrra, að fyrirkomulagið væri óþolandi eins og það er. En að vera útgerðarmaður, þekkja þetta og játa, en af einhverjum óskiljanlegum ástæðum ekki fást til að ganga inn á umbætur, það er ekki viturlegt.

Hæstv. atvrh. virðist ekki bera mikið traust til ríkisstjórnarinnar, og heldur, að henni mundi ekki fara vel úr hendi fisksalan. Hann talar náttúrlega fyrir sig. Og ef það er oftraust, að fela honum þetta, þá er gott að vita það strax, meðan tími er til. Vil jeg ráðleggja honum að taka sjer þá nokkra hvíld frá öllum stjórnarvandanum.

Hæstv. atvrh. sagði, að fiskframleiðendur væru ekki fylgjandi þessu frv. Hann veit þó, að ríkisstjórnin hafði með höndum í hitteðfyrra till. frá útgerðarmönnum um að „centralisera“ fiskverslunina á einhvern hátt. (MG: Mjer er ekkert kunnugt um þetta.) Það þykir mjer undarlegt. Hjer var þó að ræða um einskonar lögverndaða „centralisation“.

Hæstv. atvrh. sagði, að flokkur minn hefði ekki flutt slík frv. sem þetta í þeim löndum, þar sem hann færi með völd. Jeg get trúað því, að hann flytji ekki frv. um saltfisksölu, þar sem enginn saltfiskur er framleiddur. Annars veit hæstv. atvrh., ef hann fylgist nokkuð með erlendis, að þó að jafnaðarmannaflokkarnir fari þar sumstaðar með völd, þá hafa þeir þó ekki skilyrðislausan meirihluta að baki, svo að þeir geti komið fram í þingunum hverju sem þeir vilja. Svo er það í Danmörku og Svíþjóð, og eins var á Englandi. (BJ: En þeir eru þá víst í meirihluta hjer!) Hjer er hv. þm. Dala. (BJ) í meirihluta. Hann er nú bráðum kominn aftur fyrir Íhaldsflokkinn í sínum skoðunum. (BJ: Hvað segir flokksvikarinn?) Jeg held, að ástæður hæstv. atvrh. felli ekki frv. frá 2. umr., svo máttlitlar voru þær og vanmegna.