11.03.1925
Neðri deild: 30. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í C-deild Alþingistíðinda. (2305)

87. mál, einkasala á saltfiski

Ágúst Flygenring:

Það var út af þeim orðum hv. flm., að útgerðarmenn hafi sjálfir viðurkent ólag á fisksölunni, með því að leita fyrir sjer um aðstoð hjá stjórninni um betra skipulag á henni, að jeg vildi tala nokkur orð um þetta mál.

Sannleikurinn í þessu máli er sá, að útgerðarmenn kusu nefnd til að athuga, hvort ekki væri hægt að koma í veg fyrir verðhrun á fiski, með því að stemma stigu fyrir því, að stór útboð á honum ættu sjer stað, án þess að einhver nefnd hefði hönd í bagga með því. Þessi nefnd leitaði álits hinna stærri atvinnurekenda og fiskframleiðenda um land alt og spurðist fyrir um það, hvort þeir æsktu slíkrar aðstoðar. En svörin voru öll á einn veg, sem sje neitandi. Áður hafði nefndin leitað til hæstv. stjórnar með fyrirspurn um, hvort hún myndi vilja styðja nefndina að málum, ef til kæmi, og gat stjórnin þá ekki gefið endanlegt svar. En þegar svo var komið, að ekkert samkomulag náðist og nefndin fjekk nei við öllu, þá var auðvitað ekki um annað að gera en hætta. En þetta er aðeins ein sönnun ennþá um það, hversu landsmönnum er meinilla við alt verslunarófrelsi.

Það er auðvitað, að aldrei verður hjá því komist, að hinar og aðrar misfellur á fisksölunni geti átt sjer stað. Er það ekkert sjerstakt fyrir þá atvinnugrein. En því má hv. flm. ekki gleyma, að það hefir aldrei komið til tals meðal útgerðarmanna, að óska þess, að ríkisstjórnin tæki fisksöluna að sjer fyrir þeirra hönd. Þeir vita, að þeir þekkja sjálfir best til þeirra hluta, og vilja hafa óbundnar hendur hjer eftir sem hingað til. Salan hefir líka farið mjög batnandi, og er það dugnaði þeirra og kunnugleika að þakka. Og þó að tap geti orðið einstök ár, fyrir óhöpp eða of mikla framleiðslu, þá mun nú lítil ástæða til að óttast mikið tjón, sem beinlínis megi kenna klaufaskap þeirra um. Og hvað sein ólaginu á versluninni liður, þá er eitt víst, að ekki verður úr því bætt með ríkisverslun. Nei, umbæturnar verða að koma frá atvinnurekendum sjálfum. Og með aukinni þekkingu og reynslu er ástæða til að ætla, að fisksalan fari batnandi. Og í því sambandi er mikið unnið með því að hafa íslenskan fulltrúa á Spáni, sem jafnan getur gefið upplýsingar og leiðbeiningar og sendir heim skýrslur sínar, svo oft sem þurfa þykir.

Jeg fer þá ekki fleiri orðum um þetta, enda óþarfi að eyða löngum tíma til að rökræða mál, sem er fyrirfram dæmt til dauða.