11.03.1925
Neðri deild: 30. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í C-deild Alþingistíðinda. (2309)

87. mál, einkasala á saltfiski

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg vona nú, að umræðurnar um þetta frv. fari að styttast. Og jeg vil þá benda hv. flm. á það, sem jeg hefi ekki áður viljað ásaka hann fyrir, að hann er með flutningi þessa frv. að misbrúka stöðu sína sein þingmaður. Hann er að eyða fje og tíma þingsins í deilur um mál, sem vitanlegt er, að verður drepið og drepið hefir verið á þingi, sem var skipað öllum sömu mönnum sem nú.

Hv. þm. (JBald) þakkar það íslenska loftslaginu, hvað fiskur okkar er í háu verði. En hvernig er um þann fisk, sem er þurkaður í húsum inni Hafa ekki útlendingar sömu aðstöðu til þess eins og við. Að okkar fiskur er betri, kemur til af því, að vjer meðhöndlum hann á sjerstakan hátt, sem útlendingum hefir ekki lærst til fullnustu.

Þá er ófagur vitnisburður hv. þm. (JBald) um jafnaðarmannastjórnirnar. Hann kveður þær stjórna eftir alt öðrum „principum“ en síns eigin flokks, líklega þá „íhaldsprincipum“. Þeir leggja með öðrum orðum áhugamál sín á hilluna til þess að fá að vera í stjórn. Jeg gef þeim bæði sanngjarnari og rjettlátari vitnisburð og segi, að þeir framfylgi ekki sínum stefnumálum vegna þess, að það reynist ókleift og „ópraktiskt“, þegar til kastanna kemur.