19.02.1925
Neðri deild: 11. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í C-deild Alþingistíðinda. (2312)

48. mál, friðun rjúpna

Flm. (Pjetur Ottesen):

Jeg þarf ekki að fylgja þessu litla frv. úr hlaði með langri ræðu, því greinargerð þess, þó stutt sje, nefnir að mestu ástæður þær, sem bygt er á í þessu efni. Aðeins vil jeg geta þess, að á þingmálafundum í vetur í kjördæmi mínu komu fram almennar óskir þess efnis, að rjúpnafriðunarlögunum yrði breytt í það horf, sem frv. fer fram á, og aðallega taldar því til stuðnings ástæður þær, sem nefndar eru í greinargerðinni. Bændur í Borgarfirði litu svo á, að þegar leyft er að veiða rjúpuna á hverju ári, sje ekki ástæða til að hafa veiðitímann lengri en tvo mánuði.

Þegar góð er tíð á haustin og jörð er þíð, koma rjúpnaveiðar í október í bága við jarðabætur og önnur nauðsynleg heimilisverk. Auk þess er það álit þeirra manna, sem kunnugir eru rjúpnaveiðum og lengi hafa við þær fengist, að með þessari breytingu sje það betur trygt en ella, að rjúpan reynist góð verslunarvara. Eftir því sem lengra líður á, hefir unga rjúpan meira verðgildi fyrir þroska sakir, en t. d. um miðjan október er allmikill munur á því, hvað ungarnir eru minni og ljettari en fullorðna rjúpan, og svo snemma eru ungarnir ekki jafnaðarlega farnir að safna í sarpinn, en það er mjög mikilsvert atriði til þess að rjúpan þoli vel geymslu og komist óskemd á markaðinn. Þessvegna er meiri trygging fyrir því, að sú rjúpa, sem seinna er skotin, verði betri verslunarvara.

Af þessum ástæðum er það, að frv. þetta er fram borið, og í umræðum í fyrra um þetta mál var það rjettilega tekið fram af hv. þm. Ak. (BL), sem þá var frsm. landbn. í þessu máli, að það hefði jafnan reynst skaðlegt, hvað snemma hefði verið byrjað að skjóta rjúpuna, og að hann hefði jafnvel getað fallist á að stytta ófriðunartímann enn meir en þá var gert. Vænti jeg, að deildarmenn geti fallist á þessa litlu breytingu og lengi friðunartímann um þessar tvær vikur, sem frv. fer fram á. Landbúnaðarn. hafði þetta mál til meðferðar í fyrra, og geri jeg því að till. minni, að því verði til hennar vísað, að þessari umr. lokinni.