19.02.1925
Neðri deild: 11. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í C-deild Alþingistíðinda. (2315)

48. mál, friðun rjúpna

Flm. (Pjetur Ottesen):

Það er ekki lítil mildi, sem felst í þessum síðustu orðum hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), að vilja lofa frv. þessu að ganga til landbn., til þess að sofna þar hinum hinsta svefni.

Háttv. 1. þm. S.-M. vildi halda því fram, að rjúpnaveiðin í október á haustin kæmi ekkert í bága við störf manna í sveitunum, því að veiðina stunduðu ekki aðrir en þeir, sem heima ættu við sjávarsíðuna, og hefðu því ekkert annað að gera á þeim tíma. En þó nú svo hagi ef til vill til austur í Múlasýslu, þá er því ekki þann veg farið alstaðar, að minsta kosti er rjúpnaveiðin í Borgarfirði nær eingöngu stunduð af sveitamönnum, því að þeir, sem veiðilöndin eiga, leyfa ógjarnan öðrum rjúpnaveiðar í löndum sínum, og það, sem veitt er á þann hátt, er svo hverfandi lítið, að þess gætir ekkert. Og hvernig hagar til með þetta í Borgarfirði, þá er það vitanlega engin undantekning. Rjúpnaveiðin er víðast hvar stunduð af sveitamönnum, nær eingöngu. Er því ekki hægt að mótmæla því, að hún kemur allvíða í bága við nauðsynleg störf sveitamanna á haustin, því að óvíða er sá mannafli í sveitunum, að til tvískifta sje.

Þá er hitt atriðið, sem hv. þm. vildi vefengja hjá mjer, að rjúpan sje lakari til útflutnings, því fyr sem hún er skotin á haustin. Um það get jeg ekki borið af eigin reynslu, en kunnugir menn hafa fullyrt, að svo væri, og er ekki nema eðlilegt, að svo sje. Fyrst og fremst af því, að unga rjúpan er enganvegin orðin fullþroskuð í október, en eins og jeg gat um áðan, hefir því þrásinnis verið veitt eftirtekt, að mikill munur er á ungunum og fullorðnu rjúpunum í október, hvað þetta snertir, en sá munur er að miklu horfinn, þegar kemur fram í nóvember, ef góð er tíð. Það, sem háttv. þm. sagði vera sína reynslu í þessu efni og fer í gagnstæða átt, hlýtur að vera gripið úr lausu lofti hjá honum.

Hvað hitt atriðið snertir, hvenær rjúpan fari að safna í sarpinn og hvaða þýðingu það hefir fyrir rjúpuna, sem útflutningsvöru, þá fer hv. þm. þar einnig villur vegar. Fullorðna rjúpan fer að safna í sarpinn strax og haustar að, en ungarnir gera það aftur á móti ekki fyr en nokkuð líður á, eða venjulega ekki fyr en kemur fram í nóvember. Að þetta hafi þýðingu fyrir útflutning rjúpunnar, verður ekki móti mælt, því að það er alkunnugt, að sú rjúpa, sem sarpurinn er fullur á, geymist miklu betur en sú, sem hefir tóman sarpinn. Og einmitt nú er meiri ástæða til að leggja áherslu á þetta en áður, meðan rjúpan var flutt til Danmerkur, því að þá var hún söltuð í kassana, og saltið hjelt kulda á rjúpunni; gerði þetta því flutninginn öruggari en ella. En nú er farið að senda rjúpuna til Englands, og selst hún þar fyrir hærra verð, en síðan má ekki salta neitt í kassana. Þetta er því svo stórt atriði, að fram hjá því verður ekki gengið.