13.03.1925
Neðri deild: 32. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í C-deild Alþingistíðinda. (2323)

48. mál, friðun rjúpna

Pjetur Ottesen:

Hv. 2. þm. N.-M.(ÁJ) vildi fara fljótt yfir sögu, vegna þess, að þetta væri smámál og hjegómamál. það sló mig dálítið undarlega að heyra slík ummæli, þegar um er að ræða framleiðsluvörur landsins. Verð jeg að segja, að mjer þykir úr hófi keyra, þegar svo er talað um þær tilraunir, sem miða til þess að tryggja vörum okkar betri markað erlendis. En nú er það aðaltilgangur þessa frv. að tryggja betri sölu á þessum afurðum, og vona jeg, þegar hv. frsm. minnihl., 2. þm. N.-M., tók að sjer að fara til útlanda fyrir hönd landsstjórnarinnar á síðastliðnu vori, til að leita betri markaða, að þá hafi hann ekki lagt í þá ferð með þeim hugsunarhætti, að það væri hjegómamál, sem hann ætti að fara að vinna fyrir.

Það má máske segja, að hjer sje um svo lítilfjörlega sölu að ræða, samanborið við alt afurðamagnið, en það er áreiðanlegt, að með skynsamlegri aðferð má tryggja sjer meiri tekjur fyrir rjúpuna en verið hefir, og verðlækkunin, sem varð síðastliðið haust, stafaði af því, að rjúpan kom í laklegu ástandi á markaðinn. En það, að hún þoldi ekki geymsluna, var af því, að byrjað var of snemma að skjóta hana; því að það er alkunnugt, eins og jeg hefi margbent á og fært rök fyrir, að mikill hluti rjúpunnar þolir ver geymslu en ef seinna væri byrjað að skjóta, eins og jeg hefi lagt til.

En um hina ástæðuna, sem hv. þm. Ak. (BL) var að tala um, að Norðlendingar myndu tapa rjúpunni suður til Borgarfjarðar, ef ekki væri byrjað að skjóta svona snemma, verð jeg að segja það, að hv. þm. (BL) þarf ekki að ætla, að með lagasetningu verði því skipað, hvernig fiskar sjávarins haga göngu sinni, eða hvert fuglar loftsins beina flugi sínu. Þessi hv. þm. getur því tileinkað sjer einum þann hjegóma, sem menn hafa verið að tala um í sambandi við þetta mál. Því að sje nokkuð hjegómi, þá er það áreiðanlega þetta, sem hv. þm. (BL) lagði nú til þessara mála.