14.03.1925
Neðri deild: 33. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í C-deild Alþingistíðinda. (2340)

62. mál, vegalög Norðurlandsvegur

Bjarni Jónsson:

Jeg hefi að vísu ekkert nál. sjeð, því að það mun ekki vera til, nema þá þessi ullarlagður, sem vegamálastjóri hefir hnýtt á ermi hv. samgmn. og hún er svo upp með sjer yfir, þar sem hann segir, að Norðurlandsvegur frá Dalsmynni að Hrútafjarðará sje aðeins 25 km. í óbygð, það er að segja, vegurinn yfir Holtavörðuheiði. Þeir, sem farið hafa þessa leið, munu þó telja veginn milli Fornahvamms og Sveinatungu liggja í óbygð, og bætist þar góður spölur við. En nefndin hefir, bæði í þessu og öðru, látið vegamálastjóra telja sjer trú um alt, sem honum þóknaðist.

Jeg hefi nú að vísu ekki gert till. um að flytja þennan veg, enda þótt vegamálastjóri gefi það fyllilega í skyn. Hjer er aðeins lagt til, að tekinn verði í tölu þjóðvega vegur milli landsfjórðunga, sem liggur að mestu leyti um bygðir. Ef góður vegur er lagður fram Laxárdal, má svo heita, að allur vegurinn liggi um sveitir. Engum mun dyljast, að betra sje og gagnlegra, að þjóðvegir liggi fremur um sveitir heldur en fjöll og firnindi, þar sem hægt er að koma því við. Jeg hefi sjálfur oft farið þessa leið, og veit, að tímatöf, sem af því leiðir, er mjög lítil í samanburði við að fara Holtavörðuheiðarveginn. Jeg gæti trúað, að muna kynni 2–3 klukkustundum á tímalengdinni. Jeg þori að vísu ekki að vefengja þær tölur, sem vegamálastjóri greinir um vegalengd, en eftir minni eigin þekkingu á báðum leiðunum efast jeg þó um, að hjer geti engu skeikað.

Þá get jeg ekki sjeð neitt í nál. um veginn frá Búðardal og yfir Laxárdalsheiði. Jeg fæ ekki sjeð, að nefndin hafi að nokkuru leyti tekið það merkilega atriði til íhugunar. Það ætti þó að vera öllum ljóst, hvílíkur munur er á því, að geta stigið af skipsfjöl í Hvammsfirði og komist á vagni norður, og því næst á Húnaflóabát, eða vera á margra daga volki kringum alla Vestfjörðu. Með þessu móti gæti t. d. kaupafólk, sem ætlaði til Skagafjarðar, komist þangað á 3 dögum, í stað 6 nú. Mjer finst því, að engum ætti að dyljast sú nauðsyn, að gera þann veg að þjóðvegi. Annars veit jeg, að hv. þm. Húnv. skilja þetta mál eins vel og jeg og augljósa gagnsemi þess fyrir sina sýslu og aðrar norðursýslur á sínum tíma, og þá býst jeg ekki við, að hv. þm. Str. (TrÞ) sjáist yfir hagsmuni síns kjördæmis í sambandi við þetta mál.

Jeg minnist þess, að þá er jeg ferðaðist í Noregi, var jafnan stigið af skipsfjöl í fjarðarbotni, farið yfir fjallgarð til næsta fjarðar á vagni og þar stigið á skipsfjöl aftur, í stað þess að krækja fyrir andnes öll. — Jeg þarf ekki að eyða orðum að því, hversu gagnleg slík tilhögun er. Tími og fje sparast við það, að taka styttri leiðina fram yfir þá lengri.

Það er alveg satt, að þetta er ekki eftir gildandi vegalögum. Nefndin ber fram þær ástæður gegn vegalagafrv. í heild í nál., að þau bindi ríkissjóði of þunga bagga, og raski auk þess jafnvægi milli einstakra hjeraða.

Frv. mitt felur auðvitað í sjer breytingu, því að það er um breytingu á vegalögunum, en sú breyting er aðeins til góðs og gagns. Tæplega verður það til sanns vegar fært, að það raski jafnvægi milli hjeraða, þar sem Vesturland alt, að undanteknum Vestfjörðum, og alt Norðurland nýtur góðs af breytingunni. Svo viðtæk er nytsemi hennar.

Jeg skal að lokum taka það fram, að jeg mun ekki taka þetta frv. aftur, enda þótt jeg kunni að gera brtt. við það við 3. umr. það er því alveg óhætt að samþ. frv. þangað til.

Annars vildi jeg æskja þess, að bæði hv. samgmn. og aðrar nefndir, er um mál fjalla, vildu láta svo lítið að athuga málin að einhverju leyti, í stað þess að afgreiða þau frá sjer með dagskrá og geyma til seinni þinga. Það gæti farið svo, að talsvert yrði að gera á síðasta þinginu, sem haldið verður, ef þeim upptekna hætti er haldið áfram. Annars mun jeg láta hjer staðar numið og aðeins endurtaka það, sem jeg áður hefi sagt, að jeg tek ekki frv. aftur, en mun koma með brtt. við 3. umr.