14.03.1925
Neðri deild: 33. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í C-deild Alþingistíðinda. (2343)

62. mál, vegalög Norðurlandsvegur

Klemens Jónsson:

Jeg get ómögulega setið lengur undir þessum umræðum, án þess að svara. Ummæli hv. þm. Dala. (BJ) eru algerlega rakalaus, og lítur út fyrir, að hann hafi ekki kynt sjer málið nægilega, og jafnvel ekki einu sinni lesið nál. Hann talar um rökstudda dagskrá í sambandi við nefndina, og að hún vilji vísa málinu til stjórnarinnar, en nefndin leggur ekki neitt þvílíkt til, heldur leggur hún beinlínis til, að frv. sje felt.

Þá er annað, sem jeg leyfi mjer að mótmæla algerlega. Hann segir, að nefndin hafi ekkert um málið fjallað, en látið nægja að fara til einhvers manns úti í bæ til þess að fá tillögur. Hver er þá þessi einhver maður úti í bæ? Það er vegamálastjóri landsins, maðurinn, sem hefir öll þessi störf með höndum, þekkir þau best og á vitanlega að ráða mestu um skipun þeirra. Jeg get ekki álitið, að hv. þm. (BJ) hafi neinn rjett til þess að tala svo um hefndina sem hann hefir gert, nje um manninn, sem hún, eins og sjálfsagt var, sneri sjer til.

Jeg skal ekki fara út í frv. sjálft, en geta má þess, að það yrði margfaldur kostnaður, að flytja brautina norður í land frá Holtavörðuheiði vestur um Dali. Á Holtavörðuheiði er búið að gera mikil mannvirki, byggja stórt sæluhús, brúa ár o. fl. En þeim mun kunnugt, sem farið hafa um Bröttubrekku, að þar yrði mjög erfitt að leggja veg.

Aðallega vildi jeg mæla á móti ummælum hv. þm. Dalamanna um nefndina og manninn, sem hún leitaði til, og tel þau alls ekki á rjettum rökum bygð. Nefndin hefir rannsakað málið fullkomlega og alls ekki kastað til þess höndum.