12.03.1925
Neðri deild: 31. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í C-deild Alþingistíðinda. (2355)

45. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Frsm. meirihl. (Jakob Möller):

Það er sjálfsagt óþarft að orðlengja mikið um þetta frv. nú, sem var svo ítarlega rætt á síðasta þingi. Eins og frv. liggur nú fyrir, er það að vísu dálítið breytt frá því, sem það var í fyrra. Breytingin er í því fólgin, að í stað þess að svifta hina brotlegu skipstjóra æfilangt öllum skipstjórnarrjettindum, á hvaða skipi sem var, er nú það vægara í sakirnar farið, að farið er fram á svifting rjettar til skipstjórnar á fiskiskipum einum um eitt ár við fyrsta brot, en tvö ár fyrir annað brot, en æfilangan rjettindamissi leiðir þó af broti í þriðja sinn. Annars hefði það átt að nægja, að svifta mennina rjetti til skipstjórnar á botnvörpuskipum einum. En það er þó ekki þetta, sem gerir mest um andstöðu meirihl. nefndarinnar gegn þessu frv. Nei, meirihl. lítur svo á, eins og kom svo skýrt fram í umræðunum um þetta mál í fyrra, að það sje mjög óviðeigandi í allri löggjöf að fara að eins og frv. leggur til, að ákveða aðra hegningu fyrir innlenda menn en erlenda. í öðru lagi skiftir það eigi svo miklu máli, hvernig landhelgisgæslunni er framfylgt gagnvart innlendum mönnum, því að fjöldi hinna erlendu botnvörpuskipa er svo yfirgnæfandi, að það gerir lítið til, hvernig þeir innlendu haga sjer.

Þetta, að ákveða strangari hegningu fyrir innlenda menn, er því bæði ósanngjarnt og næstum hlægilegt, þegar það er athugað, hversu lítil áhrif þeir hafa á veiðarnar í landhelgi. Auk þess er það afarhart að gengið, að svifta menn skilyrðislaust rjettindum fyrir það eitt, að hafa máske vilst óvart inn fyrir landhelgislínuna. Hitt er annað mál, þó að þessi hegning væri lögð við broti, sem augljóst væri um, að menn hefðu framið af ásettu ráði og vitandi vits um að þeir væru að traðka landhelgislögunum, t. d. þegar menn eru staðnir að veiðum langt inni í fjörðum o. s. frv. En samkvæmt orðalagi frv. gæti það vel komið fyrir, að alsaklaus maður, sem óafvitandi hefði farið inn fyrir línuna, verði fyrir þyngstu hegningu laganna, og þar við bætist, að honum er varnað eftirleiðis að vinna fyrir sjer á þann hátt, sem hann hefir lært til og áður haft að aðalstarfi. Í öðru lagi ber að athuga, hvaða afleiðingar þessi ákvæði gætu haft í framkvæmdinni. Það vita allir, hversu þýðingarmikið það er fyrir útgerðarmennina að halda sem lengst í góða og æfða skipstjóra. En það varðar ekki aðeins útgerðarmennina, hvort útgerðin gengur vel eða illa, heldur varðar það miklu hag landsins í heild. En mundi ekki einmitt þetta valda því, þegar annarsvegar væri um rjettindamissi skipstjórans að ræða, að slælegar yrði framfylgt landhelgisgæslunni. Mundi það ekki þykja viðurhlutamikið, að láta ef til vill óviljaverk eða vafasama sekt verða til þess að svifta fiskiflotann duglegustu fiskimönnunum. En hinsvegar væri á það að líta, hvað svo yrði um þessa menn, ef þeir yrðu að hröklast í burtu. Það er ekkert líklegra en að þeir leituðu sjer atvinnu einmitt hjá keppinautunum og hjeldu áfram að stunda fiskiveiðar hjer við land á útlendum skipum, og væri það lítill hagur landinu, eða að þeir yrðu allir „leppaðir“ áfram á skipunum.

Meirihluti nefndarinnar álítur því aðeins vera einn veg í þessu máli til góðrar úrlausnar, og það er að efla strandgæsluna svo, að lögbrotum verði eigi komið við. Hörð refsiákvæði, sem illa er framfylgt, gera fremur ógagn en gagn. Það er ákaflega tvíeggjað, að setja svo þung refsiákvæði í lög, að þyngri sjeu en rjettmætt er að aþmenningsáiiti eða sanngjarnt, því að það gerir eftirlitið miklu slælegra og hefir alment siðspillandi áhrif. Hinsvegar er altaf opin leið fyrir löggjafarvaldið að herða á sektarákvæðunum, ef þau reynast of væg, og ákveða sektarfjeð svo hátt, að landhelgisveiðar borgi sig alls ekki, enda kæmi slík refsing jafnt niður á erlendum sem innlendum lögbrjótum. Það gæti jafnvel komið til mála, að gera skipin upptæk, því að það kæmi einnig jafnt niður á öllum, og er jeg hissa á, að hv. flm. hafa eigi sett ákvæði í þá átt í frv. Það lítur jafnvel svo út, að þeir vitandi vits vilji gera upp í milli innlendra og erlendra lögbrjóta. Jeg verð að segja, að eftir þá útreið, sem þetta frv. fjekk í fyrra, er jeg hálfhissa á, að það skuli hafa verið tekið upp aftur að nýju. En við því er þó í rauninni ekkert segja, og er sjálfsagt, að málið gangi sinn venjulega gang, enda munu afdrifin og verða lík nú og í fyrra.