08.05.1925
Neðri deild: 75. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1011 í B-deild Alþingistíðinda. (236)

1. mál, fjárlög 1926

Frsm. fyrri kafla (Þórarinn Jónsson):

Jeg vænti þess að geta orðið stuttorður að þessu sinni, en þó vil jeg leyfa mjer að drepa lítið eitt á gang málsins síðan það fór hjeðan úr deildinni. Þegar fjárlagafrv. fór úr þessari hv. deild til hv. Ed., var tekjuhallinn áætlaður um 356 þús. kr., en þegar það kemur hingað aftur, er tekjuhallinn orðinn 375 þús. kr. Þetta lítur nú ofursakleysislega út á pappírnum, en þegar nánar er að gætt, verður hallinn af völdum hv. Ed. miklu hærri. Hún hefir sem sje hækkað tekjuáætlunina um 130 þús. kr. Auk þess hefir hún lækkað ýmsa útgjaldaliði, er þessi h v. deild hafði samþykt, en hækkað aðra, og nema hækkanir hv. Ed., umfram lækkanir hennar, um 149 þús. kr.

Sumar af till. Nd., sem Ed. hefir felt niður, hefir hún bara látið niður falla til að sýnast, því að þær voru orðnar samningsbundnar og hv. Ed. vissi um þá samninga. Fjvn. Nd. hefir ekki sjeð sjer annað fært en að taka þá liði upp aftur.

Þá skal jeg leyfa mjer að minnast á þær breytingar, sem nefndin hefir ekki hreyft við. Er þá fyrst fyrir ríkisráðskostnaðurinn, sem hv. Ed. hefir hækkað úr 4000 kr. upp í 6000 kr. Þótt nefndin í Nd. telji að vísu 4000 kr. nægilega háa upphæð, hefir hún þó ekki viljað hreyfa við þessu, til þess að forðast alt stríð við háttv. Ed.

Þá er breyting við 12. gr. Styrkurinn til utanferða lækna hækkaður um 1000 kr. og ekki bundinn við nafn. Nefndin hefir ekkert haft við það að athuga.

Viðvíkjandi fjárframlaginu til byggingar heilsuhælis á Norðurlandi hefir hv. Ed. bætt inn aths. til bóta, sem sje, að sú greiðsla verði ekki int af hendi nema „trygging sje fyrir því, að einnig verði fyrir hendi sama upphæð, sem síðari fjárveitingunni úr ríkissjóði nemur.“ Jeg skil það svo, að fyrri greiðslan verði ekki int af hendi fyr en sú trygging er komin.

Þá hefir hv. Ed. sett inn í 13. gr. 4000 króna fjárveitingu til Langadalsvegar. Nefndin hefir ekkert haft við það að athuga, því að bæði er upphæðin lítil og brýn þörf fyrir hendi.

Enn hefir hv. Ed. gert eina smábreytingu við 13. gr. Hún hefir hækkað kostnaðinn við aðalskrifstofu landssímans um 2000 kr. Nefndin telur þetta rjett eftir atvikum og hefir ekki viljað hrófla við því, til þess að forðast stríð við hv. Ed.

Þá vil jeg minnast á brtt. nefndarinnar við 12. og 13. gr. Fyrri brtt. við 12. gr. er sú, að hækka styrkinn til augnlækningaferða kringum land úr 500 upp í 1000 kr. Er það tilætlun nefndarinnar, að styrkur þessi skiftist að jöfnu milli augnlæknanna tveggja hjer, Helga Skúlasonar og Guðmundar Guðfinnssonar. Það hefir áður verið kvartað undan því, meðan augnlæknirinn var einn, að hann kæmi á of fáa staði, og nú hefir Guðmundur Guðfinnsson sótt um 500 kr. styrk til ferðalaga. Nefndin álítur þessu fje því vel varið og ætlast til, að landinu verði skift niður á milli þeirra. Mætti skifta landinu niður eftir tillögum landlæknis, og yrði þá sjeð um, að þeir hefðu dvöl á að minsta kosti einni eða tveimur höfnum í hverri sýslu og ferðuðust ef til vill eitthvað landveg, þar sem brýna nauðsyn bæri til.

Þá er önnur brtt. við 12. gr., hækkun til sjúkraskýla og læknisbústaða, 14 þús. kr. Þessi hækkun kann nú að virðast undarleg, en hjer stendur alveg sjerstaklega á. Nefndin ætlast til þess, að hækkun þessi gangi til Reykhólahjeraðs og Hofsóss. Á Hofsósi er svo ástatt, að þangað er nýkominn læknir, en hann er á förum aftur, og hjeraðið getur ekki fengið lækni aftur, nema leggja honum til bústað. Nú er læknishús þar til sölu með góðum kjörum. Kaupverðið er 10 þús. kr. Má hafa þar 4–5 sjúkrarúm og fylgir auk þess með í kaupinu fjós og hlaða. Þetta er talið þurfa einhverrar aðgerðar við, en álitið, að 6000 kr. nægi sem 1/3 hluti kostnaðar. Nefndin áleit ekki rjett að neita um þessa fjárhæð, þar sem svona stóð á.

Að því er snertir hitt hjeraðið, Reykhólahjerað, þá hefir það verið læknislaust síðustu 5 árin og hjeraðsbúar orðið að leita læknis til Hólmavíkur. Nú hafa hjeraðsbúar keypt jörð; landlæknir vill láta byggja, því að hjeraðið verður læknislaust þangað til. Áætlaður kostnaður er ca. 30 þús. kr., en nefndin telur, að hann muni ekki fara fram úr 24 þús. kr., þar sem byggingarefni hefir lækkað í verði. Hún hefir því lagt til, að þessu hjeraði verði veittar 8 þús. kr. sem 1/3 kostnaðar.

Þá er brtt. við 13. gr., um að hækka styrkinn til Eimskipafjelags Íslands úr 45 þús. kr. upp í 60 þús. kr. Eimskipafjelagið hefir farið fram á þessa hækkun. Það dylst engum, að hagur þess er hvergi nærri góður, og nefndin vill mæla hið besta með hækkun þessari.

Að síðustu er brtt. við 13. gr. D. IV. 4, um þráðlausu stöðina í Reykjavík, og er þess efnis, að síðari málsliður aths. skuli orðast svo:

„Ennfremur er henni falið að gera samning um skeytasamband við umheiminn frá þeim tíma, er einkaleyfi Mikla norræna ritsímafjelagsins er lokið, enda taki Alþingi fullnaðarályktun um málið.“

Það er ólíklegt, að lakari samningar takist, þótt Alþingi hafi fullnaðarúrslit samninganna.

Þá á fjvn. ekki fleiri brtt. við þennan kafla fjárlaganna, og hefi jeg því ekki ástæðu til að fara lengra út í þessa sálma að svo stöddu.