12.03.1925
Neðri deild: 31. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í C-deild Alþingistíðinda. (2360)

45. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Frsm. meirihl. (Jakob Möller):

Mig furðar ekki, þó að hv. þm. Borgf. (PO) sje áhugamál, að þetta gangi fram, því að hann þykist þá hafa himin höndum tekið, þar sem það skin í gegnum orð hans, að enginn togari muni þora inn fyrir landhelgislínuna, ef frv. verður samþykt. En það er einmitt miskilningur hjá háttv. flm., hvað þeir halda, að það hafi mikla þýðingu, því að það hefir bókstaflega enga þýðingu, sem sjá má af því, hve sjaldan það kemur fyrir, að íslenskir togarar sjeu sektaðir, í samanburði við þá útlendu, sem liggur í því, hversu íslensku togararnir eru fáir í samanburði við hina. (PO: Það eru þó 8 innlendir, sem eru undir ákæru nú, og dómur þegar fallinn um 3!) Já, en þær ákærur hafa safnast fyrir á löngum tíma, jafnvel svo árum skiftir. Og hvernig er um eitt af þessum skipum? Það vita allir, að það var ekki í landhelgi, þó að varðbáturinn sverji (og það vitanlega í góðri trú), að svo hafi verið, og það verði því kanske dæmt eftir líkum, þó að það sje saklaust. (PO: Í því máli er ekki fallinn dómur ennþá.) Þannig geta því komið fyrir tilfelli, sem skipin geta ekki sannað sakleysi sitt, þó saklaus sjeu. Er nú nokkurt rjettlæti í því, þegar slík tilfelli koma fyrir, og skipin verða að greiða háa sekt fyrir brot, sem þau hafa ekki framið, að svifta líka skipstjóra þeirra rjettindum, jafnvel æfilangt? — Jeg svara hiklaust neitandi.

Hv. þm. Borgf. (PO) talaði mikið um þá menn, sem mest yrðu fyrir barðinu á lögbrjótunum. Jeg skal ekkert lá honum, þó að hann beri hag slíkra manna fyrir brjósti. En það er mjer ekki skiljanlegt, hversvegna hann telur þennan yfirgang aðallega íslensku togurunum að kenna. Hversvegna kæra mennirnir þá ekki fyrir dómstólunum, þar sem mjög auðvelt er að koma fram hegningu gagnvart þeim, þó að þeir sjeu ekki teknir af varðskipi? Sannleikurinn er sá, að tilfellin eru mjög fá. Jeg er því hræddur um, að þetta sje reykur einn, sem þessi háttv. þm. og þeir aðrir, sem æstastir eru í þessu máli, hafa þyrlað upp.

Maður kannast vel við sögurnar um, að útlendu togararnir elti þá innlendu inn í landhelgina. En þetta eru eins og hverjar aðrar sögur, sem enginn fótur er fyrir í upphafi, en maður hefir sagt manni og ýmsir orðið svo til þess að trúa þeim.

Það er aldrei nema rjett, að flestir innlendu togararnir hafa loftskeytatæki. En þeir eru fleiri, sem hafa þau, t. d. flestallir franskir togarar. Þessi ásökun á hendur íslensku togurunum er því út í loftið hjá háttv. þingmanni. (PO: Útlendu togararnir hafa ekki samband við land, eins og þeir innlendu.) Háttv. þm. má trúa því, að útlendu togararnir geta fengið samband við land, sem kemur þeim að fullu gagni, ef þeir telja þess þörf.

Háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) vildi vefengja það, að fyrir gæti komið, að togararnir færu óviljandi inn í landhelgi. Um það skal jeg ekki deila við hv. þm., því að jeg þykist vita, að hann hafi heyrt mörg dæmi þess — að minsta kosti það, sem háttv. þm. N.-Ísf. (JAJ) sagði eftir foringjum varðskipsins.

Í slíkum lögum sem þessum verður að minsta kosti að heimta, að fullkomnar sannanir sjeu fyrir um, að skip það, sem kært er, hafi verið í landhelgi, þegar svifta á menn rjettindum. Því altaf geta komið fyrir vafatilfelli, eins og dæmið um skip það sýnir, er varðbáturinn í Garðinum kærði. Þarf því að setja inn ákvæði um, að þeir skipstjórar missi ekki rjettindi, sem dæmdir eru eftir líkum. Vænti jeg því, að brtt, sem gengur í þá átt, verði tekið vel, ef málið skyldi þó slysast til 3. umr.

Háttv. þm. V.-Ísf. (ÁA) sagði, að þeir skipstjórar væru kallaðir góðir, sem mikið fiskuðu í landhelgi. Þetta er vitanlega argasti útúrsnúningur; ummælin slitin út úr sambandi. En vitanlega getur það hent góða skipstjóra að lenda óviljandi inn fyrir landhelgislínuna, og vitanlega eru þeir líka breyskir, eins og aðrir menn.

Jeg hefi bent á aðra leið til þess að herða á viðurlaginu fyrir landhelgisbrot, sem gengið gæti jafnt yfir alla og því líklegri til að ná tilganginum. Það er enn frekari hækkun sekta og jafnvel upptekt skipsins. Ef sú leið verður farin, er jeg fús til að ljá fylgi mitt. En hin leiðin er bæði ósæmileg og ólíkleg til góðs árangurs. Áhrifin verða þveröfug við það, sem til var ætlast, eins og jeg sýndi fram á í fyrstu ræðu minni og hv. 1. þm. G.-K. (ÁF) árjettaði svo rækilega.