12.03.1925
Neðri deild: 31. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í C-deild Alþingistíðinda. (2361)

45. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Frsm. minnihl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Jeg vildi fyrst víkja nokkrum orðum að hv. þm. N.-Ísf. (JAJ). Hann talaði mjög um það, að refsing sú, er frv. fer fram á að beitt sje við brotlega skipstjóra, sje fágætlega þung. Sjálfur leggur hann þó til, að svifta skipstjóra rjetti til skipstjórnar um fimm ára bil eftir þriðja brot, og lætur fylgja þau ummæli, að það sje í rauninni sama og æfilangur rjettindamissir. Hann er því alveg eins grimmur og við hinir, og hefði gjarnan getað sparað sjer till. sína. (JAJ: Jeg taldi refsinguna of þunga við fyrsta brot.) Hv. þm. talaði um, að skipstjórar myndu skirrast við að brjóta í annað sinni, er þeir eiga í vændum hegningu þá, er hann ætlar þeim við annað brot. En því þá ekki að láta þá hina sömu hegningu halda þeim frá að fremja fyrsta brotið? Hann komst að þeirri niðurstöðu í lok ræðu sinnar, að þessi löggjöf væri gagnslaus og óþörf, vegna aukinna landhelgisvarna. En hví bar hann þá fram brtt. sína? Jeg skildi eiginlega ekki afstöðu hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) í þessu máli. Hann hvarflaði frá einu til annars og var ýmist með eða móti, eða hvorki með nje móti. Jeg vildi því mega vænta þess, að hann tæki till. sina aftur. (JAJ: Ætli jeg ráði ekki mínum till. sjálfur?) Auðvitað gerir hv. þm. það, en jeg gef honum hjer holt ráð!

Háttv. 1. þm. G.-K. (ÁF) talaði um, að skipstjórar á strandvarnarskipum myndu sleppa sökudólgum af vorkunnsemi, ef þessi ströngu ákvæði næðu fram að ganga. Þó sagði hann jafnframt, að hegningin væri í raun og veru engin, fyrst brotlegir skipstjórar gætu orðið stýrimenn eða fiskiskipstjórar. Þessar röksemdir stangast, og þarf því ekki að sinna þeim frekar.

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) tjáði sig fylgjandi hækkuðum sektum. Hann sagði, að frv. hefði enga þýðingu, en þó einnig, að það væri stórskaðlegt. En ef frv. er gagnslaust, þá er það jafnframt hættulaust; og því er þá verið að hamast á móti því? Sami hv. þm. talaði um, að hjer væri verið að þyrla upp ástæðulausum ótta við landhelgisbrot. Jeg get ekki tekið undir með honum, að þessi ótti sje ástæðulaus. Landhelgisbrot er ekki hægt að áætla eftir því, hve fáar kærur berast utan af landinu. Það er enginn hægðarleikur fyrir menn að koma fyrir sig vörnum, þótt ef til vill fimtíu togarar sjeu á veiðum í fjörðum inni að næturlagi og eru allir farnir að morgni, eða þá eru að veiðum í landhelgi í því veðri, sem opnir bátar komast ekki á sjó. Þessum kærum hefir heldur eigi altaf verið svo vel tekið, að það hafi ýtt undir menn að koma þeim frá sjer. Þetta tvent: örðugleikar á því að sanna sekt lögbrjótanna og dauflegar undirtektir yfirvaldanna, hefir lagst á eitt um að gera landhelgisbrjótum hægara fyrir.

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) mintist á togara, sem kærður hefði verið fyrir ólöglegar veiðar, en öll skipshöfnin svarið fyrir landhelgisbrot. Jeg skal ekki víkja að þessu máli, en hv. þm. hefði ekki átt að hreyfa því, síst í því skyni að nota það sem vopn í þessari baráttu. Jeg skal ekkert um þennan skipstjóra segja, en að allur almenningur sje trúaður á sakleysi hans — það hygg jeg sje ofmælt. Hinn ákærði getur verið sekur, þó að eitthvað hafi ruglast í framburði vitnanna.

Frv., sem hjer er fram borið, er endurhljómur af þeim almennu kvörtunum, sem borist hafa úr ýmsum áttum undanfarið um óhæfilegan ágang á landhelgina.