16.03.1925
Neðri deild: 34. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í C-deild Alþingistíðinda. (2364)

45. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Sigurjón Jónsson:

Afstaða mín til þessa máls er hin sama og á síðasta þingi, og ætlaði jeg mjer að komast hjá því að taka til máls að þessu sinni. En það voru nokkur orð, sem hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) ljet falla og sem ekki hefir verið mótmælt enn, sem komu mjer til að standa upp.

Frv. þetta gerir ráð fyrir því, að innlendir skipstjórar sæti þyngri refsingu fyrir lögreglubrot en við höfum á valdi okkar að beita við erlenda skipstjóra fyrir samskonar brot. Þessum refsiákvæðum, að svifta innlenda skipstjóra rjettindum, sem þeim hafa verið veitt að lögum, getum við ekki beitt gegn erlendum skipstjórum, hve fegnir sem við vildum. M. ö. o., frv. gengur inn á þá braut, að lögfest sje tvennskonar refsing við sama broti, eftir því, hvort sá, er brotið fremur, er innlendur eða erlendur þegn. Og ekki nóg með það; heldur á sá, sem innlendur er, að sæta þyngri refsingu en hægt er að beita gegn erlendum mönnum. Í löggjöfinni verður ekki gengið út frá öðru en að brotið sje hið sama, hvort sem innlendur eða útlendur maður fremur það. En þar sem hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) vildi halda því fram, að brot íslensku skipstjóranna væri meira, þá skal jeg einmitt sýna fram á hið gagnstæða. Hv. þm. (ÁÁ) vildi sanna þessa staðhæfingu sína með því, að rjett væri að heimta af innlendum mönnum meiri samúð með landslögum og rjetti og meiri samúð með þeim, sem tjón biðu af landhelgisveiðum, en hægt væri að búast við af útlendingum. Nú er mjer talsvert kunnugt um, að þessu er einmitt svo varið. Íslensku skipstjórarnir sýna innlendum mönnum yfirleitt miklu meiri samúð en hinir erlendu, sem og eðlilegt er og ekkert sjerstaklega þakkarvert. Fyrir vestan land kemur það mjög oft fyrir, að togarar eru að veiðum á sömu slóðum og vestfirskir línubátar, og bera sjómennirnir á línubátunum íslensku togaraskipstjórunum þann vitnisburð, að þeir varist af mikilli samviskusemi að skemma veiðarfæri línubátanna, þar sem erlendu skipstjórarnir sýni aftur á móti fullkomið kæruleysi oft og tíðum. Það mun því sönnu næst, að samúð innlendu skipstjóranna sje yfirleitt meiri, sem heldur er ekki að þakka, þó að rjett sje að láta þá njóta sannmælis.

Hitt er annað mál, hvort rjett sje, að löggjöfin ákveði refsingu fyrir brot á þessum grundvelli. Jeg fyrir mitt leyti álít það ekki rjett.

Ef við lítum nánar á þessi landhelgisbrot, þá mun rjettara að telja brot Íslensku skipstjóranna minni en hinna erlendu. Sem íslenskir ríkisborgarar hafa þeir rjett til að veiða í landhelgi, annara en botnvörpuveiða. Botnvörpuveiðar í landhelgi er eina landhelgisbrotið, sem þeir geta framið, og hefi jeg enga tilhneigingu til að verja það brot, hver sem það fremur. Auk þess hafa þeir rjett til að gera að afla sínum innan landhelgislinunnar og vinna ýms störf, sem erlendum skipstjórum er allsendis óheimilt. Þeim er alls ekki heimilt að vinna nokkur slík störf í íslenskri landhelgi, hvað þá heldur fiska, og það allra síst með botnvörpu. Þeirra brot verður því altaf stærra en íslensku skipstjóranna.

Í frv. er því ekki aðeins farið fram á að leggja mismunandi refsingu við sama broti, heldur jafnvel að ákveða þyngri refsingu við minna brotinu.

Jeg verð að segja, að íslenskur þegnrjettur þessara skipstjóra fer að verða dálítið undarlegur gripur, þegar hann á að snúast þeim í óhag, þannig, að hans vegna fái þeir þyngri hegningu en erlendur maður, sem fremur svipað eða jafnvel meira brot, því að allar tilraunir, sem gerðar hafa verið til að sanna, að brot innlendu skipstjóranna sje meira, eru mjög fjarri öllum sanni.