16.03.1925
Neðri deild: 34. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í C-deild Alþingistíðinda. (2366)

45. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Frsm. minnihl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) hefir reynt að færa rök að því, að sök íslenskra skipstjóra, þegar um landhelgisbrot er að ræða, sje minni en erlendra skipstjóra. En honum tókst ekki að sannfæra mig, og geri jeg ráð fyrir, að svo hafi verið um aðra. Þó að íslenskir skipstjórar hafi rjett til að gera að fiski í landhelgi, dregur það ekkert úr sekt þeirra, ef þeir nota þar vörpuna. Ætti þetta að vera öllum augljóst. Um það skal jeg lítið ræða, hversu mikla samúð íslenskir skipstjórar sýni innlendum fiskimönnum eða litla. Margt hefir heyrst og heyrist um það, að þeir sjeu ekki barnanna bestir, hvað spellvirkin snertir, þegar þeir sjá sjer færi. Hitt er vitanlegt, að sjómenn leitast við að hjálpa hver öðrum í sjávarháska, og það á jafnt við um útlenda sem innlenda. En jeg tek þetta fram enn: á þessu byggist það, að innlendir skipstjórar eiga að sæta þyngri refsingu, að þeir hafa betri tök á að brjóta, en ættu hinsvegar undantekningarlaust að hafa þá reglu, að fara aldrei inn fyrir landhelgislínuna til veiða, bæði sakir ungfiskjarins og eins sakir hagsmuna landa sinna.

Hv. frsm. meirihl. (JakM) kom með þá fullyrðingu, að strangari landhelgisgæsla kynni að sljóvga eftirlitið. Hv.þm. vex um of í augum þessi hegning, þegar hann býst við því, að landhelgisverðirnir hætti að gera skyldu sína, ef þessi lög verða samþ. Jeg mótmæli því, að sú hætta geti stafað af þessu, og það er ekki frekari ástæða til þess að ætla það, heldur en að gera ráð fyrir, að lögreglustjóri dragi úr eftirlitli sínu við það, að þungar refsingar eru lagðar á þá, er drýgja glæpi á landi. Hv. þm. (JakM) er altaf að bjóða að fylgja frv., sem fer fram á hækkun sekta, jafnvel í þá átt, að gera skipin upptæk fyrir miklar sakir. Og hann spyr, hversvegna við viljum ekki fara þessa leið. Jeg fyrir mitt leyti kæri mig ekki um hana, meðan það er víst, að hún hefir ekki fylgi meirihluta þingsins. En komi hv. þm. með till. í þá átt og fullvissi mig um, að hún fái samþykki meirihluta þings, þá skal jeg vera hönum þakklátur. Segi þó ekki, að þetta frv. yrði þá tekið aftur.

Hv. þm. ættu að taka það til greina, að þetta ákvæði, sem hjer er farið fram á, nær eingöngu til skipstjóra á botnvörpuskipum. Og við flm. höfum lofað því, að flytja við 3. umr. brtt. þess efnis, að skipstjórar, sem brotlegir verða fyrir þessar veiðar, skuli hafa fullkomin rjettindi á öllum öðrum skipum, bæði fiskiskipum og öðrum. Hegningin er nú ekki meiri en þetta. Og það er ósæmilegt að bera lögreglunni það á brýn, að hún hafi eftirlit sitt minna, ef hún viti, að skipstjórinn muni missa rjettindi sín eitt eða tvö ár. Er hjer og raunar aðallega um fjársekt að ræða, sem er falin í því, að skipstjórinn verður af kaupi sínu þann tímann, sem hann er rjettindalaus.

Annars vil jeg benda á það, að jeg sje ekkert því til fyrirstöðu, ef frv. nær fram að ganga, að dómarar dæmi útlendinga í hærri sektir en innlenda menn. Að þeir haldi sjer ekki við lágmarkið, eins og venja hefir verið um fyrsta brot til þessa, heldur hyggi á hitt, að sekta útlendu mennina hærra en þá innlendu, af því að þeir innlendu fá auk sektarinnar þessa hegningu. Jeg get skýrt frá því, að jeg hefi heyrt eftir enskum skipstjóra, að þeir útlendu skipstjórarnir myndu ekki bera sig upp undan hærri sektum, ef þessi ákvæði yrðu sett um innlenda skipstjóra. Hygg jeg og, að ekki ætti að vera neitt þessu til fyrirstöðu af dómaranna hálfu, en það má athuga betur til 3. umr. Hitt, sem hjer heyrist, að verið sje að leggja í einelti innlenda menn, saklausa, og það einkum bestu skipstjórana, er slík fjarstæða, að manni hlýtur að gremjast. Það er eitthvað annað. Hjer er fyrst og fremst verið að verja innlenda menn, og það eftir háværum kröfum fjölda manna, sem hingað til hafa lítillar verndar notið í þessum efnum. Og þó að skipstjórar, sem þrisvar hafa brotlegir orðið, sjeu sviftir rjettindum sínum að nokkru, þá er þar hvorki um óvenjulega nje óeðlilega þunga refsingu að ræða. Ef menn, sem hafa sjerþekkingu á einhverju sviði, misbeita henni, þá er rjett að svifta þá rjettindum sínum. Lækna má t. d. svifta algerlega læknaleyfi, ef þeir hafa þrisvar verið dæmdir fyrir að vanbrúka heimild sina til þess að gefa út áfengisseðla. Að vísu er þetta heimild, en ekki skylda. En rjettlátara væri, að í lögunum stæði, að lækna skuli svifta leyfi til að gefa út áfengisseðla, ef þeir verði eitt sinn dæmdir fyrir vanbrúkun á heimildinni til að gefa út áfengisseðla, og væru þá þau ákvæði hliðstæð þeim, sem hjer er farið fram á um togaraskipstjórana. Jeg vil og benda á það, að eftir núgildandi lögum má svifta skipstjóra rjettindum fyrir brot, sem eru ekki nándarnærri eins stórfengleg og þetta, því að þeir, sem þrisvar hafa verið staðnir að veiðum í landhelgi, munu þar ekki sjaldan hafa komið. Nú má t. d. svifta skipstjóra rjettindum, ef hann ritar ranga leiðarbók. Jeg skal játa, að það er aðeins heimild, en sje það heimilt við fyrsta brot, get jeg ekki sjeð, að dómarinn geti komist hjá að framfylgja því við þriðja brot.

Jeg hefi svo ekki fleiri orð um þetta, en jeg geri mjer það fyllilega ljóst, að í þessu efni standa hagsmunir tveggja aðila hvorir gegn öðrum, þeirra, sem hafa rjett yfir landhelginni, og hinna, sem á þann rjett ganga.

Og heldur kýs jeg að verja þeirra rjett, sem eiga hann.