16.03.1925
Neðri deild: 34. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í C-deild Alþingistíðinda. (2367)

45. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Frsm. meirihl. (Jakob Möller):

Nú greip hv. frsm. minnihl. (ÁÁ) gamla vopnið, það, að reyna að berja það fram, að andstæðingamir sjeu að verja annara hagsmuni. Jeg get svarað honum því, að jeg geri það aldrei, og jeg vísa slíkum ásökunum ætið heim til föðurhúsanna, hvaðan sem þær koma. Jeg hefi margsinnis sýnt og sannað, að jeg get ekki greitt þessu frv. atkv. mitt, blátt áfram fyrir þá sök, að það er ranglátt og vitlaust. það er rangt að gera mun á innlendum mönnum og útlendum í þessu efni. En nú skal jeg sýna hv. þm. (ÁÁ) fram á, hvernig þetta getur snúist í framkvæmdinni, þannig, að maður, sem sviftur hefir verið skipstjórnarrjettindum í Reykjavík, fer til Hafnarfjarðar og ræður sig þar á togara. Að lokum vil jeg benda hv. þdm. á, að í ræðu hv. frsm. minnihl. (ÁÁ) skaust nú sannleikurinn upp, viljandi eða óviljandi. Hv. flm. hafa borið sig saman við útlenda skipstjóra um, hve langt megi fara í refsiákvæðunum. Já, þeir segja, ef innlendum mönnum verður refsað svo og svo mikið, þá viljum við útlendingarnir ekki mögla út af þyngri sektum.

Er það ekki þetta, sem veldur því, hvernig gert er hjer upp á milli innlendra skipstjóra og útlendra? (ÁÁ: Svara því síðar!) Það er of seint að afturkalla það. Nei, það var eins og jeg sagði, þeir hafa ekki kjark til að herða refsingarnar að því er snertir útlendingana, og vilja því svala sjer með þessu, þó að þeir viti, að það beri engan árangur, því að eins og jeg sagði, að þó að öllum íslenskum togurum væri bægt frá landhelginni, þá hefði það ekki minstu þýðingu fyrir fiskmergðina eða þá menn, sem berjast fyrir tilveru sinni meðfram ströndum landsins, á árabátum með línu eða netum, sem togararnir eyðileggja. Og svo er það líka, eins og allir vita, að það eru mjög fá tilfelli, ef það yfirleitt kemur fyrir, að ísenskir togarar eyðileggi veiðarfæri manna, en hin eru mýmörg, að útlendir togarar geri það. Hv. þm. (ÁÁ) vildi fá tryggingu hjá mjer fyrir því, að meirihl. þingsins fylgdi strangari sektarákvæðum. Hana get jeg ekki gefið. En jeg vil spyrja hann að því, hvaða tryggingu hann hefir fyrir því, að þetta frv. verði samþ. Það var felt hjer í fyrra, og vaninn er sá, að oft eru borin fram frv., sem engin trygging er fyrir, að nái fram að ganga. En hitt ætla jeg, að þeir, sem þessu frv. fylgja, myndu og vera með því að hækka sektir jafnt hjá útlendum og innlendum.