08.05.1925
Neðri deild: 75. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1014 í B-deild Alþingistíðinda. (237)

1. mál, fjárlög 1926

Frsm. síðari kafla (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg skal ekki fara mikið út í þá sálma að gefa háttv. deild yfirlit yfir, hvernig hv. Ed. hefir gengið frá fjárlagafrv. að þessu sinni, enda get jeg vitnað til orða háttv. frsm. fyrri kafla (ÞórJ) um það efni. Hafði jeg þó tilhneigingu í þá átt að víkja örlítið að breytingum hv. Ed. á þessum kafla, en skal þó neita mjer um það, þar sem það er vilji allra hv. þdm., að umr. verði sem allra stystar, en breytingar hv. Ed. margar á þessum síðari kafla.

Þó að fjvn. sje mjög óánægð með ýmsar breytingar hv. Ed. á þessum kafla frv., hefir hún samt ekki borið fram fleiri brtt., vegna þess, að hún vill ekki stofna til ófriðar við hv. Ed. Þess vegna flytur nefndin ekki aðrar brtt. við gerðir háttv. Ed. en hún telur alveg óhjákvæmilegar.

Brtt. fjvn. við þennan síðari kafla eru alls 17.

Fyrsta brtt. er um, að styrkur til útgáfu kenslubóka handa mentaskólanum falli niður.

Hv. Ed. hefir viljað veita 2500 kr. í þessu skyni. Erindi um þennan styrk lá fyrir fjvn. áður en hún afgreiddi till. sínar til 2. umr. hjer í hv. deild, og sá hún þá ekki ástæðu til að verða við þessari beiðni, og sama máli gegnir nú. Þessum styrk á að verja til útgáfu kenslubókar í sagnfræði. Vitanlega viðurkennir nefndin nauðsyn þess að fá íslenska kenslubók í sögu handa æðri skólum landsins, en það er svo margt annað þarflegt, sem verður að bíða betri tíma, svo nefndin álítur, að þessi liður megi falla niður að þessu sinni.

Næsta brtt. er um styrk til verklegs náms erlendis. Sá liður er líka nýr; tekinn upp í hv. Ed. Áður stóð fjárveiting í fjárlögum, sem hljóðaði um styrk til iðnaðarnáms erlendis. Sú fjárveiting var feld niður á síðasta þingi, en nú hefir hv. Ed. tekið hana upp aftur með þeirri breytingu, að nú hljóðar hún um styrk til verklegs náms. Fjvn. hefir viljað fallast á þessa fjárveitingu, en vill aðeins breyta orðalagi hv. Ed. Nefndin er hrædd um, að slíkar styrkveitingar geti orðið nokkuð „húmbugs“-kendar, ef þær verða greiddar skilyrðislaust, án þess að nokkur trygging sje fyrir því, að menn hafi lært eitthvað hjer heima áður en þeir sigla með styrk til „verklegs náms“. Er hætt við, að slíkar ferðir geti orðið skemtiferðir miklu fremur en ferðir til náms, ef styrkurinn verður veittur skilyrðislaust.

Þess vegna vill nefndin ekki veita slíkan styrk öðrum en þeim, sem hafa náð einhverjum verulegum þroska í iðn sinni, og leggur því til, að liðurinn hljóði um styrk til verklegs framhaldsnáms erlendis.

Þá kem jeg að styrkveitingunni til hjeraðsskóla í sveitum. Þetta er nýr liður í fjárlögunum, sem fjvn. fjekk samþyktan við 2. umr. hjer í hv. deild. Nú hefir hv. Ed. breytt aths. við þennan lið og sett það skilyrði fyrir styrkveitingu til að reisa hjeraðsskóla, að 2–3 sýslufjelög taki þátt í kostnaði við byggingu og rekstur hvers skóla. Fjvn. veit, að þetta getur orðið svo í framkvæmdinni, en hinsvegar telur hún ekki rjett að binda styrkinn svo föstu skilyrði. Álítur hún, að þarna verði sniðinn of þröngur stakkur, sem geti komið sjer bagalega gagnvart ýmsum skólum. Til dæmis starfaði slíkur hjeraðsskóli á Heydalsá í Steingrímsfirði fyrir fáum árum og var kostaður af Strandasýslu einni saman. Er alls ekki ólíklegt, að einmitt þessi skóli rísi upp aftur, eða einhver annar, sem ein sýsla stendur að, og er þá ástæðulaust, að svo strangt skilyrði aftri því, að slíkir skólar geti fengið ríkissjóðsstyrk. Vill nefndin því færa aths. í sama horf, sem háttv. deild gekk frá henni við fyrri meðferð frumvarpsins.

Næsta brtt. nefndarinnar er við styrkinn til að gefa út landsuppdrátt Íslands. Þennan lið setti hv. Ed. inn í frv., og þegar fjvn. gekk frá brtt. sínum að þessu sinni, vildi meiri hl. fella hann niður. En síðan hefir sú breyting á orðið, að einum nefndarmanni hefir snúist hugur, og leggur meiri hl. því nú á móti þessari eigin till. nefndarinnar. Er því aðstaða mín orðin erfið að því er þessa till. snertir, en þó vill nefndin ekki taka hana aftur, heldur láta greiða atkv. um hana sem till. minni hl.

Hv. Ed. hefir tekið upp þessa fjárveitingu samkv. erindi, sem borist hafði frá Sambandi ísl. barnakennara, og fylgdu því meðmæli frá Bjarna Sæmundssyni fyrv. yfirkennara og Ögmundi Sigurðssyni skólastjóra í Flensborg. Er tilgangurinn sá, að væntanlegt kort verði notað í öllum skólum landsins og þeim heimilum, sem þess óska, en nú sem stendur vanhagar okkur tilfinnanlega um hentugt Íslandskort til barnakenslu, og á þessi uppdráttur að bæta úr þeim skorti.

En, sem sagt, meiri hl. leggur nú á móti því, að þessi till. nefndarinnar verði samþykt.

Næsta brtt. nefndarinnar fer í þá átt, að styrkur til Leikfjelags Akureyrar falli niður. Þessi liður er einnig nýr, tekinn upp í hv. Ed., en fjvn. sjer enga ástæðu til að veita þennan styrk nú, fremur en áður, þegar hún hafði erindi um hann til meðferðar. Nefndin lítur svo á, að Alþingi hafi nóg á sinni könnu í þessum efnum, þar sem það hefir gert ráðstafanir til þess, að þjóðleikhúsi verði komið upp hjer í Reykjavík áður en langt um líður.

Telur hún rjettara, að því máli verði til lykta ráðið, áður en aðrar styrkveitingar verða upp teknar í þessu skyni.

Þá er næsta brtt. um styrkinn til skálda og listamanna. í stjfrv. voru upphaflega veittar 10 þús. kr. í þessu skyni. En eins og hv. þdm. muna, tók fjvn. skáldin Guðmund Friðjónsson og Jakob Thorarensen út úr og veitti þeim rúmar 2000 kr. samtals, og í samræmi við það var almenna styrkveitingin lækkuð um 2000 kr., niður í 8000 kr. Nú hefir hv. Ed. ákveðið þennan lið 9000 kr., en bæði áðurnefnd skáld eru enn fyrir utan, annar kominn í 18. gr., en hinn er áfram í 15. gr. Fjvn. heldur fast við sína fyrri till. um 8000 kr., og ber því fram brtt. í þá átt:

Hv. Ed. setti inn aths. um orðasöfnunarstyrk Þórbergs Þórðarsonar, þess efnis, að safn hans skuli verða ríkiseign að honum látnum. Fjvn. vill láta þessa athugasemd standa, þó með þeirri breytingu, að orðin „að honum látnum“ falli burt. Getur vel komið fyrir, að til safnsins þurfi að grípa, áður en Þórbergur deyr, t. d. við samningu orðabókar, og telur nefndin rjett, að ekkert verði því til fyrirstöðu.

Næsta brtt. er viðvíkjandi styrkveitingu til tveggja manna til að sækja kennaraþing fyrir Norðurlönd, sem heyja á í Helsingfors nú í sumar.

Um þessa till. nefndarinnar er hið sama að segja og till. um landsuppdráttinn.

Þó meiri hl. leggi til, að liðurinn verði feldur niður, þá hefir einum hv. nefndarmanni snúist hugur við nánari athugun, og er meiri hl. því nú á móti till., en minni hl. heldur fast við hana. Þessi liður var tekinn upp í hv. Ed. vegna erindis frá Sambandi ísl. barnakennara, sem hefir verið boðið að senda tvo menn á fundinn. Hefir Sambandið fengið þá próf. Sigurð Nordal og Ásgeir Ásgeirsson kennara til að mæta þar fyrir sína hönd og flytja fyrirlestra um mentamál Íslendinga.

Brtt. um að fella styrkinn niður kemur til atkv., en meiri hl. leggur á móti henni, eins og jeg hefi áður sagt.

Þá ber nefndin fram till. um að veita Soffíu Guðlaugsdóttur styrk til utanfarar til leiklistarnáms.

Erindi um þessa styrkveitingu er nýkomið til þingsins, og till. því ekki fyr fram borin. Jeg þarf vonandi ekki að fara mörgum orðum um þessa brtt. Öllum hv. þm. er kunnugt, að hjer á í hlut ein allra besta leikkona bæjarins, leikkona, sem á fyllilega skilið að fá einhverja opinbera viðurkenningu fyrir list sína. Í þessu sambandi get jeg bent hv. þm. á, að Alþingi hefir um margra ára skeið styrkt málara, sönglistamenn, skáld o. s. frv. til fullkomnunar í listum sínum, en aldrei hefir styrkur verið veittur til leiklistarnáms, svo jeg viti til.

En eins og jeg drap á áður, hefir Alþingi gert sjerstakar ráðstafanir til, að leikhúsi verði komið upp hjer í höfuðstaðnum, og lítur meiri hl. fjvn. því svo á, að ósamræmi sje í því fólgið að vilja ekki styrkja ágæta leikkonu til frekara náms, svo að leikfjelagið verði betur við því búið að taka við þjóðleikhúsinu á sínum tíma og starfrækja það.

Þá kem jeg að brtt., sem allir áttu von á, að fram yrði borin. Er hún þess efnis að styrkja söngflokk K. F. U. M. hjer í Reykjavík til Noregsferðar. Þessa till. varð að endurprenta, vegna þess að á þskj. 482 eru í henni tvær villur. Þar stendur „gegn þriðjungs framlagi úr bæjarsjóði Reykjavíkur“ í stað „helmings“. Ennfremur vantar orðin „alt að“, sem eiga að sýna, að 8000 kr. er áætlunarupphæð, en þó þannig, að fjárveitingin má ekki verða hærri.

Jeg þarf ekki að fara mörgum orðum um þennan lið. Söngflokkur þessi er öllum að góðu kunnur og myndi verða oss til sóma hvar sem væri. Í fyrra vorum vjer heimsóttir af norskum söngflokki. Koman varð þeim til sæmdar og oss til ánægju. Karlakór K. F. U. M. tók á móti flokki þessum, og æsktu Norðmennirnir eftir heimsókn kórsins á móti. Þetta er því í senn til að endurgjalda heimsókn og efla og glæða bræðralag milli þessara frændþjóða.

Hinsvegar er það ljóst, að söngflokknum er um megn að kosta förina af eigin ramleik. Margir fjelagsmanna eru fátækir menn, er lifa á handafla sínum, og verða þeir að fá aðra í stað sinn meðan á utanförinni stendur. Hinsvegar er ekki hægt að segja neitt ákveðið um tekjur af samsöngvum þeim, er flokkurinn mun halda, en vegna þess, að hjer eiga efnalitlir menn í hlut, er farið fram á þessa fjárveitingu, ef flokkurinn syngur sjer ekki nægilegt inn. Flokkurinn hefir ennfremur snúið sjer til bæjarstjórnar Reykjavíkur um að fá þaðan helming þeirrar upphæðar, sem þingið veitir, og hefir góða von um það.

Mikill meiri hl. fjvn. mælir með fjárveitingu þessari. Fjvn. Ed. var og málinu fylgjandi, en vildi fara aðra leið og veita fjeð utan fjárlaga. En fjvn. Nd. taldi þessa leið heppilegri. Slíkar utanstefnur sem þessa viljum vjer gjarnan hafa, því að þær eru til gagns og sóma.

Þá kem jeg að styrknum til Búnaðarfjelagsins. Jeg get tekið undir það með hv. frsm. fyrri kafla fjárlagafrv. (ÞórJ), að fjvn. Nd. undraðist mjög þá breytingu, er hv. Ed. gerði á styrknum. Hefði sú breyting ekki á orðið þar, hefði vel mátt vera, að fjárlögin hefðu verið samþykt hjer óbreytt.

Jeg get að mestu vísað til ummæla minna viðvíkjandi þessum styrk við 2. umr. Vil jeg þó rifja upp nokkuð af hinum fyrri rökum mínum.

Í þingbyrjun átti búnaðarþingið fund hjer og lagði fram áætlanir sínar. Á bak við fjárbeiðnir þess til Alþingis stóðu allir þeir bændur víðsvegar að af landinu, er búnaðarþingið sóttu. Fjvn. Nd. lækkaði að vísu fjárveitinguna nokkuð frá því, sem búnaðarþingið hafði farið fram á. En till. hennar í því efni voru gerðar í góðu samráði við hæstv. atvrh. (MG). Vissi jeg, að hv. fjvn. Ed. var kunnugt um þetta. Vegna þess, að búnaðarþingið taldi sig hafa fulla vissu fyrir því, að sú fjárveiting, er fjvn. Nd. lagði til, yrði samþykt, gerði það fjárhagsáætlanir sínar fyrir komandi ár með það fyrir augum. Ef nú verður breyting á þessu, verður það til að raska grundvelli starfs Búnaðarfjelagsins á næsta ári og kippa fótum undan framkvæmdum þess. Auk þess er á það lítandi, að óvíða annarsstaðar mun Alþingi hafa jafngóða tryggingu fyrir því, að fje sje vel varið, eins og því, er til Búnaðarfjelagsins gengur. Búnaðarþingið, sem menn af öllu landinu sækja, ráðstafar fje þessu. Í stjórn Búnaðarfjelagsins sitja tveir menn skipaðir af Alþingi og einnig skrifstofustjóri atvinnumálaráðuneytisins. Hjer ætti því að vera fyrir höndum fullkomin trygging þess, að fje þessu yrði vel og skynsamlega varið.

Um næstu brtt., hækkun á styrk til Fiskifjelagsins, er líkt að segja og um næstu brtt. á undan. Að vísu er jeg ekki eins kunnugur því máli. En mjer er kunnugt um, að fje þessu muni vera vel varið, enda kom forseti Fiskifjelagsins á fund fjvn. og gerði ítarlegar till. um starfsemi fjelagsins á næsta ári. Fjvn. sá sjer að vísu ekki fært að verða alveg við fjárbón hans fyrir hönd fjelagsins, en vill halda sjer við till. sínar nú, og leggur því á móti lækkunartill. hv. fjvn. Ed.

Þá kemur till. um að lækka styrkinn til Sambands ísl. heimilisiðnaðarfjelaga um 1000 kr. Hv. Ed. hefir hækkað þennan styrk. Er ekki svo að skilja, að Nd. álíti, að hjer sje um hjegómamál að ræða. En undanfarið hefir nokkur reipdráttur orðið milli fjelags þessa og einstakra kvenna, er að heimilisiðnaði starfa og hafa gert það með mestum árangri, svo sem ungfrú Halldóru Bjarnadóttur og ungfrú Ástu Sighvatsdóttur. Má og nefna í því sambandi Guðmund frá Mosdal. Nd. hefir jafnan viljað styðja þessa einstaklinga engu síður en fjelagið, og fyrir mitt leyti hefði jeg mikla tilhneigingu til að hækka styrkinn til ungfrú Halldóru Bjarnadóttur. Nefndin telur því óþarft að hækka styrkinn til Sambands heimilisiðnaðarfjelaganna.

Næsta brtt. er um styrk til Þórdísar Ólafsdóttur til skólahalds í hannyrðum. Var styrkur þessi samþyktur hjer í Nd., en Ed. feldi hann niður. Mun jeg ekki fjölyrða um brtt. þessa, þar sem málið mun mörgum kunnugt og jeg veit, að hv. þm. Dala. (BJ) muni taka til máls um tillöguna.

brtt., sem næst er, fer fram á að færa ferðakostnað og skrifstofufje Jóhanns Kristjánssonar leiðbeinanda í húsagerð í sama horf og áður. Hv. Ed. hafði fært fjárveitingu þessa niður. Fjvn. vill halda því fram, að hjer sje um bráðnauðsynlega starfsemi að ræða. Margir bændur hafa sótt leiðbeiningar til þessa manns og verið ánægðir með. Þó mun verða enn meiri þörf á leiðbeiningum hans á næstunni en undanfarið, því að þess má vænta, að meira verði gert að byggingum hjer eftir en síðustu ár, einkum ef lögin um ræktunarsjóðinn ná fram að ganga, sem vonandi má telja víst.

Er þá komið að.18. gr.

Verður þar þá fyrst fyrir brtt. um, að aths. við fjárveitingu til Steinunnar Sigurðardóttur falli niður. Var hún sett inn í Ed. Eins og mönnum mun kunnugt vera, er kona þessi ekkja Magnúsar Vigfússonar dyravarðar. Fjekk hún bústað í Landsbankahúsinu og var ætlast til, að hún ynni fyrir húsaleigunni með því að gera opinberar skrifstofur hreinar. Úr þessu hefir þó ekkert orðið enn, og nú er spurningin sú, hver eigi að greiða húsaleiguna. Næði aths. háttv. Ed. fram að ganga, mætti telja, að konu þessari væri veittur 600 kr. viðbótarstyrkur á ári. Fjvn. Nd. telur, að ekki sje ástæða til slíkrar styrkhækkunar, einkum þar sem kona þessi hefir nú hærri styrk en margar aðrar ekkjur opinberra starfsmanna. Fjvn. lítur því svo á, að mikið ósamræmi myndi af þessu leiða, og leggur því til, að aths. falli niður.

Þá koma þrjár brtt. við 22. gr. Verða þá fyrst fyrir tveir nýir liðir um lánsheimildir til Hvammstangahjeraðs og Húsavíkurhjeraðs. Nefndin mælir fyrir sitt leyti með till. þessum, en að öðru leyti mun jeg ekki fjölyrða um brtt. þessar, þar sem jeg geri ráð fyrir, að hv. þm. V.- Húnv. (ÞórJ) og hv. þm. S.-Þ. (IngB) muni tala fyrir þeim. En jafnframt vill nefndin þó taka fram, að hún álítur, að lánveitingar til frystihúsa eigi að sitja fyrir öllum öðrum, og þessi lán verði ekki veitt nema lánveitingar til frystihúsa verði ekki notaðar til hlítar.

Þriðja brtt. við grein þessa fer fram á, að lánsheimild til Kristjáns Linnets bæjarfógeta falli niður. Fjvn. er mótfallin öllum slíkum lánum til einstakra manna. Álítur hún, að fleiri slíkir lánbeiðendur muni á eftir koma, enda er þegar komin lánbeiðni frá sýslumanni á Sauðárkróki. Nefndin vill ekki fara lengra inn á þá braut, og leggur því á móti báðum lánbeiðnunum.

Þá eru ekki fleiri brtt. frá nefndinni. En áður en jeg skilst við þetta mál, vildi jeg víkja máli mínu til hæstv. atvrh. (MG) af landsstjórnarinnar hálfu um kæliskipsmálið og frystihúsatill. fjvn., sem samþyktar voru af báðum deildum.

Tilætlunin var að fela landsstjóminni þetta mál, og ef til vill að fela henni að ráða sjerfróðan mann til að kynnast þessu máli til fulls og annast undirbúning um að eignast kæliskip. Nú er nýtt komið til sögunnar. Hingað kom verkfræðingur einn til landsins frá Ths. Sabroe, einni stærstu og merkustu. kælivjelaverksmiðju í Danmörku. Hefir hann setið á mörgum fundum með fjvn. Nd. og hæstv. atvrh. (MG). Málið hefir mjög skýrst við þessar umræður, og telur nefndin því óþarfar frekari till. í þessu efni. En hitt vill hún brýna fyrir stjórn og þingi, að hún telur sjálfsagt, að um leið og veitt er lán til frystihúsabygginga og þar með ýtt undir bændur til framkvæmda í því efni, að þeim sje jafnframt sjeð fyrir skipakosti til að flytja út kjötið. Lýsi jeg því yfir af hálfu allrar fjvn., að hún telur, að ríkinu beri skylda til að sjá um, að skip verði jafnan til til þeirra flutninga. Vil jeg einkum beina þessum orðum til hæstv. atvrh., og mælist fjvn. til þess, að hann láti skoðun sína í ljós á þessu máli.

Í annan stað vildi jeg lýsa því yfir af hálfu allrar fjvn., að hún telur fyrir sitt leyti sjálfsagt, þó að lánsheimild til að reisa frystihúsin sje ekki til fyr en í fjárlögum 1926, að slík lán verði einnig veitt á árinu 1925 og verði látin sitja fyrir öllum öðrum, ef um þau er sótt og öllum sjálfsögðum skilyrðum fullnægt. Vil jeg einnig leyfa mjer af nefndarinnar hálfu að vænta þess, að hæstv. atvrh. láti í ljós álit sitt um þetta af hálfu landsstjórnarinnar.

Jeg mun hjer ekkj víkja að brtt. einstakra þm., enda er nefndinni ekki kunnugt um ástæður fyrir þeim. Jeg á hjer sjálfur eina brtt., sem jeg vildi minnast á. Fer hún fram á að veita fyrv. skrifstofustjóra Alþingis Einari Þorkelssyni 800 kr. styrk. Hann er hinn eini eiginlegi starfsmaður Alþingis, sem Alþingi hefir að annast. Að vísu hefir honum verið ákveðinn lífeyrir, en svo hefir farið, að vegna mikilla veikinda og ærinnar ómegðar hefir hann undanfarið orðið að þiggja af sveit. Hefi jeg miðað till. mína við það, að honum verði nú veitt sama upphæð í fjárlögum, sem hann hefir orðið að þiggja af almannafje undanfarið. Vona jeg, að deildin sjái sóma sinn í því að láta ekki þiggja af sveit þann eina mann, sem Alþingi hefir sjerstaklega á sínu framfæri.