16.03.1925
Neðri deild: 34. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í C-deild Alþingistíðinda. (2370)

45. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Pjetur Ottesen:

Það var ýmislegt í ræðu hv. frsm. meirihl. (JakM) í dag, og þá ekki síður í ræðu þeirri, sem hann flutti um daginn, er málið var til umr., sem jeg hefði ástæðu til að minnast á. En hv. meðflm. minn og frsm. minnihl. (ÁÁ) hefir nú hrakið þessar ástæður hv. þm. (JakM) svo rækilega og sýnt fram á, á hve röngum forsendum, miklum meinlokum og fjarstæðum þær eru bygðar, að jeg sje ekki ástæðu til að lengja umr. með því að svara þeim að neinum mun.

Hv. þm. (JakM) var að tala um, að við viljum á þann hátt ná markinu, að leggja refsiákvæði á íslenska skipstjóra, sem ekki er hægt að koma fram við útlendinga. Talaði hann í því sambandi um einhvern samning — jeg var í síma, svo að jeg heyrði ekki öll ummæli hans um það. En jeg veit, að meðflm. minn (ÁÁ) svarar þessari aðdróttun. En get á hinn bóginn sagt, af því litla, sem jeg heyrði af því, sem þm. sagði um þetta, að slík ummæli gagnvart mjer og öðrum falla þegar dauð og ómerk niður fyrir fótum þess, er þau leggur sjer í munn. Hitt er margsannað og yfirlýst, ekki aðeins af okkur flm., heldur og af þeim fjölda manna, sem kunnugir eru þessu máli og eiga mikið undir því, að landhelginnar sje gætt, að það, einmitt það, að fara þessa leið, sje sterkur þáttur í því að efla strandvarnirnar. Byggist það á því, eins og margsinnis hefir verið tekið fram, að erlendu skipstjóramir sækjast mjög eftir að vera í samfjelagi við íslenska botnvörpunga að landhelgisveiðum, af því að reynslan hefir kent þeim, að þá eru þeir öruggari en ella fyrir því, að verða fyrir refsivendi laganna.

Hv. þm. (JakM) sagði, að íslenskir togarar hefðu ekki verið kærðir. Jeg veit þó ekki betur en að 6–8 þeirra hafi legið og liggi undir ákærum og að þrír af þeim hafi þegar verið dæmdir til að borga hinar hæstu sektir.

Mjer finst það vera nokkuð hart af hv. 3. þm. Reykv. (JakM) að fella þann dóm yfir þeim mönnum, sem hafa staðfest framburð sinn um brot trollaraskipstjóranna með eiði, að þeir hafi svarið rangan eið — dómur í því máli, sem þessi ummæli hv. þm. lutu að, er enn ófallinn í hæstarjetti.

En það er ekki hlífst við í neinu. Það er slíkt ofurkapp í baráttunni gegn því, að hegningin fyrir landhelgisbrot bitni jafnframt á sökudólgunum sjálfum, skipstjórunum, að ekki er hlífst við að reyna að gera eiðfestan framburð tortryggilegan og þá, sem þar eiga hlut að máli, að meinsærismönnum. En þetta mikla kapp gegn málinu sannar það fullkomlega, að álit þeirra manna í þessu máli er rjett, sem telja með þessu mjög aukna trygginguna fyrir því, að landhelgin verði ekki svo fótum troðin eftirleiðis sem hingað til, ef þetta yrði í lög tekið. Þegar verið er að tala um, að hjer sje gerður mikill aðstöðumunur á íslenskum og útlendum skipstjórum, má benda á, að Englendingar og Þjóðverjar beita hliðstæðum ákvæðum og þeim, sem í frv. þessu felast, þannig, að brotlegu togaraskipstjórarnir í þessum löndum missa rjett sinn til skipstjórnar um mismunandi langan tíma, eftir því, hvort um er að ræða fyrsta brot, eða brotið hefir verið ítrekað.

Það er ekki af neinum ótta við útlendinga, að við leggjum til, að íslensku togaraskipstjórunum sje refsað á þennan hátt, síður en svo, og ef hv. 3. þm. Reykv. (JakM) kemur fram með frv. um að hækka sektirnar, munum við flm. þessa frv. ekki skorast undan að fylgja því. Hv. frsm. meirihl. (JakM) taldi fjarstæðu að setja slíkt ákvæði, meðal annars af því, að skipstjóri, sem hefði orðið brotlegur samkv. þessum ákvæðum, þyrfti ekki annað en fara til Hafnarfjarðar, og gætu þeir gerst skipstjórar á togurum þess fjelags, sem illu heilli hefir komist þangað inn. En hjer er um alveg sjerstakt atvik að ræða, og það því fremur, þar sem fullvíst má telja, að svo verði frá fiskveiðalöggjöfinni gengið, nú á þessu þingi, að sú saga endurtaki sig ekki.

Þegar hv. 3. þm. Reykv. (JakM) er að tala um, að meiri brögð sjeu að því, að útlendir togarar eyðileggi veiðarfæri en þeir íslensku, sem nær aldrei yrðu valdir að slíku, þá mætti, í þessu sambandi, benda þm. á, hvernig fara muni þar, sem þeir trolla um bátamiðin þver og endilöng, þar sem bátarnir eru með veiðarfæri sín, og jeg veit, að hv. 1. þm. G.-K. (ÁF) gæti gefið hv. 3. þm. Reykv. (JakM) upplýsingar um það, hvernig fari með þorskanetin í Garðsjónum, þegar þeir eru að trolla þar á haustin, ljóslausir á nóttunni, og það alveg upp undir landi. Jeg veit, að hv. 1. þm. G.-K. er vel kunnugt um þetta, og hann mun naumast halda svo nokkurn fund þar suður frá, að þeir Suðurnesjabúar beri ekki upp kveinstafi sína yfir þessum búsifjum.

Hæstv. fjrh. (JÞ) rjeðst á frv. þetta og taldi það fjarstæðu eina. Bygði hann ummæli sín á því, að með þessu móti tæki löggjafarvaldið fram fyrir hendurnar á dómstólunum. Og sjerstaklega væri þetta hart, ef um óviljaverk væri að ræða. Það hefir áður verið á það bent, að þau munu harla fá dæmin til þess um íslensku togaraskipstjórana að minsta kosti, að þeir hafi verið staðnir að landhelgisveiðum án þess þeir hafi verið þess fullkomlega meðvitandi, að þeir voru að veiða í landhelgi. Það er því öldungis ástæðulaust að vera að heimfæra þetta upp á það, að þessi refsiákvæði sjeu sjerstaklega ranglát.

Hvað það snertir, að Alþingi sje með slíkri löggjöf að taka fram fyrir hendur dómstólanna, nær ekki nokkurri átt. Það verður vitanlega eftir sem áður að kveða upp dóm í slíkum málum, og gangi dómurinn á móti skipstjóranum, byggist það vitanlega á því, að fullar sannanir hafa verið færðar á sekt hans. Kalla jeg annað eins og þetta sje langt seilst eftir andmælum gegn frv.

Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) hefir reiðst við mig út af því, sem jeg sagði á dögunum, að hann hefði borið kápuna á báðum öxlum í þessu máli í fyrra, og flutt þá brtt., sem ekki hefði verið hægt að skoða öðruvísi en fleyg í málið. En jeg sagði honum það til hróss, að nú hefði hann bætt ráð sitt og legði eindregið til, að frv. næði fram að ganga. Hann hefði líklega setið rólegri, hv. 2. þm. Reykv., ef jeg hefði lagt honum þetta til lasts.

Hv. frsm. meirihl. (JakM) hugði vonlaust að fá mig til að líta rjettum augum á þetta mál. En þessu vil jeg snúa við og segja, að vonlaust sje fyrir hann að fá mig til að líta öðruvísi en rjettum augum á það.