16.03.1925
Neðri deild: 34. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í C-deild Alþingistíðinda. (2375)

45. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Frsm. meirihl. (Jakob Möller):

Hv. þm. Borgf. (PO) sagði, að jeg hefði borið þá alvarlegu ákæru á skipstjóra á gæsluskipum, að þeir hefðu unnið rangan eið. En hv. þm. gætir þess ekki, að menn geta unnið rangan eið í fullkomlega góðri trú, haldið, að þeir sjeu að vinna rjettan eið. Og þá er vitanlega a. m. k. mjög afsakanlegt, þó slíkt komi fyrir. Í þessu tilfelli, sem jeg talaði um, er þetta álitið, og jeg byggi mína sögu á slíkri fregn, að þeir muni fullkomlega hafa trúað því, að þeir bæru rjett fram.

En þetta er jafnþýðingarmikið atriði gagnvart þessu máli fyrir því. Því ef þetta er rjett, þá getur það komið fyrir, að svona þungri refsingu verði beitt, þó í raun og veru ekkert verði sannað, hvort maðurinn sje brotlegur eða ekki. Og það er að minsta kosti þveröfugt við það, sem mun vera venjulegt í öllum öðrum sakamálum, að menn sjeu dæmdir í þyngstu refsingu, þegar ekki liggur fyrir fullkomin sönnun fyrir brotinu, annaðhvort játning eða óyggjandi sönnun.

Hv. frsm. minnihl. (ÁÁ) hafði það eftir mjer, að jeg hefði sagt um hann og flm. frv., að þeir hefðu staðið í samningum við útlenda skipstjóra um það, hvernig ætti að fara að því, að gera innlendum mönnum sem mesta bölvun. Auðvitað hefir mjer aldrei komið neitt til hugar í þessa átt. Hitt sagði jeg, að það hefði komið fram í ræðu hans, að það hefi verið talað um þetta við útlenda skipstjóra. Hann tilfærði meira að segja þau orð, að ef þyngri væri refsing á íslenskum skipstjórum, myndu útlendir skipstjórar ekki taka það illa upp, þó þeir væru dæmdir í hæstu sektir, sem hægt væri.

Það lítur út fyrir, að þetta frv. sje borið fram í þeirri trú, að það þurfi að fara varlega að gagnvart útlendingum, að það þurfi að leggja þyngri refsingu á innlenda menn, til þess að á það sje hættandi, að beita harðri refsingu gagnvart útlendingum. Jeg get þó ekki öðru trúað en að óhætt sje að beita þyngstu refsingu laganna gagnvart útlendum sem innlendum, þegar málavextir eru til þess, og jafnvel held jeg, að hættandi væri á það, að herða refsingu á þeim. Annars má jeg vist ekki að þessu sinni fara frekar út í það mál.