16.03.1925
Neðri deild: 34. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í C-deild Alþingistíðinda. (2378)

45. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Jón Baldvinsson:

Jeg hefi ekki við umr. þessa máls gert grein fyrir, hversvegna jeg væri með frv. þessu. En jeg gerði það í fyrra, þegar frv. var á ferð.

Til þess að sýna hv. þm. Dala. (BJ), að jeg hefi fullgildar ástæður til að vera með því, að herða refsingu fyrir landhelgisbrot, skal jeg skýra frá, hvaða áhrif landhelgisbrot hafa á verkalýð landsins.

Þegar togarar fara inn á Vestfjörðu og kringum Snæfellsnes og þurka upp miðin, svo að smábátaafli bregst svo og svo langa tíð, þá skapar það atvinnuleysi hjá fólki á þessum slóðum. Það verður svo að leita bjargar þar, sem atvinna er meiri. Þessvegna flykkist fólkið til sjávarþorpanna, þar sem þessir togarar hafa bækistöð sína. Og af því jeg álít skaðlegt, að fólkið þyrpist þangað, þá vil jeg með öllu móti reyna að koma í veg fyrir þessi lögbrot, sem spilla atvinnu manna á þeim slóðum, þar sem þau eru framin. Jeg álít frv. miða í þessa átt, og þó jeg játi, að refsingin sje hörð, þá tel jeg hana rjettmæta, vegna þess, hve mikilsvert það er, að hindra lögbrotin á allan hátt. Þessvegna ætti hv. þm. Dala. (BJ) að geta sjeð það, að það er einmitt vegna verkamanna, að jeg verð með því, að fyrirbyggja togaraveiðar í landhelgi.

Þetta dæmi hv. þm. (BJ) nær ekki nokkurri átt, að í byrjun vertíðar myndu allir togarar verða sektaðir og settir á land, og skipshafnir þar af leiðandi missa alla atvinnu. Nema hv. þm. hafi sagnir af því, að allir togarar ætli sjer að gera samtök um að veiða í landhelgi og láta taka sig.

Annars held jeg, að ástæður þær, sem vaka fyrir þeim, er herða vilja á refsingu gegn landhelgisbrotum, sjeu svo alkunnar, að ekki þurfi að rekja þær frekar.